Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 16:05:11 (4052)

1996-03-19 16:05:11# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[16:05]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég mun koma að gildissviðinu síðar, ég hef ekki tíma til þess nú. En um auglýsinguna er það eitt að segja að auðvitað á að auglýsa störfin en það þarf ekki að auglýsa þau öll í Lögbirtingarblaðinu. Ég tek líka fram að ég þakka hv. þm. fyrir stuðning við meginatriði frv., ég orða það þannig til að það sé nákvæmara. Ég tek fram ef sú staða kemur upp að mönnum finnst betra að halda samningsrétti manna eins og lögreglumanna, þ.e. færa þá úr embættismannahópnum til annarra er sjálfsagt að ræða það. Við töldum hins vegar að það væri heppilegra bæði fyrir þá og aðra að þeir tilheyrðu embættismannahópnum. Þetta er auðvitað til umræðu.

Í öðru lagi tek ég fram vegna lífeyrisréttarins að það eru þrjár vikur síðan beðið var um að reiknað væri út nákvæmar en við höfðum þá gert hvort einhver skerðing kæmi fram á áunnum réttindum. Það liggur fyrir frá einum aðila og er til skoðunar hjá öðrum. Það er niðurstaða sem vel getur verið rétt og mun það að sjálfsögðu verða lagað. Málið er einfaldlega það að þetta eru frumvarpsdrög sem eru til umræðu og þessa dagana, síðast í hádeginu í dag var fundur með fjórum forustumönnum starfsmanna ríkisins sem eiga sæti í þessari nefnd þar sem verið er að ræða um það hvernig hægt sé að komast að sameiginlegum forsendum í því máli. Það hefur aldrei staðið til að leggja fram frv. sem gerir það að verkum að áunnin réttindi hverfi. Hins vegar er nauðsynlegt að breyta þessum réttindum til að samtímagreiðslurnar frá ríkinu og frá launþegunum geti orðið grundvöllur útborgunar ásamt ávöxtuninni en við þurfum ekki að búa við þá óvissu sem við búum við í kerfinu í dag með 95 ára reglunni, 32 ára reglunni og eftirmannareglunni. Um það snýst málið. Ég get ekkert sagt um það hvenær frv. verður tilbúið. En ég vona að það verði sem fyrst og ég ætla ekkert að hafa nað nákvæmara en sem fyrst. Það verður hv. þm. að virða mér til vorkunnar. Ég get ekki orðað það nákvæmar á þessari stundu.