Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 18:18:28 (4066)

1996-03-19 18:18:28# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[18:18]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sömu skoðunar og hv. þm. að í t.d. 3. mgr. 9. gr. sé eitthvert hald í þessum efnum. Af þeirri ósköp einföldu ástæðu að þessi grein gengur miklu skemmra en t.d. afdráttarlaus ákvæði í jafnréttislögum. Ef ég man rétt 4. gr. jafnréttislaga þá er alveg skýlaust og afdráttarlaust bannað að mismuna í launum og tækifærum þannig að í raun mætti segja að þessi grein sé veiking á því t.d. ef þarna hefði staðið tilvísun í 4. gr. jafnréttislaga. Það hefði að mínu mati verið sterkari frágangur á málinu en þessi. Auðvitað munu menn aldrei viðurkenna það, hvorki hafa það í reglum né viðurkenna að þarna sé verið að búa út farveg til að mismuna kynjunum. Það liggur í hlutarins eðli. Það er hins vegar eðli málsins og í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um það hvernig launamunurinn verður til, hvar hann verður til og í hverju hann felst sem ég tel ástæðu til að óttast alveg sérstaklega. Að auka enn svigrúm af þessu tagi fyrir óumsamdar greiðslur. Hv. þm. nefndi, sem ég er alveg sammála, að aðalatriðið væri það að um þessa hluti væri samið og þeir samningar væru gagnsæir. Hvar stendur það í 9. gr.? Það sendur ekkert um að það skuli vera aðgengilegar upplýsingar um það hverjum er bætt upp með launasporslum. Það er aldeilis ekki. Það er m.a. af þeim ástæðum sem ég óttast þetta ákvæði að það er ekki sett í neitt skýrt samhengi við það hvernig með skuli farið. Það er ekki félagsleg hugsun eða félagsleg nálgun á bak við það. Ef þetta væri þannig að heimildirnar tækju til þess að það væri heimilt að bæta jafnsettum mönnum kjör ofan á samninga, þeir hlutir væru aðgengilegir, lægju fyrir og það væri alveg ljóst að menn væru sérstaklega á verði gagnvart því að í gegnum þetta kynni kynbundinn launamunur að aukast, þá væri kannski hægt að líta á þetta. En ég efast meira að segja um að það sé yfir höfuð endilega bót í því að hafa 3. mgr. eins og hún er. Í besta falli er hún það sem Þórbergur heitinn hefði kallað ,,selvfølgelighed``, þ.e. það segir sig sjálft að menn setja auðvitað ekki reglur sem heimila að mismuna kynjunum, væntanlega. En í versta falli þá gæti hún ef eitthvað er verið með veikara orðalagi, heldur til hins verra borið saman við það að vísað væri í jafnréttislög.