Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 16:41:42 (4055)

1996-03-19 16:41:42# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[16:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi samráð þá bar svo við að okkur hv. þingmönnum bárust mótmæli utan úr bæ í stórum stíl við þessu frv. löngu áður en við sáum það. Þannig að eitthvað virðist hafa kvisast út og mér er næst að trúa hæstv. fjmrh. að þeir hafi lagt þetta fram sem drög í samningaviðræðum og því hafi svo verið lekið út þaðan. Það kann ekki góðri lukku að stýra í samráði ef annar aðilinn lætur drög sem koma fram leka út og fer svo að mótmæla þeim sömu drögum út um allan bæ.

Varðandi forstöðumenn, sem hv. þm. hafði miklar áhyggjur af, kom hann sjálfur inn á það að þeir hefðu í dag möguleika á að hygla mönnum með óunninni yfirvinnu og gera það eflaust í einhverjum mæli, annars væri hv. þm. ekki að tala um það. Þeir eru í dag í mjög sterkri stöðu vegna þess að þeir eru oft æviráðnir. Þetta á að leggja af. Það á að leggja af æviráðningu og gera ábyrgð þeirra miklu víðtækari. Ég bendi hv. þm. á að sérnefnd hæstv. efh.- og viðskn. er að fjalla um fjárreiður ríkissjóðs og þar stendur í 50. gr.: ,,Forstöðumenn og stjórnendur ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja bera ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra stofnana og fyrirtækja sem undir þá heyra sé í samræmi við heimildir.`` Þarna er verið að stórauka ábyrgð forstöðumanna ríkisfyrirtækja og það gerir þeim aftur á móti ekki kleift að hygla einum eða neinum nema starfsmennirnir eigi það skilið.