Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 15:33:58 (4049)

1996-03-19 15:33:58# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, JBH
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:33]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þingheimi er auðheyrlega fagnaðarefni að fá að sjá aftur framan í hæstv. fjmrh. Það er auðheyrt að sumir hafa beðið hans með óþreyju (SvG: Hver segir það?) og eru heilar sendinefndir mættar í móttökunefndina. Ekki efa ég að það hafi orðið fagnaðarfundir þegar hæstv. fjmrh. kom aftur norður hingað í nepjuna og hæstv. settur fjmrh., hæstv. forsrh., tók á móti honum með blíðulátum. Ég læt mér ekki detta í hug að rengja það að þeir hafi fallist í faðma enda hefur hæstv. fjmrh. gefið út stórmerka yfirlýsingu um það að þeir séu innilega og hjartanlega sammála um mikilvæg stjórnarfrumvörp, einkum og sér í lagi frumvarp um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna.

Nú er vandinn eiginlega bara sá að það vefst fyrir þingi og þjóð að skilja þessar stórmerku og ánægjulegu yfirlýsingar um samkomulag. Ég bið hæstv. fjmrh. að upplýsa í hverju þetta merkilega samkomulag er fólgið. Er það fólgið í því að það fornkveðna að svona geri maður ekki eigi að gilda sem hæstv. forsrh. sagði efnislega og er gamalkunnt án samráðs við hæstv. fjmrh. að það að leggja fram stjfrv. um lífeyrisréttindi þar sem ekki er staðið við yfirlýsingar um að ekki sé um skerðingu réttinda að ræða? Eða er samkomulagið um það sem hæstv. fjmrh. hefur haft við orð að þeir séu innilega sammála um efnið, þ.e. svona geri menn, og vonir standi til þess að þetta frv. sjái dagsins ljós hið allra fyrsta? Þá væri kannski næst að hæstv. fjmrh. útskýrði fyrir okkur: Hvað er hið allra fyrsta? Er það t.d. núna fyrir þinghléið á föstudaginn eða er það fyrir 1. apríl, væri það ágæt dagsetning að miða við sem eru seinustu forvöð til þess að leggja fram stjórnarfrumvörp án afbrigða eða er það á þessu þingi eða kannski á næsta ári eða næsta kjörtímabili? Hvenær? Hvað þýðir sem allra fyrst hjá þessum fóstbræðrum sem eru svona innilega sammála?

Hæstv. forsrh. hefur gert það áður og hann gerði það einu sinni enn án samráðs við fjmrh. sinn að segja þegar mál er komið í öngþveiti og ógöngur: ,,Svona gerir maður ekki.`` Rök hans voru þau að að því er varðaði það umdeilda frv. um lífeyrisréttindin væri það alveg ótvírætt að það stæðist ekki sem lýst hafði verið yfir fyrir hönd fjmrn. að það fæli ekki í sér neina skerðingu á áunnum réttindum heldur væri einungis um tilfærslu á réttindum að ræða. Nú hafa opinberir starfsmenn ráðið í þjónustu sína tryggingastærðfræðing og niðurstöður hans eru þær að þessi yfirlýsing, sem var burðaryfirlýsing frv., sé ósönn og það sé staðreynd að frv. feli ekki í sér tilfærslu á réttindum, heldur skerðingu á áunnum réttindum. Það er stutt tölum og dæmum og enginn hefur vefengt það. Þetta eiga að vera rökin fyrir því að þetta frv. er ekki nógu gott, svona gerir maður ekki, svona bara gera ekki menn sem stunda þjóðarsátt og búa sig undir mikilvægar kosningar, bara alls ekki, menn gera ekki svona. En þá er spurningin: Á þetta ekki líka við um það frv. sem hér er á dagskrá um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna? Er það ekki svo að gildandi lög séu hluti af starfskjörum og heildarkjörum opinberra starfsmanna? Það er alveg óvefengjanlegt um lífeyrisréttindin. En hvað með þetta? Hæstv. fjmrh. og fjmrn., mandarínar hans, hafa fullyrt að hér sé ekki um að ræða neina skerðingu á samningsbundnum réttindum enda sé þetta mál sem lúti lögum, hundgömlum, úreltum lögum, frá 1954, það sé í engu hróflað við samningsbundnum réttindum.

Talsmenn opinberra starfsmanna hafa rengt þetta og þeir segja að þetta sé ekki rétt. Þeir segja að þetta nýja lagafrv. og breytingar sem í því felast feli í sér skerðingar á réttindum sem varða kjör og að hluta til megi rekja til samningsbundinna réttinda sem þeir hafi greitt atkvæði um. Dæmi um þetta er nefnt að í nafni þess að samræma hlutina til jafns við almenna markaðinn er gerð sú breyting að laun skulu greidd eftir á en ekki fyrir fram. Það eru starfshlunnindi sem má meta í gildi launa að fá laun greidd fyrir fram ef um verðbólgu er að ræða.

Því er haldið fram að ráðningarkjör opinberra starfsmanna séu að ýmsu leyti betri, meira starfsöryggi og meira öryggi t.d. gagnvart uppsögnum en á almenna markaðnum. Að svo miklu leyti sem því er breytt er verið að breyta þar réttindum sem má reikna sem ígildi launa vegna þess að því var á sínum tíma haldið fram að opinberir starfsmenn gætu sætt sig við lægri laun ef þeir hefðu betri réttindi.

Að því er varðar afnám á samningsrétti og verkfallsrétti tiltekinna hópa sem hér hafa verið nefndir, löggæslumenn, tollverðir, fangaverðir og slíkir, er það breyting á kjörum. Því hefur gjarnan verið haldið fram í kjarasamningum að hafi hópar samnings- og verkfallsrétt þá eru þeir í annarri stöðu en ef þeir eru sviptir þessum réttindum og ef það á að svipta einhverja hópa slíkum réttindum sem varða getuna til þess að hækka laun sín megi reikna það sem ígildi launa. Meira að segja að því er varðar biðlaunaréttinn, það sem ég er að mörgu leyti sammála hæstv. fjmrh. og þarf ekki að koma neinum á óvart, er hann samt sem áður, bæði samkvæmt lögum og studdur hæstaréttardómum, orðinn að ígildi launa, þ.e. að afnema hann og afnema hann afturvirkt að hluta til því að hann er takmarkaður líka hjá þeim sem eru í starfi. Ákvæðið á ekki bara við um nýja menn. Þá er spurningin um það, á að afnema þennan rétt án þess að meta það að nokkru í launum?

Virðulegi forseti. Þetta er aðalatriði málsins. Að því er varðar frv. til laga um breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna er það hafið yfir allan vafa að lífeyrisréttindin eru hluti af heildarkjörum opinberra starfsmanna. Þau hafa verið metin betri en almennt á vinnumarkaðinum og í kjarasamningum hafa þau rök verið notuð mjög lengi að vegna þess að opinberir starfsmenn njóti betri lífeyrisréttinda og tryggari en aðrir sé að réttlæting fyrir því að þeir fái lægri laun en almennt gerist á vinnumarkaðinum. Um þetta held ég að enginn deili. Þetta eru þau rök sem forsrh. gerir að sínum þegar hann segir við fjmrh. sinn: Svona gera menn bara ekki.

Ef það er líka rétt hjá opinberum starfsmönnum að það frv. sem hér liggur fyrir eigi að nokkru leyti einnig við um réttindi og skyldur, að það sé verið að draga úr, takmarka eða afnema réttindi sem voru hluti af samningskjörum og höfðu verið notuð til þess að réttlæta lægri laun, þá gildir nákvæmlega það sama um þetta frv. eins og hitt og þá spyr maður: Hvar er hæstv. forsrh.? Ef rökin eru rétt varðandi lífeyrisréttindin að svona geri maður ekki er þá ekki kominn tími til fyrir hæstv. forsrh. ef hann vill vera sjálfum sér samkvæmur að segja: Það er komið á daginn að þetta á líka við um réttindi og skyldur. Svona gerir maður ekki. Á sú framsöguræða, sem hæstv. fjmrh. flutti áðan, ekki að vera seinustu orð hans um málið? Ef hæstv. forsrh. vill vera sjálfum sér samkvæmur þá er það væntanlega svo.

Af hálfu opinberra starfsmanna er fyrst og fremst sagt eftirfarandi: Kjarasamningar eru í gildi. Við erum á miðju samningstímabili. Réttindamálin, sérstaklega lífeyrisréttindin og að hluta til einnig önnur ráðningar- og starfskjararéttindi eru hluti af kjörum okkar. Ríkisstjórnin kemur með frv. um breytingar. Að því er varðar lífeyrisréttindin er alveg ótvírætt um að ræða skerðingu og skerðingu á áunnum réttindum og afturvirkt. Að því er varðar starfsréttindin að öðru leyti er það umdeilanlegra og í minna mæli en engu að síður hygg ég að það séu dæmi um það að sama grundvallarreglan eigi við um þetta. Opinberir starfsmenn segja: Þetta er ekki gert að höfðu eðlilegu samráði við okkur. Hvernig stendur á því að það er meiningin að keyra þetta í gegnum þing á samningstímanum án þess að gefa fulltrúum okkar tækifæri til samningaviðræðna um að meta þessar breytingar til launa ef þetta er vilji meiri hluta löggjafans? Þetta finnst mér vera kjarni málsins. Þetta finnst mér vera raunverulega staða málsins.

Það er alkunna að það hefur verið verulegur munur á launakjörum opinberra starfsmanna og á almenna markaðnum. Við munum það vel að opinberir starfsmenn hafa stundum sett fram kröfur um að draga úr þeim mun á ákveðnu tímabili. Bandalag háskólamanna setti t.d. fram kröfur um og setti mikla vinnu í það hvernig unnt væri að ná því fram að draga úr þessum mun, að draga úr bilinu sem væri á milli kjara opinberra starfsmanna og almennum vinnumarkaði. Það er staðreynd að það eru fyrst og fremst þessi réttindi sem hafa verið réttlætt í því skyni.

[15:45]

Nú segir hæstv. fjmrh.: Tilgangur þessa frv. er einmitt að draga úr mun á starfskjörum opinberra starfsmanna og færa þau meir til samræmis við almenna vinnumarkaðinn. Þá spyr ég: Er hann ekki einmitt þar með að segja að margt af því sem hér er verið að leggja til að verði breytt sé raunverulega samningsatriði, ígildi launa? Og þá spyr maður: Hvers vegna býður hann þá ekki upp á þá samninga og hvers vegna gerir hann þá ekki ráð fyrir því að þessar breytingar taki gildi þegar núverandi kjarasamningar hafa runnið út með nýjum samningum? Þetta finnst mér spurningin um aðferðafræði málsins.

Ég vil nefna tvö mál sem kannski eru ekki stór í þessu samhengi og beina þá sérstökum spurningum til fjmrh. ef hann telst enn vera í húsinu, ef hann er ekki bara farinn af því að svona gera menn ekki,

(Forseti (GÁS): Hæstv. fjmrh. er í húsinu og ég mun gera ráðstafanir til þess að fá hann hingað inn í sal.)

Hann er sennilega í faðmlögum við hæstv. forsrh. af því að þeir eru svo sammála. Ég geymi mér þá þessar spurningar þar til hæstv. ráðherra kemur í salinn og vík að öðru á meðan.

Meginrök hæstv. fjmrh. í þessu máli eru það sem kalla mætti almenn skynsemisrök. Hann segir einfaldlega: Lögin sem marka réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru hundgömul, þau eru úrelt. Þau eru frá árinu 1954, þau endurspegla allt annan þjóðfélagsveruleika en nú er og þess vegna eru ýmsar ástæður til breytinga. Fyrir utan fjölgun opinberra starfsmanna sem kom til umræðu áðan nefnir hann m.a. til í greinargerð með frv. þá staðreynd að ríkið gerir 140 kjarasamninga við 175 félög. Þá er út af fyrir sig ástæða til að spyrja: Er þetta skynsamlegt skipulag á vinnumarkaði? Og ég spyr út frá sjónarmiði launþega: Er þetta skynsamlegt skipulag á vinnumarkaði?

Þar sem hæstv. fjmrh. er hér í gættinni ætla ég að ljúka við að beina tveimur spurningum til hans, með leyfi forseta. Þessar spurningar mínar, hæstv. fjmrh., lúta ekki að aðalatriðum málsins sem ég ræddi um í fjarveru ráðherrans úr salnum, en þarfnast skýringa. Hið fyrra varðar gildissvið þessara laga. Opinberir starfsmenn halda því fram að gildissviðið sé þrengt og nefna sérstaklega til sögunnar starfsmenn í stéttarfélögum opinberra starfsmanna sem eru í störfum í fyrirtækjum sem eru ríkisfyrirtæki, en engu að síður í formi hlutafélaga. Úr því að hér er um fyrirtæki í ríkiseigu eða stofnanir að ræða, af hverju er gildissviðið þá ekki látið ná til þeirra? Mín spurning er nánar tiltekið þessi: Finnst hæstv. fjmrh. það vera hlutverk ríkisins að kveða á um það í hvaða stéttarfélögum menn eru úr því að grundvallarreglan, 100% eignarhlutur ríkisins, er fyrir hendi? Ef það eru einhverjar aðrar skýringar á þessu, þætti mér vænt um að þær kæmu fram.

Annað atriði varðar auglýsingu starfa. Almenna reglan og mjög þýðingarmikil regla í opinberri stjórnsýslu að talið hefur verið hingað til er sú að störf séu auglýst og auglýst með góðum fyrirvara. Þær breytingar sem gerðar voru með stjórnsýslulögum sem snertu m.a. allt sem varðaði undirbúning að ráðningu í opinber störf að fram færi hæfnismat á grundvelli umsókna sem ekki geta orðið nema störf séu auglýst þótti mikið framfaraspor að því er varðaði opinbera stjórnsýslu. Þess vegna spyr ég: Hvernig stendur á þessari skiptingu að það eru einungis svokölluð embættisstörf eða eitthvað af því taginu sem á að auglýsa lögum samkvæmt og samkvæmt einhverjum reglum, en önnur störf af þessum 20 þúsund störfum opinberra starfsmanna eru ekki auglýsingaskyld nema þá samkvæmt nánari reglugerð sem fjmrh. setur? Af hverju er þetta ekki hluti af lögunum? Er þetta ekki þýðingarmikið grundvallaratriði að því er varðar opna stjórnsýslu og almennar reglur sem taka til allra þannig að menn séu jafnir fyrir þeim?

Herra forseti. Ég vék að því að almenn rök hæstv. fjmrh. fyrir nauðsyn frv. hér og nú séu einfaldlega þau að gömlu lögin séu úrelt, þau endurspegli liðna tíð, að þjóðfélagið hafi tekið miklum stakkaskiptum, opinberum starfsmönnum hafi fjölgað mjög og breytingar hafi orðið á síðan að stórir hópar opinberra starfsmanna og opinberir starfsmenn almennt með fáum undantekningum hafi náð samnings- og verkfallsrétti. Hann styður það jafnvel þeim rökum að sambærilegar breytingar hafi orðið í ýmsum grannlöndum okkar á undanförnum árum og þessi lög hafi verið í endurskoðun víðast hvar á Norðurlöndum á undanförnum árum fram á seinustu ár.

Þetta er allt saman gott og blessað. Það eru margvísleg rök fyrir því. Og það er jafnvel eitthvað til í því að að því er varðar réttarstöðu annars vegar þeirra sem eru opinberir starfsmenn eða í samtökum opinberra starfsmanna og hins vegar félagar í almennum stéttarfélögum að það sé löngu tímabært að reyna að vega þann mun upp. Og það er jafnvel eitthvað til í því líka að því er varðar úrelt ákvæði um réttarstöðu og mun á kynjum. Ég ætla ekkert að neita því. Kjarni málsins er hins vegar þessi: Hvernig stendur á því, og það er hlutur sem hæstv. fjmrh. þarf að skýra í þessari umræðu, úr því að þessi frumvörp bæði tvö fela í sér breytingar á heildarstarfskjörum opinberra starfsmanna, alveg ótvírætt að því er varðar lífeyrisréttindin og ég tek þau rök opinber starfsmanna gild að það eigi líka einnig við um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, að það er ætlan löggjafans, ef það er annars ætlan hans, að keyra þetta fram á samningstímabilinu? Hvers vegna bjóða þeir ekki upp á samninga um gildistöku að loknum eðlilegum samningum þegar nýir kjarasamningar koma til?

Nú ætla ég að taka það fram, virðulegi forseti, að ég tek ekki þátt í því að segja í þessum ræðustól að þessi frumvörp séu sérstaklega að því er þetta varðar eitthvert samsæri, meinfýsi eða tilgangurinn sé sá að koma mönnum á kné eða þrengja hag opinberra starfsmanna að öllu leyti. Það eru ákveðnir hlutir í þessu sem eru jákvæðir. Og ég vil taka alveg skýrt fram að ég hef ekkert skipt um skoðun á því efni. Ég nefni til sögunnar æviráðningu. Æviráðning embættismanna, opinberra starfsmanna, er arfur frá lénsveldisskipulagi liðinnar aldar. Það, að einhver úrvalshópur embættismanna hafi embætti sín að léni með æviráðningu, er fordæmanlegt, forkastanlegt og óverjandi. Það er algerlega út í hött að heildarsamtök opinberra starfsmanna fari í varnarstöðu við að verja leifar úreltra tíma af því tagi.

Hér talar maður sem gegnt hefur embætti utanrrh. og hefur búið við það sem stjórnandi í ráðuneyti að stýra mönnum æviráðnum sem hafa embætti að léni. Ég tel það kerfi ekki til fyrirmyndar. Ég tel mjög þarft að afnema það og hef lengi viljað beita mér fyrir því. Nú skal það tekið fram að þetta er kannski ekki eins stórt mál og það var áður vegna þess að þetta á einungis við um lítinn hluta, en það eru forréttindi sem á að afnema. Hlaupi almennir launþegar í stéttasamtökum opinberra starfsmanna í vörn fyrir forréttindahópana sem þessa njóta, er það á algerum misskilningi byggt. Auðvitað eiga opinberir starfsmenn, embættismenn sem aðrir, að vera ráðnir annaðhvort á almennum ráðningarkjörum eða, ef menn vilja tryggja ákveðið öryggi að því er varðar sérfræðiþjónustu, til tiltekins tíma, fimm ára ráðningartími kannski með rétti til endurráðningar eða eitthvað þess háttar. Þetta eru bara almenn réttindi, nauðsynlegt aðhald í opinberum rekstri og er aðgerð gegn forréttindum. Það er ekki hlutverk launþegasamtaka að verja forréttindi.

Að því er varðar biðlaunin er það líka rétt að að svo miklu leyti sem þar er um að ræða áunnin réttindi sem tryggja mönnum rétt til þess að vera á tvöföldum launum einhvern tíma, þá er það vafasamt. Ég minni hv. þingmenn sem hér eru staddir á það að ef stjórnmálamenn sem kosnir eru til fjögurra ára taka biðlaun sem þeim eru tryggð samkvæmt reglum, þá er það undantekningarlaust kallað pólitísk spilling. Kannski fer það þó að einhverju leyti eftir því hvaða flokki menn tilheyra, það er a.m.k. kallað spilling ef þeir eru í vinstri sinnuðum flokkum. Menn gera ekki eins miklar kröfur til hægri sinnaðra flokka. Meira að segja að því er þetta mál verðar er það engu að síður staðreynd að til biðlaunaréttarins hefur verið stofnað með lögum og túlkun á lögum með hæstaréttardómi þýðir að menn hafa notið þessara réttinda. Þau eru partur af starfskjörum opinberra starfsmanna. Hv. þm. Pétur Blöndal spurði áðan hvað mætti reikna þau sem stóran hlut af kjörum. Ég hef ekki hugmynd um það, en ég veit að þessi löggjöf, þessi hæstaréttardómur og þessi fordæmi eru ótvírætt orðin að kjörum sem lengi hafa viðgengist. Þá kemur spurningin: Á að afnema þau einhliða að frumkvæði löggjafans eða á að semja um það eða þá, ef löggjafinn gerir það og ekki nást samningar, að bæta fyrir ígildi þeirra launaréttinda sem í þessu fólust?

Þriðja atriðið sem er álitamál í þessu frv. en er a.m.k. ýmislegt jákvætt um að segja er ákvæðið um að auka sjálfstæði og ábyrgð forustumanna í ríkisrekstri. Ég bið menn að hugleiða hver hagur launþega almennt er í miðstýrðu ríkiskerfi þar sem eiginlega allar ákvarðanir fara upp á toppinn til ráðherra. Ég spyr: Er það t.d. svo að opinberir starfsmenn líti á það sem jákvætt að sá launamunur sem er í kerfinu fari neðan jarðar, hann sé dulbúinn í formi óunninnar yfirvinnu sem síðan er úthlutað án nokkurs efnislegs mælikvarða til einhverra sem eru inn undir? Eins og hv. þm. Albþ. og óháðra, Ögmundur Jónasson, sagði, stundum kannski í skjóli embættisvalds til hinna hlýðnu. Ég hef heyrt hv. þm. Ögmund Jónasson segja: Eitt af því sem við þurfum að gera við breytingar á launakerfinu er að gera það opið og sýnilegt og fá ákvarðanirnar upp á borðið. Ég held að nálægðin milli forstöðumanns ríkisstofnunar eða ríkisfyrirtækis og hans starfsmanna tryggi að það sé betra kerfi heldur en miðstýrt kerfi allt upp í ráðherra og dulbúið kerfi launabóta. Mér finnst þess vegna umhugsunarefni fyrir almenna opinbera starfsmenn hvort það eigi að leggja áherslu á að þetta sé endilega af hinu illa. Ég skil að menn geta verið tortryggnir. Ég skil að þeir eru hugsanlega tortryggnir á það að í skjóli þessa ákvæðis geti þrifist einhver forstjóraspilling, þ.e. að forstöðumenn geti hyglað sínum nánustu af einhverjum öðrum ástæðum. Að vísu er það svo að ef verið er að gera forstöðumenn ábyrga fyrir starfsárangri, fyrir því að halda sig innan fjárlaga, fyrir frammistöðu í rekstri, hafa þeir ekki efni á því að hygla einhverjum mönnum nálægt sér sem sem ekkert er í spunnið og engu skila. Ég held því að þetta sé jákvæð hlið á þessu máli, nefnilega sú að launþegar sem leggja sig fram í starfi, opinberir starfsmenn sem er fullt af, því hef ég kynnst af eigin reynd, fái með sýnilegum hætti umbun vegna þess að opinberi geirinn er auðvitað í samkeppni við einkageirann og ef hann getur ekkert gert nema farið neðan jarðar, þá getur hann ekki keppt við einkageirann. Ég hélt að það væri í hag almennt fyrir opinbera starfsmenn og þeirra starfsframgang að það lögmál gilti að umbuna mætti þeim sem legðu fram góða vinnu til þess að þeir héldust í opinbera geiranum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég endurtek að lokum að ég tel kjarna þessa máls vera þessa spurningu: Vakir það fyrir ríkisstjórninni að taka einhliða til baka áunnin réttindi sem opinberir starfsmenn hafa áunnið sér? Ég tel að svo sé. Fyrst svo er ber að breyta aðferðafræði ríkisstjórnarinnar á þann hátt að það verði teknir upp samningar þar sem farið er yfir staðreyndir mála og þær metnar og staðið við það sem alltaf hefur verið sagt í samningum áður, að þá verði samið um það að þetta sé ígildi launa og það verði þá bætt í formi betri launa.