Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 15:30:24 (4047)

1996-03-19 15:30:24# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:30]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hér hefur hv. þm., sem er formaður BSRB, komið upp og lýst því yfir að Lyfjaverslunin hafi verið gefin á silfurfati. Ég vísa þessum ummælum á bug. (SvG: Á hverju var það þá?) Það hefur margoft komið fram með hvaða hætti sú sala var gerð og það hefur margoft komið fram að sú sala hefur verið talin til fyrirmyndar og nú í dag er Lyfjaverslun ríkisins eitt hið myndarlegasta fyrirtæki. Það var selt. Í því starfa starfsmenn sem áður voru starfsmenn ríkisins og standa sig vel og hafa skilað ágætum árangri og þetta fyrirtæki mun vonandi skila ágætum sköttum á næstunni. En þetta dæmi var síðan notað til þess að réttlæta orð eins og böðull, níð, mannfyrirlitning og þess háttar. Síðan var klykkt út með því að segja að það væri vegna þess að við vildum breyta æviráðningunni sem hefur verið breytt í meginatriðum hjá langflestum starfsmönnum ríkisins og í staðinn fyrir að taka upp gagnkvæma samninga með þriggja mánaða uppsagnarfresti alveg eins og gengur og gerist hjá öllu venjulegu starfsfólki, líka hjá þeim sem starfa hjá ríkinu að mestu leyti. Í öðru lagi ætluðum við að reyna að koma í veg fyrir það að fólk væri á tvöföldum launum í sama starfinu, jafnvel hjá sama fyrirtækinu, einungis ef fyrirtækinu væri breytt í hlutafélag en væri ekki almennt opinbert fyrirtæki. Þetta eru ósköpin. Og hv. þm. notar þessi hugtök ,,böðull``, ,,níðingur`` og ,,mannfyrirlitning.`` Þarf ekki hv. þm. aðeins að hugsa áður en hann velur sér orðin í þessum umræðum í dag?