Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 16:47:02 (4058)

1996-03-19 16:47:02# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[16:47]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi framlagningu frv. þá ætti hv. þm. að beina þessu til hæstv. fjmrh. Hann var hvattur af stjórnarandstöðunni mjög ítrekað til þess að leggja frumvörpin fram hér á Alþingi þannig að hin pólitíska umræða gæti átt sér stað. Það var hann sem gerði það ekki. Að öðru leyti var atburðarásin eins og ég lýsti áður. Það að fara að blanda núna þingmönnum inn í þá nýsköpun sem hæstv. fjmrh. er að standa fyrir hér í ríkisrekstri er alveg ný sýn í málinu. Ég minnist þess nú ekki að hafa séð í greinargerð frv. að þingmenn séu allt í einu orðnir stjórnaraðilar í þessum nýja ríkisrekstri. En þarna er nú þingmaðurinn kominn held ég á nokkrar villigötur án þess að við skulum nokkuð gera lítið úr starfi þingmanna við að gæta hagsmuna kjósenda. En þingmenn eru ekki aðilar að stjórnsýslunni hér með þessum hætti. Það stendur sem ég sagði að eini formlegi yfirmaður forstöðumanna er ráðherra. Í reynd þýðir þetta að forstöðumennirnir eru eftirlitslausir. Það er það sem ég er að segja að það er ólíkt rýmra vald sem þessir menn hafa en tíðkast á hinum almenna vinnumarkaði og um það snýst málið. Ef menn eru að tala um að laga stöðuna að því sem gildir á hinum almenna vinnumarkaði þá eiga menn að minnsta kosti að vita hvernig sú staða er en ekki að gera það eins og hér er lagt til.