Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 17:34:24 (4063)

1996-03-19 17:34:24# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[17:34]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Þetta verður sífellt ánægjulegra, hæstv. forseti, því hæstv. fjmrh. lýsir hér yfir hverri breytingunni á fætur annarri hvað varðar frv. þannig að það er ágætt að við fáum að bæta þetta töluvert. En hvað varðar kynferðislega áreitni finnst mér þar gæta misskilnings hjá hæstv. fjmrh. Hér er um það að ræða að taka á því hvernig með slík mál skuli fara innan ríkisstofnana. Í 14. gr. er vikið að skyldum starfsmanns, með leyfi forseta: ,,Starfsmanni er skylt að rækja starf sitt með alúð og samviskusemi í hvívetna. Hann skal gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis ...`` Þarna mætti tengja þetta saman. En spurningin snýst um það hvernig á að taka á slíkum málum. Þetta er nýtt í íslenskri umræðu. Þetta er fyrirbæri sem er miklu algengara á vinnumarkaði en menn hafa gert sér grein fyrir. Í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum hefur verið farin sú leið að setja lagastoð hvað þetta varðar en einnig að setja reglur innan stofnana og fyrirtækja. Það er það sem við þurfum að gera hér á landi og hér má búa til ákveðna lagastoð fyrir því. Það er það sem ég var að vekja athygli á, hæstv. fjmrh. Og við getum skoðað það betur í hv. efh.- og viðskn.