Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 18:15:56 (4065)

1996-03-19 18:15:56# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[18:15]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þó það sé að sjálfsögðu rétt hjá hv. þm. að við eigum að beina sjónum að stóru málunum í frv. þá eru þau nú býsna mörg og ýmis atriði hér sem snerta réttindi og skyldur starfsmanna sem virðast kannski smá í fyrstu en skipta miklu máli þegar betur er skoðað. Ég ætlaði fyrst og fremst að víkja að því sem hv. þm. nefndi í sambandi við 9. gr., þ.e. rétt forstöðumanna til að ákveða greiðslur til einstakra starfsmanna. Hann nefndi að þetta tengdist launamisrétti kynjanna og það ætti að beita sér gegn þessu af öllu afli. En þá er þess að geta að hér segir neðar í greininni, með leyfi forseta:

,,Ákvarðanir forstöðumanna skv. 2. mgr. skulu fara eftir reglum, sem fjármálaráðherra setur, þar sem meðal annars skal kveðið á um það að karlar og konur hafi sömu möguleika á að fá viðbótarlaun.``

Í þessu er auðvitað mikil stoð og spurningin sem vaknar er þessi: Á að banna það yfir höfuð? Á sem sagt ekki að vera leyfilegt að vera með einhverja slíka umbun? Það er auðvitað grundvallarspurning. Þetta er atriði sem ég vil fá að skoða nánar vegna þess að að mínum dómi er betra að hafa þetta fast og ákveðið eins og hér er kveðið á um en það kerfi sem við höfum búið við nú um margra ára skeið þar sem einhverjum svona sporslum er úthlutað til hinna og þessara eftir því sem jafnvel ráðherra einum þóknast. Hér er þó verið að reyna að setja ákveðið form á hlutina. En auðvitað er það hárrétt að fyrst og fremst þarf að semja um uppstokkun á launakerfi ríkisins sem tekur mið af því launamisrétti sem þar ríkir milli kynjanna. Þar þarf að beita nýju starfsmati og hækka lægstu laun og grípa reyndar til fleiri aðgerða til þess að auka möguleika kvenna á starfsframa o.s.frv. En ég held að þessi grein í sjálfu sér breyti ekki miklu þar um þegar hún er tengd við það sem síðar segir í greininni að um þetta gildi reglur. Það sem skiptir máli er að launakerfið sé gagnætt og það komi einfaldlega fram hverjir njóta þessara réttinda.