Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 18:23:13 (4068)

1996-03-19 18:23:13# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[18:23]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þm. séum í raun og veru ekki mjög ósammála þegar betur er að gáð í þessu sambandi. Mér finnst það liggja í augum uppi og í hlutarins eðli að auðvitað dytti mönnum ekki í hug að hafa reglur um þessa hluti sem opinberlega viðurkenndu að aðstöðumunur kynjanna væri fyrir hendi gagnvart því að fá hluti af þessu tagi á vinnustað. Það gengi ekki. Það mundi líka brjóta jafnréttislög o.s.frv. Vandinn er hins vegar sá að hættan liggur í því að aðstaða kynjanna til að nýta sér svona möguleika er mismunandi. Það eru svörin sem við fáum. Það er það sem kom fram í könnuninni á sínum tíma, í ítarlegum viðtölum sem þar voru tekin, að það eru félagslegar aðstæður, það er tíðarandinn, það eru fjölskylduaðstæður og annað slíkt sem veldur því að landið liggur þannig að tekjur kvenna út úr slíkum hlutum verða minni. Við getum svo lengi rætt um orsakir og allt það.

Jafnvel þó menn gangi frá þessu gagnvart reglunum og segi: Reglurnar eru í lagi. Bæði kynin skulu eiga sömu möguleika á að fá svona greiðslur. En ef aðstæður fólks eru síðan mismunandi þá bitnar það meira á konunum og þá höfum við í raun og veru ekki unnið neitt. Þannig að mín niðurstaða er sú að það að opna þennan farveg sé af hinu illa. Ég vil sjá þá þróun verða í launakerfinu að menn vinni fyrst og fremst fastan umsaminn vinnutíma fyrir föst umsamin laun. Yfirvinnu tækju menn þá út í fríum o.s.frv. Þessu sporslu-, yfirvinnu-, þóknunar-, einingadóti öllu saman yrði sópað út af borðinu og vinnunni jafnað betur á þá sem fyrir eru með föstum umsömdum vinnutíma fyrir föst umsamin laun. Það er og verður að mínu mati eina leiðin sem eitthvað heldur gagnvart því að berjast gegn kynbundnum launamun.