Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 17:29:35 (4061)

1996-03-19 17:29:35# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[17:29]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. fjmrh. að hann er tilbúinn til að skoða breytingar á þessu frv. ásamt meiri hlutanum hér á hinu háa Alþingi. Ég tel mjög mikilvægt að hann skuli lýsa því yfir. Ég nefndi það ekki að hann hefði talað af lítilsvirðingu um ríkisstarfsmenn, ég vísaði aðeins til þess hvernig hann talaði um ríkisreksturinn í heild.

[17:30]

Hvað varðar þessi frv., þá kemur þetta fram í athugasemdum. Það er nefnt hér hverjir sömdu þetta frv. og þar áttu ríkisstarfsmenn ekki fulltrúa. Hins vegar gerðist það um leið og fulltrúar ríkisstarfsmanna fengu þessi frumvarpsdrög í hendur, að þá sáu þeir þar þvílík ósköp að þeir brugðust hinir verstu við og fiskisagan flaug eins og eldur í sínu um samfélagið og olli miklum titringi. Auðvitað hafa menn gripið til þess ráðs að reyna að stöðva þessa þróun.

Varðandi fæðingarorlofið, þá er það mergurinn málsins sem ég nefndi hérna áðan. Við erum ekki bara að tala um þá sem nú eru ríkisstafsmenn. Við erum að tala um það hvaða kjör ríkisstarfsmönnum framtíðarinnar verður boðið upp á. Hver verða þau? Ég get svo sem sætt mig við ýmislegt, en við stöndum það langt að baki öðrum þjóðum hvað varðar fæðingarorlof að það að hluti verðandi ríkisstarfsmanna fari á sömu kjör og hér gilda á almennum vinnumarkaði er algerlega óásættanlegt. Það á ekki að jafna niður á við, hæstv. fjmrh. Það þarf að bæta rétt allra þeirra sem eru á vinnumarkaði, bæði karla og kvenna, til þess að njóta fæðingarorlofs.