Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 19:03:11 (4074)

1996-03-19 19:03:11# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[19:03]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir mjög málefnalega ræðu. Hann varpaði til mín þeirri spurningu hvort æviráðning og biðlaun væru fémæt réttindi. Ég spurði þeirrar spurningar og ég fékk ekki svar við því hvort þetta væri hægt að meta að einhverju leyti sem prósentu af launum. Æviráðningin getur varla verið fémæt réttindi fyrir mann sem er að byrja eða er starfandi því hún á ekki að falla niður hjá þeim sem þegar eru æviráðnir. Það er verið að stytta biðlaunin að einhverju leyti en það er líka verið að færa þau í það horf sem fólk vill almennt horfa til, þ.e. að menn séu ekki með tvöföld laun jafnvel í sama starfi hjá sama atvinnurekanda.

Hv. þm. kom með góða hugmynd um að setja stjórnir yfir allar stofnanir. Það væri mjög jákvætt og kæmi til móts við þau vandræði hjá opinberum stofnunum sem hv. þm. Ágúst Einarsson benti á. Á hinum almenna markaði er stjórn yfir stjórnandanum og yfir stjórninni er hluthafafundur. Við getum sagt í þessu tilfelli að ef það væru komnar stjórnir yfir allar stofnanir þá væri yfir forstjóranum, sem er kominn með meira vald komin stjórn, og yfir stjórninni væri fjmrh. eða einhver annar ráðherra sem stofnunin heyrir undir.

Varðandi upplýsingaritið þá held ég að það megi auðvitað gagnrýna það að stjórnvöld séu að réttlæta sinn málstað með slíku riti. En mér sýnist ritið hafa verið mjög ódýrt framleitt og þetta eru að sjálfsögðu upplýsingar til móts við þær miklu upplýsingar sem koma frá hinni hliðinni og hafa komið á undanförnum vikum og mánuðum.