Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 18:32:13 (4072)

1996-03-19 18:32:13# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[18:32]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er ég tilbúinn til að taka þátt í skoðun þessa máls í þingnefnd og ég vona þá líka að það verði gagnkvæmt þannig að þingnefndinni gefist þá almennilegt tóm til þess að fara í þau mál. Það er alveg ljóst að það samráð sem ekki var haft við opinbera starfsmenn verður að færast inn í þingið og vinnu þingnefnda. Ég fyrir mitt leyti mun að sjálfsögðu reyna að knýja á um að samtök opinberra starfsmanna komist að málinu eftir að það er komið til meðferðar á vegum efh.- og viðskn. og þar geti átt sér stað efnisleg umræða og efnislegar viðræður við þá sem eiga að búa við þessa löggjöf og hafa hana sem grundvöll sinn í starfi, vonandi um langa framtíð, tugi þúsunda manna úti í þjóðfélaginu.

Í öðru lagi er það þannig, herra forseti, að það er ekki hægt að leggja að jöfnu einhliða pólitískar ákvarðanir um grundvallarbreytingar á almennri löggjöf, grundvallarlöggjöf, af þessu tagi á vinnumarkaði og einstökum atvikum eða tilvikum sem komið hafa upp í kjaradeilum tiltekinna hópa. Það er alveg rétt að kjaradeila háskólamanna á sínum tíma og langt og erfitt verkfall og lausn þess máls voru allt saman mjög erfiðir hlutir. Síðan fór í gang þróun sem leiddi það af sér að lokum að málin komust í algjöra sjálfheldu á sumarmánuðum 1990. Þá sögu þekkja menn og mætti margt um hana segja. En það verður ekki gert hér, a.m.k. ekki á 24 sekúndum. Hitt er alveg ljóst að það eru ekki sambærilegir hlutir við almenn grundvallaratriði löggjafar sem menn þurfa að vanda sig gagnvart og helst þarf að geta staðið án þess að menn séu mikið að hringla í henni áratugum saman. Það á ekki að vera þannig að grundvallarlöggjöf vinnumarkaðarins sé öll í uppnámi og pólitískt bitbein, að henni sé hent fram og til baka eftir því hvernig vindar blása í ríkisstjórn. Það á að vanda slíka löggjöf, það á að reyna að ná um hana víðtækri pólitískri samstöðu þannig að hún geti helst staðið áratugum saman án mikilla breytinga. Þetta eru ekki vinnbrögð sem teikna til slíks sem hér eru ástunduð.