Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 18:25:21 (4069)

1996-03-19 18:25:21# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[18:25]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hér hljóðs er sama atriði og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir benti á og ég vil mjög eindregið taka undir hennar sjónarmið. Hér er verið að feta sig inn á nýjar brautir. Það er hugmyndin að það gildi gagnsæjar reglur hjá fyrirtækjunum þannig að öllum sé ljóst hvernig starfsframi verður til í fyrirtækinu og að það sé farið eftir reglum þannig að menn átti sig á því hvenær þeir fá kauphækkun og hvenær ekki. Það á sérstaklega að tryggja að þetta sé gert þannig að það bitni ekki á öðru kyninu. Af hverju er þetta gert? Það er vegna þess eins og kom fram hjá hv. þm. að núverandi kerfi er svo ósýnilegt. Og þó menn hafi falleg orð um það að þeir ætli að útrýma yfirvinnu o.s.frv., þá gerist það ekki í bráð. Ríkið þarf á því að halda að geta umbunað góðu fólki og fengið í sína þágu hæft fólk og borgað því sæmilega góð laun umfram það sem eru grundvallarlaunin.

Í öðru lagi finnst mér mjög sérkennilegt að hlusta á hv. þm. koma hingað upp og ráðast að aðstandendum frv. fyrir það að þeir séu að ráðast á kjör manna og kjarabundin réttindi og nefna æviráðninguna sem í raun hefur horfið úr lögum eftir 1974. Ég minni bara á að þeir sem hafa haft kannski mestar launahækkanir að undanförnu hafa t.d. verið kennararnir. Þeir hafa fengið helmingi meira en aðrir. Þeir hafa samt mjög góðan rétt, það er auðvitað ekkert samræmi þar á milli. En það sem athyglisverðast er að þessi hv. þm. var í ríkisstjórn þegar formaður Alþb. var fjármálaráðherra. Þá var samið við opinbera starfsmenn og skömmu seinna voru samningarnir teknir af með bráðabirgðalögum. Þetta þurfa menn að hafa í huga þegar þessi mál eru rædd hér og menn koma og leika Krist í þessum umræðum eins og hv. þm. gerði. (SvG: Hver var að leika Krist hérna? Er þetta nú viðeigandi ...?)