Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 16:03:00 (4051)

1996-03-19 16:03:00# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[16:03]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. byrjaði í ræðu sinni að þakka mér fyrir stuðning sinn við frv. Það setti af stað hjá mér þá hugsun að sennilega er þetta skýringin á því hvernig hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. náðu svona góðu og ljúfu samkomulagi. Þeir hafa misskilið hvor annan svona rækilega að þeir halda báðir að þeir styðji lífeyrisréttindafrv. Annar segir að vísu að svoleiðis eigi menn ekki að gera en hinn segir að hann búist við því á næstu stundu. Þetta varðar eitthvað móttökutækið og viðtökuhæfnina um það hvernig orð manna eru skilin. Ég var ekki að lýsa yfir stuðningi við frv. Ég var að lýsa því yfir að það væru í því ákveðnir jákvæðir þættir en ég gagnrýndi meginatriðin mjög harðlega.

Að sjálfsögðu, hæstv. fjmrh., er það ljóst að lífeyrisréttindin eru útreiknanlegur hluti af kjörum opinberra starfsmanna. Það ber að bæta það í samningum, ekki einhliða heldur í samningum. Hvernig stendur þá á því, hæstv. fjmrh., að því er yfirlýst um frv. sem nú hefur kannski verið dregið til baka og kannski ekki, að það svipti í engu, dragi í engu eða skerti í engu áunnin réttindi? Nú eru hins vegar lagðar fram tölulegar staðreyndir um að svo sé. Voru þetta mistök? Verður þess vegna að vinna frv. upp á nýtt fyrir utan aðferðafræðina?

Að því er varðar það frv. sem við tölum nú um getur hæstv. fjmrh. neitað því að sama grundvallarskýring eigi við, þ.e. einhliða ákvörðun um að breyta fyrirframgreiðslu launa í eftirágreiðslur, breytingar eða afnám á samnings- og verkfallsrétti hjá tilteknum hópum og afnám biðlaunaréttar? Á það ekki við hið sama að hér hafi verið um að ræða hluti sem höfðu áhrif á að laun opinberra starfsmanna eru lægri en þau hefðu ella verið? Svo vil ég minna hæstv. fjmrh. á að ég spurði um skýringar hans að því er varðaði gildissviðið og að því er varðaði takmarkanir á auglýsingum opinberra starfa.