Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 16:00:16 (4050)

1996-03-19 16:00:16# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[16:00]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun svara sumum efnisatriðum síðar en ég byrja á að þakka hv. þm. fyrir stuðning hans við frv. sem ég met mikils.

Það er ástæða til að taka strax fram að ég geri mikinn mun á annars vegar þeim réttindum sem svo eru kölluð sem koma fram í lögunum sem hér eru til umræðu, eins og æviráðningunni og biðlaunaréttinum annars vegar og lífeyrisréttinum hins vegar. Það hefur aldrei svo ég viti til verið blandað saman æviráðningunni og biðlaunaréttinum og launum. Meira að segja gerðist það fyrir u.þ.b. tíu árum að horfið var frá æviráðningunni í stórum stíl en það komu engar launauppbætur í staðinn. Ekki heldur þegar minnst hefur verið á biðlaunaréttinn. Við teljum því að þetta sé arfur liðins tíma eins og hv. þm. sagði og það sé hægt að afnema það með lögum án þess að nokkrar bætur komi fyrir. Þetta er ekki áunninn réttur. (ÖJ: Er samningsrétturinn líka arfur liðins tíma?) Ef ég fæ frið fyrir hv. þm. andartak. Hann er búinn að halda tvö hundruð fundi um allt land segir hann og hann getur ekki einu sinni stillt sig á meðan aðrir tala hérna. (ÖS: Þú ert nú að hvíla þig á meðan.) Það er hárrétt, ekki veitti af, hv. þm. (Gripið fram í: Þú ert þreytulegur.) Í öðru lagi er verið að tala um lífeyrisréttindi. Ef menn vilja hér alvöru umræður þá skulum við ræða þetta af alvöru. Þetta er alvörumál. Það eru starfskjör, áunnin lífeyrisréttindi snerta menn ekki, það eru starfskjör sem menn geta ekki tekið á. Ef menn ætla að breyta lífeyrisréttindum, sem eru ekki áunnin, hlýtur það að gerast með þeim hætti að eitthvað komi í staðinn sem sé jafngilt hvort sem það er í formi launa eða í formi einhvers konar framlags inn í lífeyrissjóð. Þetta liggur allt fyrir. En það er reginmunur á þessu tvennu og ég kannast vel við það og það eru allir sammála um að lífeyrisréttindin eru mjög tengd kjörum, þar á meðal launakjörum og það verður ekkert hægt að víkja frá því. Þetta vildi ég að kæmi fram og þetta hélt ég að allir vissu og um þetta er mikil samstaða þótt ákveðnir aðilar hafi kosið í stöðunni að búa til þá vígstöðu fyrir sig að láta líta svo út að við séum hér með níðingsbragð og böðulshætti að ráðast á (ÖJ: Þetta er ómerkilegt þegar verið er að vega að réttindum ... ) áunnin réttindi.

(Forseti (GÁS): Þögn í salnum.)

Ég legg til, hæstv. forseti, að það verði talað við hv. þm. og hann beðinn um að sýna smástillingu annað slagið. Þetta var hins vegar svar vegna þess að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson lýsti eftir viðhorfum mínum varðandi þessi mál.