Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 17:31:48 (4062)

1996-03-19 17:31:48# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[17:31]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja það að ég hef heldur ekki talað um ríkisreksturinn neitt lítilsvirðandi. Það tel ég ekki. Ég hef þvert á móti gert mér far um að sýna fram á það hvers hann er megnugur með því t.d. að halda hugmyndastefnu þar sem við lögðum áherslu á að sýna það besta sem þar hefur verið gert í ríkisrekstrinum. Í fyrsta lagi vil ég að þetta komi fram.

Í öðru lagi varðandi kennarana, þá er það þannig að á bls. 9 í frv. á þskj. 570 er sagt skýrum stöfum og þetta kom í gegnum nefndina sem kennararnir áttu aðild að, að lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins séu til endurskoðunar og ríkisstjórnin hyggist leggja fram frv. til nýrra laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna á vorþinginu 1996. Það var aldrei farið í grafgötur með það og ekki farið á bak við einn eða neinn.

Síðan er það í sambandi við fæðingarorlofið, þá stendur skýrum stöfum á bls. 13 í frv., ákvæði til bráðabirgða, ég vek athygli á þessum orðum með leyfi forseta: ,, ... uns laun í veikindaforföllum og fæðingarorlofi hafa verið ákveðin eða um þau samið ...`` Það skýrir alveg það sem þarf að skýra.

Hv. þm. talaði síðan um auglýsingar á störfum í sinni ræðu. Þar er einungis verið að reyna að setja niður reglu sem er nær því sem hefur viðgengist á undanförnum árum því að það hefur því miður ekki verið farið eftir lögunum frá 1954. Það á að auglýsa öll störf en í sumum tilvikum kann að vera rétt að fara í gegnum ráðningarskrifstofu. Þessu er lýst í greinargerð með frv. þannig að það er ekkert verið að draga úr rétti manna til að sækja um störf.

Um kynferðislega áreitni vil ég segja að ég tel að það eigi fremur heima í almennum hegningarlögum og það eigi ekki að draga inn í þessi lög of mikið af refsiverðri háttsemi. Það fer betur á því að hafa það í almennum hegningarlögum.

Varðandi 7. tölul. 22. gr., þá vil ég segja það sem áður hefur komið fram, að það er alveg sjálfsagt að ræða breytingar á því varðandi lögreglumenn, tollverði og aðra slíka. Við héldum að það væri betra að hafa þá með meira starfsöryggi en þeir misstu þá samningsréttinn í staðinn. Ef það getur ekki orðið svo verður að breyta því.