Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 17:36:02 (4064)

1996-03-19 17:36:02# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[17:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt þegar þetta frv. er tekið hér til umræðu að setja það í nokkurt samhengi við þá stefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur almennt, þ.e. stjórnarstefnuna, að svo miklu leyti sem það er skilgreinanlegt fyrirbæri og liggur fyrir. Ég útbjó mig þar af leiðandi til umræðna m.a. með ritið sjálft, höfuðbókina sjálfa sem ég veit að forseti hefur undir koddanum og les kvölds og morgna, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. Þar er þrennt einkum athyglisvert í sambandi við þetta frv. Nú veit ég ekki hvort hæstv. fjmrh. getur hlustað með símann á eyranu. (Fjmrh.: Ég kann þetta.) Hæstv. fjmrh. telur sig kunna stjórnarsáttmálann og það er gott. Spurningin er hins vegar hvort það sem á bak við liggur og sú stefna sem þar er falin í fáeinum orðum á köflum er nægjanlega ljós fyrir öllum.

Í fyrsta lagi er sagt um mál sem þessu tengjast á bls. 2 í stjórnarsáttmálanum og þetta er ekki mjög mikið rit, að ríkisstjórnin hyggist, með leyfi forseta: ,,vinna að nýskipan í ríkisrekstri, t.d. með auknum útboðum, sameiningu stofnana, þjónustusamningum, breyttu launakerfi og aukin ábyrgð stjórnenda.``

Í öðru lagi er sagt um þessi mál á bls. 3, að ríkisstjórnin hyggist, með leyfi forseta: ,,leggja fram áætlun um verkefni á sviði einkavæðingar sem unnið verður að á kjörtímabilinu. Áhersla verður lögð á að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabanka og fjárfestingarlánasjóða. Það á einnig við um fyrirtæki og stofnanir í eigu ríkisins sem eru í samkeppni við einkaaðila. Unnið verður að sölu ríkisfyrirtækja á kjörtímabilinu í samræmi við ákvarðanir Alþingis`` segir þar að vísu. Allt í einu er Alþingi komið inn í myndina þegar að sölunni kemur.

Í þriðja og síðasta lagi er á bls. 6 með svofelldum orðum fjallað um þessi mál, að ríkisstjórnin, með leyfi forseta, hyggist: ,,endurskoða vinnulöggjöfina með það að markmiði að stuðla að stöðugleika, ábyrgð samningsaðila og auknum áhrifum einstakra félagsmanna í stéttarfélögum.`` Ekki er beinlínis sagt utan stéttarfélaga en það er þó gefið í skyn.

Í hvaða samhengi eru þessir hlutir, herra forseti? Hvað liggur fyrir um stefnu hæstv. ríkisstjórnar eða þeirra sem ferðinni ráða að þessu leytinu til í hæstv. ríkisstjórn? Hvaða stjórnarstefna er þetta? Þetta er frjálshyggja. Það liggur alveg ljóst fyrir að leiðarljós hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum er frjálshyggjustefna. Það er einkavæðing. Það er að breyta vinnulöggjöfinni. Það er að losa upp verkalýðshreyfinguna, veikja hana og draga úr samtakamætti launafólks. Allt fellur þetta saman í eina mynd. Þessar kenningar eru alveg þekktar. Það er alveg vitað hvert menn sækja hugmyndafræðina. Þetta er í grófum dráttum sama lína og fyrrv. ríkisstjórn framfylgdi nema hvað hún virðist þó heldur hafa orðið hægrisinnaðri ef eitthvað er við komu Framsfl. inn í samstarfið í staðinn fyrir krataflokkinn og eru það auðvitað mikil tíðindi og undur.

Það er líka vitað hvert hæstv. ríkisstjórn sækir sína ráðgjafa. Það hefur komið fram í umræðunni. Það þurfti að fara hinum megin á hnöttinn, nokkurn veginn eins langt og hægt er að fara. Þegar ég fór það á sínum tíma var 26 klukkustunda flug frá Íslandi til Nýja-Sjálands. Það dugði hvorki meira né minna ne að fara alveg hringinn í kringum hnöttinn og andsælis okkur hinum megin niður á hann til að ná í ráðgjafa, litla járnfrú sem þar fannst, Ruth Richardson, fyrrv. fjármálaráðherra. Þar fannst svona einhver miniútgáfa af járnfrúnni og hún var fengin hingað upp til þess að leggja á ráðin í þessum efnum. Þetta er thatcherísk frjálshyggjustefna sem við Íslendingar af einhverjum hörmulegum ástæðum sitjum uppi með tíu árum eftir að sú stefna gekk sér til húðar í fæðingarlandinu, Bretlandi. Menn hafa eins og stundum áður dagað uppi með svona hugmyndir og það er enn verið að keyra eftir þeim hér.

Þetta lýtur ekki bara, herra forseti, að innihaldi hugmyndanna sjálfra. Þetta snýr líka að vinnubrögðunum, aðferðunum sem notaðar eru. Þetta eru auðvitað hinar thatcherísku aðferðir og nú hafa menn ákveðið alveg greinilega að herða sig upp í það að hlíta hinum nýsjálensku ráðum eða fornfrægum vinnubrögðum frú Thatcher og keyra þetta yfir menn á fyrri hluta kjörtímabilsins hvað sem tautar og raular. Muna menn ekki átökin í Bretlandi t.d. sem ríkisstjórn Thatcher stóð í á fyrstu árum valdaferils síns, hið fræga og illvíga kolanámuverkfall o.s.frv. sem stóð í á annað ár? Að lokum tókst ríkisstjórninni þar að brjóta á bak aftur öflugasta sérsamband á vinnumarkaði í Bretlandi og eftir þvílíkar fórnir sem menn höfðu þar fært að um annað eins eru tæpast dæmi í sögunni. En það tókst að lokum og bresk verkalýðshreyfing hefur ekki borið sitt barr eftir glímuna við frú Thatcher og hennar fylgismenn á sínum tíma. Af þvílíku harðfylgi var þessari stefnu framfylgt.

Hver var hugsunin á bak við þetta, herra forseti, fyrir utan það að menn kannski af pólitískum ástæðum vildu hafa þetta svona? Hún var líka sú að það væri efnahagsleg nauðsyn að brjóta niður verkalýðshreyfinguna. Frjálshyggjumennirnir voru búnir að tala sig upp í þann hita að það væri efnahagslegt böl að hafa sterka verkalýðshreyfingu og það væri m.a. þar sem orsök fyrir atvinnuleysinu lægi. Hefur það komið á daginn að veikari staða verkalýðshreyfingarinnar í t.d. Vestur-Evrópu hafi skilað mönnum aukinni atvinnu í fyrirheitna landinu, Evrópusambandinu? Er það? Nei. Síðast þegar ég frétti þá vantaði kannski 200 þúsund manns upp á að atvinnulausir væru orðnir 20 millj. innan vébanda Evrópusambandsins. Það er nú árangurinn sem menn hafa náð með þetta leiðarljós, þetta siglingaljós uppi (Gripið fram í.) því að þessi frjálshyggja hefur meira og minna verið keyrð. (Gripið fram í.) Er nú hæstv. fjmrh. að verða eitthvað órólegur? Var ekki ætlunin að fara út í þessi mál í sambandi við þetta frv.? Það er nefnilega athyglisvert að þegar hæstv. fjmrh. kemur hér, þá er ekkert á ferðinni. Hann talar grátklökkur um að þetta sé allt svo saklaust og gott og biður menn að vera ekki að æsa sig og nota ekki stór orð, þetta séu svo sakleysislegar, tæknilegar lagfæringar fyrst og fremst vegna þess að lögin eru orðin 40 ára eða hvað það nú er, annað sé ekki á ferðinni. Þannig á að selja mönnum þetta, auðvitað. En hér er ekkert annað á ferðinni en það að stjórnarstefnan er að birtast alveg grímulaust í breytingum á grundvallarleikreglum á vinnumarkaði sem eru til þess ætlaðar að veikja stöðu samtaka launamanna í anda frjálshyggjunnar. Það er ekkert annað þarna á ferðinni.

Menn þurfa einfaldlega, herra forseti, að fara vandlega yfir frv. og bera það saman við gildandi lög og samskiptareglur eins og þær hafa verið til þess að sjá hvað þarna er á ferðinni og láta ekki blekkjast, láta hvorki útsenda áróðursbæklinga í fjórða árgangi fréttabréfs fjmrn. (Fjmrh.: Fyrsta tölublaði.) né annað efni --- í fyrsta tölublaði --- né annað efni blekkja sig. Allra síst fagurgala hæstv. ráðherra í ræðustóli þegar hann reynir að gera lítið úr öllu.

Vinnubrögðin, herra forseti, tala líka sínu máli um þetta. Menn vissu alveg nákvæmlega hvað þeir ætluðu að gera og þurftu ekki langan tíma til að koma því á blað. 12. desember er samtökum launamanna skrifað og sagt að það eigi að hefja störf á þessu sviði og endurskoða þessi grundvallaratriði í vinnulöggjöfinni. Í byrjun febrúar er hóað í menn og mönnum kynnt fullbúin frumvarpsdrög sem jafnframt er sagt að eigi að afgreiða og gera að lögum á þessu þingi. Menn megi koma með athugasemdir fram að helgi, en þetta verði lagt fram og þetta verði afgreitt. Svo kalla menn þetta samráð. Ja, sér er nú hvert samráðið. Þetta er rétt eins og þegar dauðadæmdum manni er boðið að velja á milli þess hvort hann reyki eða fái tebolla áður en aftakan fer fram.

[17:45]

Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur í anda þessarar aðferðafræði aldrei boðið upp á eiginlegar efnislegar viðræður um þetta mál. Það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að mótmæla fullyrðingum af því tagi sem eru í upphafsorðum greinargerðar með frv. á bls. 14. Það er fráleitt í ljósi þess sem hér hefur komið fram og liggur m.a. fyrir í ályktunum fjölmargra samtaka og félaga opinberra starfsmanna að hægt sé að segja, eins og gert er á bls. 14 í greinargerð með frv., að í kjölfar þessa hafi átt sér stað viðræður við fyrirsvarsmenn samtakanna og höfð hafi verið hliðsjón af athugasemdum þeirra við endanlega gerð frv. Hvaða efnislegu viðræður voru það? Hvenær var boðið til þeirra? Ég get ekki fallist á þessa orðanotkun sem hér er á ferðinni. Miðað við það sem liggur fyrir í málinu, er það einfaldlega ekki rétt, herra forseti. Það er því óhjákvæmilegt að mótmæla þessum vinnubrögðum og ég spái því að hæstv. fjmrh. muni hefnast fyrir að ætla að reyna að svindla þessu í gegn og vinna að þessu með þessum hætti, telja mönnum trú um að þarna hafi eitthvert efnislegt samráð átt sér stað þegar svo er ekki og reyna að réttlæta þann aðdraganda þessa máls sem hér hefur verið rakinn. Málið er þannig til komið að það er búið út á fáeinum vikum og hefði einhvern tíma þótt ástæða til þess að vanda sig aðeins meira og taka sér meiri tíma í viðkvæm og vandasöm grundvallaratriði af þessu tagi sem varða fjölmennar stéttir úti í þjóðfélaginu, en svo er ekki. Og af hverju ekki? Af því að menn voru með það alveg á hreinu hvað þeir ætluðu að gera. Forskriftin lá fyrir, formúlan var klár í hvaða átt átti að breyta þessum hlutum að erlendri forskrift frjálshyggjumanna. Þess vegna þurftu menn ekki tíma.

Ef við förum aðeins yfir það, herra forseti, í hvaða greinum frv. þessar grundvallarbreytingar birtast helst, er eðlilegt að staldra kannski fyrst við 9 gr. frv. Ég tek þær ekki endilega í tölusettri röð heldur út frá efnisþáttum. 9. gr. frv. hefur verið gerð rækilega að umtalsefni af mörgum á undan mér og ég get vísað til þess. Þar eru auðvitað klárlega á ferðinni breytingar á vinnureglum og aðferðum sem veikja samtök launamanna. Þær draga úr þeirri félagslegu hugsun sem er á bak við skipulagðan vinnumarkað og færa þetta nær geðþóttavaldi einstakra forustumanna, í þessu tilviki forstjóra. En fyrst og fremst snýr þetta að því að stilla launamanninum upp, einum og óstuddum og án þess styrks sem felst í samstöðunni, frammi fyrir vinnuveitanda sínum og láta hann einan um að ganga frá sínum málum. Það er verið að færa málin í þá átt. Menn geta klætt það í fallegan búning og sagt að það sé gott að auka ábyrgð og sjálfstæði forsvarsmanna, forstjóra eða hvað það nú heitir. En það er þá í besta falli bara önnur hliðin á málinu. Hin snýr að stöðu þessa eina launamanns sem þá er kominn inn á teppið. Hafi hann verið með kjaft eða eitthvað sé út á hans störf að setja, hann er jafnvel ekki einu sinni fjarskyldur ættingi forstjórans, það finnst hvergi í íslenskum ættartölum að hann sé skyldur honum, er kannski komin upp sú staða sem verst gerist í þessum efnum. Viðkomandi starfsmaður hefur ekki á bak við sig nein samtök og engan varnarstuðning af sameiginlegum áherslum félaga sinna.

Ég vil líka í sambandi við þetta geðþóttaákvæði 2. mgr. 9. gr. koma inn á þátt sem lítillega hefur verið gerður að umtalsefni og það er launamisréttið, hið kynbundna launamisrétti. Sú hugsun sem kemur hér fram og víðar í frv. að opna fyrir nánast einstaklinsbundna samninga við starfsmenn og heimila forustumönnum að gera betur við þá sem þeim sýnist innan hóps jafnsettra starfsmanna, taka t.d. einn af sex deildarstjórum í opinberri stofnun og segja: Hann er bestur, hann Jón. Þótt hann sé að vísu deildarstjóri eins og allir hinir og með jafnlanga reynslu, er hann í fyrsta lagi skyldur mér og í öðru lagi kýs hann sama flokk og ég og í þriðja lagi er þetta afbragðsmaður. Ég hef því ákveðið að hækka hann sérstaklega í launum. Þar með er það ekki lengur mál að verið sé að mismuna jafnsettum mönnum innan stofnunarinnar því forstjórinn er kominn með geðþóttavald til að gera það ef honum sýnist svo. Og hafi hann einhver vandræði af því, getur hann réttlætt það með því að um sérstaka hæfni viðkomandi starfsmanns sé að ræða. Það þarf ekki annað til en að mat viðkomandi yfirmanns sé það að einhver einn maður, Jón Jónsson, sé sérstaklega hæfur. Þar með getur hann hækkað hann í launum umfram aðra.

Aftur að jafnréttisspurningunni og kynbundnu launamisrétti. Datt engum í hug að þetta mál mundi snúast upp í andhverfu sína og verða hættulegra en nokkuð það sem hingað til hefur gerst í sambandi við að veikja stöðu kvenna vegna þess hverjar vinnuaðstæður þeirra eru iðulega? Ég minni á niðurstöður skýrslu Jafnréttisráðs um kynbundinn launamun frá sl. vori. Hver varð meginniðurstaða þeirrar skýrslu? Hún var sú að hinn kynbundni launamunur kemur fyrst og fremst til sögunnar í gegnum óumsamdar uppbætur á laun. Er þá lausnin sú að auka svigrúm forustumanna stofnunar til að gera meira af því tagi, ganga lengra út á braut persónulegra óumsaminna uppbóta af þessu tagi? Hæstv. fjmrh. las að vísu þessa skýrslu með þeim sérkennilega hætti á sl. vori, einn manna hygg ég, að hann taldi lausnina felast í því að ganga í meiri frjálshyggjuátt á vinnumarkaði. Þannig ætti að ráðast á hið kynbundna launamisrétti. Flestir aðrir lásu hið gagnstæða út úr skýrslunni. þ.e. að vandinn lægi einmitt þar og það sem helst verði konurnar væru föst umsamin laun. Og staðan væri skárst í þeim stéttum eða hjá þeim fyrirtækjum þar sem ekki væri um umtalsverðar óumsamdar greiðslur að ræða. En eins og ónefndur höfðingi er sagður lesa Biblíuna, þá tók hæstv. fjmrh. að lesa skýrslu Jafnréttisráðs þannig að hún væri röksemdafærsla fyrir frekari frjálshyggju í þessum efnum. (Gripið fram í: Hvaða höfðingi er það?) Hann er ekki nefndur í þessum ræðustóli, það er bara vísað til hans óbeint. Dannaðir menn gera það ekki.

Ég segi alveg hiklaust að þetta atriði frv. er stórhættulegt. Ég skil ekki að þeir sem á annað borð hafa farið yfir þennan þátt málsins skuli ekki taka þetta upp og gera það að þungavigt málflutnings síns. Þessi breyting á samskiptum vinnuveitandans, í þessu tilviki ríkisins, og opinberra starfsmanna væri stórhættuleg frá sjónarhóli þeirra sem vilja berjast fyrir og beita sér fyrir einhverju launajafnrétti og afnema kynbundinn launamun. Leiðin að því marki liggur í gegnum það að semja um hlutina í heildstæðum samningum þannig að það sé hægt að láta ákvæði, m.a. jafnréttislaganna sem banna kynbundinn launamun, verða virk í gegnum kjarasamninga sem halda, en ekki í hinu að opna allar gáttir fyrir geðþóttasporslum og uppbótum af ýmsu tagi. Þær munu lenda hjá körlunum, það sýnir reynslan, og konurnar sitja eftir. Það er alveg á hreinu.

Í öðru lagi, herra forseti, um þátt þessu náskyldan, þ.e. ákvæði í 47. gr. um heimild manna til að standa utan stéttarfélaga og hvernig með þá hluti skuli farið. Þar eru sömuleiðis á ferðinni ákvæði sem varða veginn út á þá frjálshyggjubraut að leysa upp verkalýðsfélögin og opna farveg fyrir það að menn fari út úr stéttarfélögum. Þar er á ferðinni ákvæði sem er einmitt hættulegt vegna þess að það er síðan að nokkru leyti sett á vald viðkomandi yfirmanns eða fjmrh. að ákvarða kjör þeirra starfsmanna sérstaklega sem þannig kjósa að starfa. Og hvað gæti gerst ef viðkomandi forustumaður og fjmrh. væru báðir miklir frjálshyggjumenn eins og því miður hefur af og til hent? Og þeir væru alveg sérstaklega kappsfullir um að ýta undir það að sem allra flestir færu út úr verkalýðsfélögunum? Gæti þá ekki hugsast að sú hætta lægi í málinu að þeir mundu freistast til að gera betur við þá starfsmenn sem kysu að vera utan verkalýðsfélaga til að sýna mönnum að þannig kæmu þeir ár sinni best fyrir borð? Og það leiddi aftur til þess að flóttinn út úr félögunum mundi aukast o.s.frv. Ég held að hér sé að ýmsu að hyggja. Hér geta legið margir ljótir fiskar undir steini, herra forseti, sem ástæða er til að skoða mjög vandlega.

Í þriðja lagi, herra forseti, er eitt af grundvallaratriðunum sem þarna er á ferðinni og verið er að breyta ákvæði 22. gr. um fjallskil á opinberum starfsmönnum. Nú á að draga þá í dilka samkvæmt því hvort þeir eru embættismenn eða ekki. Margt er nú kúnstugt í þessu, herra forseti, og að sumu leyti finnst mér hér vera á ferðinni afturhvarf til einhvers konar embættismannahugsunar sem ég hélt að tilheyrði 19. öldinni. Jafnvel þess anda sem var hjá Lærdómslistarfélaginu og öðrum slíkum klúbbum, svo maður minnist ekki á 7. gr. Ég kem að henni síðar. En þessi embættismannahugsun sem hér er, þ.e. að það sé einhver sérstakur útvalinn hópur sem skuli vera embættismenn og njóta annarrar meðferðar en aðrir starfsmenn hins opinbera eða ríkisins, kemur mér spánskt fyrir sjónir. Hvaða óskaplegi munur er á þeim sem taldir eru upp í 22. gr. og svo þeim sem gegna almennt ábyrgðarmiklum eða vandasömum störfum hjá hinu opinbera, hjá ríkinu yfirleitt? Eru þeir ekki í sjálfu sér allir embættismenn? Eða eru þeir kannski á hinn bóginn ekki embættismenn heldur bara starfandi menn sem hafa tiltekinn vinnuveitanda? Hvað er verið að fara hér? Hvaða djúpstæða speki liggur á bak við það að flokka menn upp með þessum hætti í tvær meginfylkingar, embættismenn og ekki embættismenn? Ég lýsi eftir því að það verði lýst inn í þetta 19. aldar fyrirbæri sem hér er á ferðinni, herra forseti.

Hér eru að sönnu á ferðinni stóralvarleg ákvæði þar sem samningsréttur og verkfallsréttur er tekinn af fjölmennum stéttum sem slíkan rétt hafa haft, eins og t.d. lögreglumönnum, tollvörðum, fangavörðum, starfsmönnum Almannavarna o.s.frv. Það merkilegasta er þó að fjmrh., þ.e. viðsemjandinn, skal skera úr um það hvaða starfsmenn falli undir t.d. 8. og 10. tölul. greinarinnar. Hverjir eru það? Það eru forstöðumenn stofnana og fyrirtækja ríkisins. Þá kemur aftur að því að menn eru settir í þá stöðu að eiga allt sitt undir geðþóttavaldi ráðherrans, þar á meðal það hvort þeir komast í hinn guðsútvalda hóp og fá að verða embættismenn eða ekki. Það verður þá væntanlega þannig að forsvarsmenn eða forstöðumenn svokallaðra minni háttar stofnana fá ekki að falla undir 22. gr. en hinir fá það.

Það er mjög sérkennilegt, herra forseti, hvernig þessi uppsetning málsins er öll hugsuð. Ég held að hæstv. fjmrh. verði að gera betur grein fyrir því hvaða röksemdafærsla liggur að baki þessari hugsun. Svo legg ég til að það verði hætt að gefa símann endalaust inn í hliðarherbergi þannig að fjmrh., þó glöggur sé, noti höfuðið til þess að fylgjast með umræðunni. (Fjmrh.: Ég heyri.) Ég er ekki viss um að hæstv. fjmrh. sé svo vel úr garði gerður að hann geti með fullri athygli gert marga hluti í einu, þótt vonandi geti hann það sem ónefndur forseti Bandaríkjanna var sagður ekki geta, þ.e. að tyggja tyggigúmmí og ganga samtímis. Mér finnst það virðingarleysi við umræðu af þessu tagi að menn skuli ekki geta haldið sig í salnum og hlustað. Auðvitað ættu þeir að vera hér, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Það var beðið um það, herra forseti, að þeir væru hér við umræðuna. Hér er á ferðinni stórpólitískt mál sem varðar alla ríkisstjórnina.

(Forseti (GÁ): Sá forseti sem nú stjórnar fundi lét þau boð út ganga fyrr í dag.)

Ég er hæstv. forseta þakklátur fyrir það og þess vegna fyndist mér sanngjarnt að þeir sæjust í salnum, þessir höfðingjar.

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að hæstv. utanrrh. er í húsinu.)

Það er líka þannig, herra forseti, að hæstv. forsrh. hefur stundum gripið í taumana og tekið völdin af hæstv. fjmrh., bæði í stóru og smáu. Frægast var nú þegar hæstv. forsrh. sagði að svona gerði maður ekki og drap þar með hugmyndir hæstv. fjmrh. um að skattleggja blaðburðarbörn. En það gerðust líka tíðindi í þessum málum þegar hæstv. forsrh. notaði sér utanför hæstv. fjmrh. og setti niður mál sem þessu er nátengt. Hann kvað upp úr um það að ekki yrði farið fram með frv. um breytingu á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna nema í samráði og samkomulagi við þá.

[18:00]

Herra forseti. Í fjórða lagi af efnisþáttunum ætlaði ég að nefna 40. gr. Hún er líka dálítið merkileg frá ýmsum sjónarhornum séð og það ekki bara varðandi samhengið við önnur ákvæði þessa frv. Hún er eiginlega merkileg út frá réttarhugsun í landinu og spurningunni um virðingu fyrir mannréttindum og réttindum borgaranna. Hvað stendur í 40. gr.? Ég veit að stjórnarþingmenn eru almennt upp til hópa stórkostlega stoltir af að bera svona mál hér fram. Það stendur, herra forseti:

,,Embættismönnum er óheimilt að efna til, stuðla að eða taka þátt í verkfalli eða öðrum sambærilegum aðgerðum.``

Þetta er án frekari skilgreiningar. Hvers konar höft og kvaðir er verið að setja á menn? Hvers konar réttindaskerðing er hér á ferðinni? Vita menn ekki að til þess þarf mjög brýn rök? Ríkir almannahagsmunir þurfa að liggja að baki öllum takmörkunum á mannréttindum hér á landi. Er þetta virkilega hugsað þannig að ekki skuli embættismenn bara vera án verkfallsréttar og samningsréttar --- ég vek aftur athygli á því að það er hæstv. fjmrh. sem getur í vissum tilvikum úrskurðað um að menn lendi undir þennan flokk og þar með svipt menn þessum réttindum --- heldur skulu þeir ekkert það mega gera sem að mati væntanlega hæstv. fjmrh. gæti flokkast undir að stuðla að, taka þátt í eða efna til verkfalla eða annarra sambærilegra aðgerða. Hvaða eru sambærilegar aðgerðir við verkföll? Það eru væntanlega allar aðgerðir sem verkafólk grípur til til þess að reyna að bæta kjör sín. Það er varla til önnur niðurstaða en sú að þetta sé allsherjarbann á það að þessi hópur í landinu megi með nokkrum hætti æmta eða skræmta, láta hugsun í ljós, skrifa blaðagrein eða tala við kunningja sína um það að hann hafi skítt og vildi sjá kjör sín batna. (PHB: Var þetta ekki háaðall rétt áðan?) Þessir embættismenn? (PHB: Já.) Skiptir það einhverju máli gagnvart mannréttindum? (PHB: Já.) Er hv. þm. að halda því fram að menn eigi að vera misjafnir gagnvart mannréttindum? Er það hugsun hv. þm. að þar með sé þessi hópur réttdræpur? Ég bið nú hv. þm. að hugsa sig um áður en hann kallar aftur svona fram í.

Herra forseti. Þarna er margt mjög sérkennilegt á ferðinni og ég velti því fyrir mér hvort þessar fluggáfuðu hetjur sem hafa höfundarrétt að þessu frv. hefðu kannski átt að hugsa sig um aðeins lengur en frá 12. desember til janúarloka með þeim frátöfum sem átið á jólasteikinni og annað slíkt hefur haft um áramótin og jólin. Hefði það kannski verið hyggilegt að menn hefðu lagst aðeins betur yfir þetta mál áður en þeir til að mynda í ofstæki sínu lenda út á svona brautir.

Það er allt í lagi að hafa það á hreinu og draga skýr mörk um það hverjir hafa verkfallsrétt í þeim skilningi að þeir geti lagt niður vinnu og truflað þá starfsemi sem þeir standa fyrir eða bera ábyrgð á þannig. En að taka af mönnum öll mannréttindi í sambandi við það að láta hugsun sína í ljós eða eiga óbeint aðild að einhverjum slíkum hlutum. Ef embættismaður sem hér fellur undir sendir t.d. baráttuskeyti inn á fund eða inn á verkfallsvakt er hann þá orðinn brotlegur við lög? Já, væntanlega. Hann væri með vissum hætti að taka þátt í eða stuðla að eða efna til verkfalls eða sambærilegrar aðgerðar. Hvar ætla menn eiginlega að draga mörkin? Hvar hafa menn hugsað sér að láta staðar numið? Þarf ekki að taka inn refsiákvæði? Eigum við ekki að semja sérstakt refsiákvæði í samhengi við 40. gr.? Nú leyfir embættismaður sér að láta í ljós að það sé réttlætanlegt að opinberir starfsmenn fari í verkfall til að reyna að bæta kjör sín og skal hann þá sæta varðhaldi í allt að hálft ár. Eða lengur, hafi hann orðið áður uppvís að sambærilegum glæp. (SvG: Og missa þá biðlaun.) Missa þá biðlaun og ekki hljóta frekari starfsframa hjá hinu opinbera. Hvar ætla menn að enda? Ég held, herra forseti, að margt af þessu tagi sé mjög vanhugsað í frv. og það þurfi að fara mikið betur yfir það en gert hefur verið hingað til hvað á yfirleitt erindi inn í mál af þessu tagi. Á hinn bóginn þarf að skilgreina óljósar heimildir sem hér eru á köflum á ferðinni áður en þær verða lögfestar, t.d. þarf að afmarka úrskurðarvald fjmrh. þannig að í lagatextanum sé einhver leiðsögn fyrir því hverja fjmrh. getur samkvæmt eigin geðþótta úrskurðað ýmist embættismenn eða ekki embættismenn o.s.frv. Er ekki verið að framselja þarna ansi mikið vald? Þykir það góð latína? Hvað segir hv. frammíkallandi Pétur H. Blöndal?

Um 7. gr., herra forseti, langaði mig til að fara fáeinum orðum. Reyndar hefur hún líka verið tekin fyrir af fyrri ræðumönnum og ég get vísað til þess. Það er þessi dásamlega grein sem kveður á um auglýsingu starfa og laus embætti. Þar er á ferðinni satt best að segja alveg ótrúlegur texti. Ég get ekki annað en tekið undir að það lýsi fornaldarlegum hugsunarhætti og mannfyrirlitningu, nítjándu aldar hugsunarhætti, gagnvart launamönnum að setja yfirleitt í lagatexta eða orða á blaði hluti eins og þar er gert. Mér finnst það alveg makalaust. Fyrirlitningin á þeim sem vinna hin óæðri störf á vegum ríkisins er svo botnlaus og andar svo út úr öllum þessum texta að það tekur engu tali. Hér er talað um minni háttar skrifstofustörf, ræstingarstörf og sendilsstörf. Þvílíkt og annað eins! Það er rétt svo að mennirnir hafi haft sig í að setja þetta á prent. Þau störf þarf nú ekki að auglýsa. Maður bíður bara eftir því að það verði aftur farið að gefa út svona lærdómskver fyrir heldri manna börn eins og til eru á söfnum og einhverjir hafa kannski séð. (KÁ: Og heldri manna húsmæður.) Já, sérstakar matreiðslubækur fyrir þær o.s.frv. Það er samkvæmt orðanna hljóðan sú nítjándu aldar skipan sem hér á að koma á, ef ekki átjándu. (KÁ: Eftir átján hundruð.) Já, reyndar var þetta að hluta til strax á átjándu öldinni, það er rétt hjá hv. þm. og sagnfræðingi. Sumt af því dóti var nú orðað þannig þá.

Herra forseti. Það er satt best að segja mjög dapurlegt að þetta mál skuli bera að með þessum hætti. Hér hefur í máli margra komið fram það sjónarmið, og ræðumaðurinn er alveg tilbúinn til að bætast í þann hóp, að það geti verið full efnisleg rök fyrir því að taka til skoðunar og breyta vissum þáttum í þessari löggjöf. Um það snýst ekki deilan. Ég hygg að þetta mál hefði ekki vakið nein stórkostleg viðbrögð í þjóðfélaginu ef það hefði verið það sem það segist vera og þykist vera og hæstv. fjmrh. er að reyna að telja mönnum trú um að það sé, þ.e. að í þessu máli vaki ekkert annað fyrir en það að gera minni háttar tæknilegar lagfæringar á úreltum atriðum eins og einhverjum biðlaunarétti og æviráðningu. Þannig reynir hæstv. ráðherra að selja mönnum þetta. Þetta eru fyrst og fremst svona minni háttar lagfæringar sem allir eiga að vera sammála um og eru að mestu leyti þegar orðnar til í praxís. En það bara er ekki svo. Stóra pólitíkin í þessu máli liggur allt annars staðar. Hún er grundvallarbreytingin í anda frjálshyggjunnar sem hér er verið að reyna að læða inn án þess að menn séu menn til að standa fyrir því og reyna að rökstyðja það. Og hæstv. fjmrh. væri maður að meiri ef hann gengist við málinu. Ef hann kæmi hér og segði: Ég er frjálshyggjumaður enda var ég í stuttbuxnadeildinni og Eimreiðarhópnum. Og nú er ég loksins að koma hér með þingmálið sem mig hefur alltaf dreymt um --- báknið burt. (Fjmrh.: Ég var ekki í Eimreiðarhópnum.) Ég bið hæstv. fjmrh. afsökunar. Ég hef haft hæstv. fjmrh. stórlega fyrir rangri sök, hann var ekki í Eimreiðarhópnum. En hann mun þó oft hafa verið talinn til stuttbuxnahópsins í Sjálfstfl., frjálshyggjudeildarinnar, og honum hafa verið eignaðar hugrenningar af þessu tagi. Ég segi það aftur, herra forseti, það væri hægt að bera virðingu fyrir hæstv. fjmrh. ef hann kæmi til dyranna eins og hann er klæddur, gengist við málinu og reyndi að verja það með rökum í stað þess að smygla því svona í gegn. Þá væru menn tilbúnir að skoða það með jákvæðum hætti og af velvilja að gera lagfæringar og breytingar á þessari löggjöf í góðu samstarfi við samtök opinberra starfsmanna og vinnumarkaðinn almennt, ef boðið væri upp á slíkt. En svo er bara því miður ekki. Aðdragandi málsins er eins og þegar hefur verið lýst. Síðan reyna menn að dulbúa málið og smygla því í gegn á fölskum forsendum og það er löðurmannlegt.

Að lokum, herra forseti, langar mig aðeins til að gera að umtalsefni þessa klisju sem mikið hefur gengið hér og verið rifist um hvort verið sé að skerða umsamin réttindi eða ekki. Niðurstaðan virðist sú að ekki sé hægt að mæla á móti því að hér sé með vissum hætti um kjarabundin réttindi manna að ræða í þessu frv. En ég leyfi mér að segja að í mínum huga skiptir það ekki öllu máli. Það er klisja og kjaftæði að halda að það sé hægt að einangra annars vegar þá þætti sem samið hefur verið um á hverjum tíma og hins vegar það umhverfi sem samið er í, þar með talið lagalegt. Það er rugl. Auðvitað taka kjarasamningar alltaf mið af því lagalega og starfslega umhverfi sem samið er í. Annað er ekki hægt. Þetta samhengi er þannig að það þýðir ekkert að vera að tala um hvað stóð nákvæmlega í kjarasamningi eða hvað var í lögum á hverjum tíma. Menn semja með hliðsjón af öllum almennum aðstæðum, réttindum, skyldum og starfsumhverfi, þess vegna alveg óskyldum þáttum eins og menn auðvitað vita. Hversu oft hafa kjarasamningar ekki verið innsiglaðir með því að gerðar hafa verið breytingar á fjárlögum eða alls óskyldum þáttum og þeir hafa verið metnir inn í kjarasamningana með ýmsum hætti. Halda menn t.d. að það mundi ekki hafa áhrif á kjarasamninga, svo dæmi séu tekin nógu fráleit og skýr til að menn skilji það, ef það hefði staðið í lögum og stæði í lögum að fjórða hvert ár skyldu opinberir starfsmenn fá að vera á fullum launum við að endurmennta sig? Halda menn að það mundi ekki hafa áhrif á kjarasamningana fyrir hin þrjú árin eða hvað? Eða ef það stæði á hinn bóginn í lögum að opinberir starfsmenn skyldu vinna kauplaust í nóvember og desember á hverju ári. Dettur mönnum í hug að við næstu kjarasamninga mundu opinberir starfsmenn ekki muna eftir því máli og reyna að láta það hafa einhver áhrif á kjör sín, þótt það væri ekki inni í kjarasamningi heldur hluti af lagalegri umgjörð og umhverfi starfsmanna? Auðvitað er þetta svona. Þetta er svo mikið endemis bull að það tekur engu tali. Það þýðir ekkert að vera í þessu pexi. Það er alveg út í loftið að vera að rífast um það hvort með lagatextanum núna sé nákvæmlega verið að skerða eitthvað sem hafi verið kjaralegt í þeim skilningi að það hafi verið beinlínis um það samið. Eða hvort það séu einhverjir þættir sem hafa verið á sviði lögvarinna réttinda eða af einhverjum öðrum toga í starfsumhverfi opinberra starfsmanna sem hafa haft áhrif á þeirra kjör. Auðvitað er það þannig, herra forseti, að það er algjörlega viðurkennt og hefur verið í háa herrans tíð að ýmis lögbundin réttindi manna hafa haft áhrif á kjör þeirra. Eða er ekki búið að reyna að sætta opinbera starfsmenn ýmsa, t.d. kennara, við það árum og áratugum saman að þeirra kjör hafa verið lakari en kjör sambærilegra hópa úti á almenna vinnumarkaðnum vegna þess að þeir væru að mynda betri lífeyrisréttindi, byggju við atvinnuöryggi o.s.frv.? Hanga þessi hlutir þá ekki saman? Jú, auðvitað. Hættum þessu, það hefur ekkert upp á sig að eyða tíma í að ræða þennan þátt málsins.

Herra forseti. Að lokum vil ég segja að ég held að það eigi að taka þetta mál hér upp og til umræðu á þeim pólitísku forsendum sem því ber. Við skulum ekki týna okkur í einhverju þrasi um minni háttar mál sem ekki skipta öllu máli, efnisleg eða tæknileg. Það eru þær grundvallarbreytingar sem hér er verið að reyna að læða í gegn sem eru átakaflöturinn í þessu máli og um það skulum við ræða. Ég trúi því ekki enn, herra forseti, að það sé þannig komið að vinnubrögð af þessu tagi nýtist mönnum til þess að þræla í gegn lagasetningu á fáeinum vikum á Alþingi Íslendinga. Ég trúi því ekki að við eigum eftir að eyða þessum fallegu vordögum sem hér eru eftir í það að að sett verði löggjöf með þessum hætti, undir þessum formerkjum og með þessum aðdraganda. Þannig að ég treysti því gjörsamlega að þetta mál fari ekki lengra en hugsanlega að 1. umr. klárist og málið fari til nefndar og þar sofi það svefni, því miður ekki réttlátra, það sem eftir er í vor. Þá hefur hæstv. ríkisstjórn tíma til að hugsa sinn gang, taka málin upp og bjóða samtökum launamanna aftur til viðræðna á jafnræðisgrundvelli um þessi mál og hæstv. ríkisstjórn mun ekki geta notað tímann til annars þarfara í vor og sumar og fram á næsta haust.