Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 19:04:56 (4075)

1996-03-19 19:04:56# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[19:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf mjög umdeilanlegt hvort það sé hægt að réttlæta það að ráðuneytið gefi út áróðursrit af því tagi sem við höfum verið að ræða hér um. Þegar ég var í ríkisstjórn og lenti í erfiðum málum og þurfti að skýra minn málstað, kaus ég að fara ekki þá leið vegna þess að það er umdeilanlegt, sér í lagi þegar átök eru lík þeim sem nú eru að spinnast þar sem kemur fram í máli hæstv. ráðherra að hann telur að hann eigi nánast persónulega hendur að verja sökum þeirra ádeilna sem hann verður fyrir. En ég taldi samt ef það væri einhver þingmaður í þessum sölum sem væri á móti því að bruðla svona með skattpeninga borgaranna þá væri það hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hér hefur vaskast gengið fram í að gefa mönnum góð ráð um hvernig á ekki að sóa fé.

Að því er varðar síðan það sem hv. þm. talaði um æviráðninguna. Ég get svo sem sagt, ég gerði það ekki í minni fyrri ræðu, að ég tel að æviráðning sé hlutur fortíðarinnar. Ég gæti ekki svarað því á þessari stundu hversu mikils virði hún er. En það er eitt af því ásamt svo mörgu öðru sem þarf að ná lendingu í með samningum. Eitt atriði drap hv. þm. á sem er vert að nefna. Hann sagði: Ja, æviráðning er að minnsta kosti ekki neins virði fyrir þann sem er að byrja núna. Það veltir upp þessum merkilega hlut. Það er bersýnilega ætlunin að setja upp tvö kerfi. Annars vegar sólarlagskerfi fyrir þá sem eru núna starfsmenn fyrir gildistöku þessa frv. og hins vegar fyrir þá sem koma nýir að. Ég velti því fyrir mér hvort það sé siðferðilega verjandi að setja upp slíkt kerfi þar sem menn hlið við hlið njóta mismunandi kjara og stenst það til að mynda jafnræðisákvæði stjórnsýslulaganna? Ég leyfi mér að efast um það. En þar sem jafnklár lögfræðingur og prófessor, dr. Eiríkur Tómasson, hefur nú að málinu komið þá vil ég ekki leggja höfuð mitt að veði.