Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 16:43:52 (4056)

1996-03-19 16:43:52# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[16:43]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú yfirleitt orðvar en ég er hissa á þessari þvælu hjá hv. þm. Ég veit að hann veit betur. Það er alrangt að þessi frumvarpsdrög hafi verið lögð fram hjá stéttarfélögum í einhverjum samningaviðræðum og lekið út þaðan. Hann þarf ekki annað að gera en lesa greinargerð frv. Þar er því lýst hvernig þetta mál var unnið. Þetta er unnið einhliða af fjmrn. Það var sent stéttarfélögunum með nokkurra daga fyrirvara. Þau komu engum athugasemdum að, menn voru aldrei kallaðir til ráðslags í þessu máli. Hér var ekki unnið í samráði við stéttarfélögin og samningaviðræður fóru aldrei fram. Frv. er einhliða stefna og framlag ríkisstjórnarinnar. Meira að segja viðurkennir fjmrh. það sjálfur svo það er óþarfi fyrir hv. þm. að reyna að búa til einhverja aðra söguskýringu.

Annað sem hann ræddi er varðandi forstöðumenn stofnana. Ég benti á að forstöðumenn stofnana samkvæmt þessu frv. hafa í reynd miklu meiri völd og áhrif en gildir á hinum almenna vinnumarkaði. Það tel ég mikið umhugsunarefni. Framkvæmdastjórar á almennum vinnumarkaði hafa, eins og ég rakti, yfir sér virkar stjórnir fyrir utan hluthafafundi. Í frv. er valdið hins vegar fært alveg eftirlitslaust til einstakra manna. Það er það sem ég er að gagnrýna í frv. Við eigum ekki að skipuleggja ríkisreksturinn þannig að einstaklingar án ábyrgðar fái þessa möguleika bæði gagnvart réttindum og launakjörum sinna undirmanna á þann hátt sem gert er ráð fyrir í frv. Þetta er galin stefna satt best að segja.