Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 20:32:21 (4076)

1996-03-19 20:32:21# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[20:32]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Fátt hefur verið meira rætt að undanförnu á þessu landi en ,,frumvörpin``, eins og það er kallað. Sennilega hefur núverandi hæstv. ríkisstjórn ekki orðið frægari að neinu en þessum frumvörpum. Það er talað um þau með skelfingu um allt þjóðfélagið. Það eru ekki bara opinberir starfsmenn sem tala þannig um þessi ósköp. Það eru fleiri, vegna þess að hér er um að ræða allsherjaratlögu að félagslegum réttindum í landinu. Þar er hvert frv. á fætur öðru kynnt til sögunnar. Fremst fara þar frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkins og frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. En þarna eru einnig á ferðinni ýmis önnur frv. eins og t.d. frumvarpsdrög sem munu hafa verið kynnt Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands í morgun. Ég sá í fréttum í kvöld að þau höfðu verið kynnt þessum aðilum og þar eru á ferðinni enn ein tíðindin. Mönnum þarf víst ekki að koma neitt á óvart þó núverandi hæstv. fjmrh. og núverandi hæstv. ríkisstjórn vilji krukka eitthvað í almenn félagsleg réttindi landsmanna. Það er í ágætu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. Sjálfstfl. Það þarf enginn að vera neitt hissa á því.

Hins vegar er alveg ótrúlegt að jafnreyndir menn og núverandi forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., skuli láta sér til hugar koma að vinna í málinu eins og þeir hafa gert. Það er alveg með ólíkindum. Það er engu líkara en þeir hafi kosið að koma af stað illindum. Ég veit að sjálfsögðu að það getur ekki verið. Ég hef enga trú á því að þessir menn, sem ég þekki marga af góðu, séu þannig innrættir að þeir hafi sérstakan áhuga á því að koma af stað illindum í þjóðfélaginu. En það er engu líkara en þeir hafi viljað koma af stað illindum. Og þeir hafa haldið þannig á þessum málum að jafnvel innsiglaður friður um tiltekin atriði eins og t.d. viss atriði varðandi flutning grunnskólans stóðu allt í einu hér í uppnámi, að ég segi ekki í ljósum logum, núna fyrir nokkrum vikum þegar það spurðist hvernig hæstv. fjmrh. ætlaði að standa að málum varðandi Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Ég held að það sé ekki nokkur leið önnur en að halda því fram og ítreka það hér sem áður hefur reyndar verið sagt í þessum umræðum að í þessum fjórum frumvörpum birtist í raun og veru stefna ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð með ótrúlega undarlegum hætti. Það voru handarbakavinnubrögð. Ég held að það verði í fyrsta lagi, hæstv. forseti, að byrja á því að skora á hæstv. fjmrh. að gera grein fyrir því af hverju hann vinnur t.d. svona að málefnum opinberra starfsmanna. Hvað á þetta að þýða? Hvaða skýring er á því að menn haga sér með þessum hætti? Ég tel að Alþingi og þjóðin eigi heimtingu á því að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir því hvað það er sem veldur því að menn henda hér allt í einu inn í umræðuna fjórum frumvarpsdrögum sem snerta mikilvæg grundvallaratriði mannréttinda með þeim hætti að það verður bókstaflega allt vitlaust í mótmælum. Mér liggur við að segja sem betur fer, því þjóðin væri býsna illa á sig komin ef menn kyngdu þegjandi og hljóðalaust þeim réttum sem ríkisstjórnin eldaði fyrir opinbera starfsmenn og fleiri aðila núna um jólin og eftir hátíðarnar.

Svo fór að menn áttuðu sig á því að þetta gat ekki gengið svona. Flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna var í stórkostlegri hættu. Það mál var stopp hér í þinginu í margar vikur á þeim tíma sem hæstv. fjmrh. var í burtu. Þá var ekki hægt að taka það mál fyrir af því að það var í stórkostlegu uppnámi. Og það var ekki fyrr en hæstv. forsrh. birtist hér á fimmtudaginn í síðustu viku að hægt var að fara af stað með viðræður aftur um hugsanlegan flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Ég ætla að byrja á því, hæstv. forseti, að víkja aðeins að yfirlýsingu hæstv. forsrh. vegna þess að hún var gefin í framhaldi af ræðu sem ég flutti þennan dag.

Þannig háttar til að aðfararnótt 25. febrúar í fyrra var gert ákveðið pólitískt samkomulag um flutning grunnskólans sem varð að byggjast á tilteknum tveimur meginatriðum. Þessi atriði voru í háska stödd núna á dögunum vegna þess hvernig fjmrh. ætlaði að keyra fram ýmis mál varðandi réttindi opinberra starfsmanna, þar á meðal kennara, og líka vegna vinnubragða fjmrn. í sambandi við réttindi kennara sem voru alveg með ólíkindum og ég kem hér aðeins að á eftir. Um yfirvofandi flutning grunnskólans var að nást svona tiltölulega góð samstaða í þjóðfélaginu. Þótt ýmsir aðilar hefðu eitt og annað við hann að athuga þá var það engu að síður svo að það var að myndast um hann allgóð sátt og málið var farið af stað. En það stoppar af því fjmrh. heldur á málunum eins og hann gerði þar til hæstv. forsrh. heggur á hnútinn og segir að í bili megi leggja þetta frv. um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna til hliðar.

Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni sl. fimmtudag eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Enda þótt breytingar þar séu nauðsynlegar upp á framtíðina til að styrkja stöðu sjóðsins og að tryggja að ríkið komist ekki í þrot varðandi hann þegar fram í sækir og jafnframt að tryggja að meira jafnvægis gæti í lífeyrissjóðsmálum landsmanna en verið hefur þá verður jafnframt að gæta að hinu sem ég hafði áður lýst yfir að ekki væri verið að svipta menn bótalaust rétti sem þeir hefðu áunnið sér. Mér sýnist einsýnt miðað við viðtökur á því máli að það þurfi að fara fram góðar og umfangsmiklar viðræður við aðila um lífeyrissjóðsmálin. Ríkisstjórnin mun ekki reyna að þvinga fram að það verði afgreitt á þessu þingi, t.d. í ósátt við kennara.``

Síðan segir hæstv. forsrh.:

,,Ég geri alls ekki lítið úr því að menn þurfi að fara mjög nákvæmlega ofan í lífeyrismálin og gera þar breytingar en þær breytingar verða að horfa til framtíðar. Ekki er hægt að láta þær breytingar verða afturvirkar með þeim hætti að það sé verið að hafa af einstaklingum rétt sem þeir höfðu byggt upp eða höfðu ástæðu til að ætla að þeir mundu búa við.``

Ég staldra við þetta, hæstv. forseti, og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. vegna þess að þetta mál er hluti af því sem við erum að ræða hér hvernig hann skilji þessa yfirlýsingu. Hvað á hann við með því að ekki megi svipta menn bótalaust rétti sem þeir hafa áunnið sér? Liggur það fyrir að mati hæstv. fjmrh. hvaða atriði það eru sem hann telur að menn hafi áunnið sér? Hvernig á t.d. í þessu sambandi að líta á svokallaða 95 ára reglu? Eða ýmsar aðrar reglur sem menn hafa auðvitað áunnið sér þann tíma sem þeir hafa verið í þjónustu ríkisins en hafa kannski ekki byrjað að nýta sér hana af því þeir hafa ekki uppfyllt öll skilyrðin sem þarf til þess að uppfylla viðkomandi réttindi. Það er alveg nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir þessu, annaðhvort í andsvari eða í lokaræðu sinni hér í kvöld, hvað hann telji skýrt í því efni þegar menn eru að tala um það hvað opinberir starfsmenn hafa áunnið sér. Mér finnst ekki að fjmrn. hafi unnið heimavinnuna sína í þessu máli. Ég hef a.m.k. ekki orðið var við það.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. fjmrh. um það að hæstv. forsrh. segir að það verði að fara fram góðar og umfangsmiklar viðræður við aðila um lífeyrismálin. Ég get alveg tekið undir þetta og ég vil líka spyrja hæstv. fjmrh. hvað séu góðar og umfangsmiklar viðræður um þessi mál. Hvernig hyggst hann haga þeim góðu og umfangsmiklu viðræðum? Það skiptir gríðarlegu máli. Og síðan segir hæstv. forsrh.:

,,Ríkisstjórnin mun ekki reyna að þvinga fram að það [þ.e. þetta frv. um lífeyrissjóðina] verði afgreitt á þessu þingi t.d. í ósátt við kennara.`` Eru það einhver fleiri atriði sem ríkisstjórnin er þarna með í huga en sérstaklega kennararnir og flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna? Ég spyr að því.

Og enn vitna ég í yfirlýsingu hæstv. forsrh. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ég geri alls ekki lítið úr því að menn þurfi að fara mjög nákvæmlega ofan í lífeyrismálin og gera þar breytingar en þær breytingar verða að horfa til framtíðar. Ekki er hægt að láta þær breytingar verða afturvirkar með þeim hætti að það sé verið að hafa af einstaklingum rétt sem þeir höfðu byggt upp eða höfðu ástæðu til að ætla að þeir mundu búa við.``

Og ég spyr líka: Hvað þýðir þetta? Um hvað er hæstv. ríkisstjórn að tala í þessu efni? Ég tók eftir því að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson var með býsna fyndinn kafla um að það væri undarlegt þetta samkomulag þeirra formanns og varaformanns Sjálfstfl. í þessu atriði. Ég ætla svo sem ekki að fara að skemmta mér eða gera tilraun til að skemmta öðrum með því máli en ég reikna með að mennirnir viti nokkurn veginn um hvað þeir eru að tala. Og hvað eiga menn við þegar þeir tala um að breytingarnar megi ekki verða afturvirkar? Er það þannig, hæstv. forseti, að menn séu hér að lýsa því alveg stíft yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar að þau réttindi öll sem menn hafa unnið sér inn í núinu, bæði hin beinu réttindi og auk þess hin óbeinu réttindi sem lúta að sérreglum, 95 ára reglu, 32 ára reglu og guð veit hvað það heitir allt saman, séu eign manna þannig að þeir sem hafa unnið sér þau inn geti nýtt sér þau við lífeyristöku þegar þar að kemur? Það er algjört úrslitaatriði, hæstv. forseti, m.a. fyrir þá aðila sem standa að þessu máli hér og ég tala nú ekki um kennarana sem á að fara að flytja yfir, eins og það er kallað, að fá svör við þessum spurningum.

Ég ætla, hæstv. forseti, aðeins að halda mig við kennarana og rifja upp að hérna liggur fyrir frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins en í menntmn. liggur fyrir frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Það er gífurlega margt sem ber þarna á milli. Það eru gríðarlega stór atriði sem ber þarna á milli og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvernig hann sjái fyrir sér sambúðina milli þessara tveggja kerfa, annars vegar kennaranna hjá sveitarfélögunum og hins vegar opinberra starfsmanna sem vinna hjá ríkinu við allt önnur skilyrði. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem hér hefur heyrst. En að sögn tæknimanna liggur nokkurn veginn í augum uppi að það er ekki við því að búast að menn geti unað því að um sé að ræða tvenns konar réttindakerfi. Er hæstv. fjmrh. tilbúinn til að lýsa því yfir að réttindi kennara og skólastjórnenda haldi, að það sé hans pólitíska yfirlýsing að hann muni standa með þeim réttindum eins og þau standa í hér frv. hvað sem kann að verða samþykkt í hinu frv.? Er hann tilbúinn til að lýsa því yfir? Ef hann er ekki tilbúinn að lýsa því yfir þá er fiskur undir steini. Þá er maðkur í mysunni. Það er alveg nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. skýri þetta af því að þessi frv. eru tvö og hann flytur þau bæði sjálfur sem hluti af ríkisstjórninni. Annars vegar flytur hann frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem fjmrh. og hins vegar er það menntmrh. sem flytur hitt frv. með stuðningi fjmrh. Þetta verður að vera alveg skýrt í þessu sambandi, hæstv. forseti. Þess vegna tel ég, með hliðsjón af umræðunum sem hafa verið hér að undanförnu um þessi mál, að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. taki algjörlega af skarið í þessu af því að frv. eru mörg. Það er blekking að ætla sér að ræða þetta mál hér í einhverju tómarúmi. Þetta mál fjallar ekki fyrst og fremst um tæknileg atriði varðandi réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þetta frv. er hluti af pólitískri heild sem m.a. er verið að leggja á borð þingmanna núna í frv. til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem er verið að tína hér inn í skjóli náttmyrkurs á kvöldfundi frá hæstv. félmrh. Þetta er hluti af heild.

[20:45]

Varðandi það að kannski beri ekki svo mikið í milli þessara tveggja frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda, þá er það þannig að það eru gríðarlega stór atriði sem þarna ber í milli. Ég ætla í því sambandi, hæstv. forseti, að víkja t.d. að 2. gr. frv. um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Um ráðningu ... Tekið skal fram hvort um er ræða skipun eða ráðningu með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Starfsmaður á rétt á að fá í hendur afrit af fullgildum ráðningarsamningi sínum.``

Það er ekkert svona lagað í hinu frv. Þar er ekki á vísan að róa að því er þetta varðar.

Ég nefni í öðru lagi 4. gr. í kennarafrv. þar sem er fjallað um skipun í stöður. Hún er auðvitað hvergi í hinu frv. eins og það lítur út.

Ég nefni í þriðja lagi í þessu sambandi mismuninn að því er varðar auglýsingu á stöðum þar sem um er að ræða tiltekið afskaplega sérkennilegt kerfi í 7. gr. frv. sem við erum að ræða hér núna en er mikið einfaldara og gamalkunnugt kerfi í 5. gr. frv. um kennara og skólastjórnendur. Ég gæti líka í þessu sambandi til að undirstrika mismuninn á þessum tveimur frv. nefnt hérna frv. um réttindi og skyldur þar sem fjallað er um tiltekin atriði varðandi setningu manna í störf. Ég get nefnt hér líka 21. gr. frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna varðandi skipun og setningu í embætti þar sem er um að ræða allt allt aðra hluti en í kennarafrv. Þannig að ég held að það sé nauðsynlegt að þingheimur geri sér grein fyrir því að það er verið að leggja hér fram tvö frv. og það er verið að blekkja með öðru frv. Ríkisstjórnin er að blekkja með öðru frv., öðru hvoru frv. er hún að reyna að blekkja þingheim og þjóðina með. Ef hún meinar það sem hún segir í frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna þá meinar hún ekkert með því sem stendur í hinu frv. Það er því alveg nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. svipti hulunni af þessum blekkingaleik sem hann stendur fyrir í þessum málum sem að vísu snertir aðeins þessi tvö frv. eftir að hæstv. forsrh. sló á fingurnar á honum í sambandi við frumvarpsdrögin um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna.

Ég ætla ekki að nefna fleiri atriði sem ber verulega á milli þessara tveggja frv. Ég hef nefnt fimm atriði þar sem verulega er um að ræða stóran mun á þessum tveimur frv. sem hér eru lögð fram.

Svo eru það vinnubrögðin, hæstv. forseti, í sambandi við kennarafrv. úr því að maður nær loksins í hæstv. fjmrh. til að tala við hann um þessi mál. Það er alveg ótrúlegt. Það er þannig að á tilteknum tíma er gengið frá bréfi verkefnisstjórnar, um flutning grunnskólans, til menntmrh. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Verkefnisstjórnin hefur orðið ásátt um að undirbúningur að gerð lagaákvæða þessa efnis skuli fara fram í tengslum við gerð tillagna að frumvarpi til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.``

Það er sem sagt talað um það í bréfi verkefnisstjórnarinnar frá 1. febr. 1996 að umræður um lífeyrismálin skuli fara fram við þessa menn í tengslum við umræður um og breytingar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Tveimur vikum seinna draga starfsmenn fjmrn. upp úr pússi sínu fullbúið frv. sem hafði aldrei verið sýnt þessu fólki sem verið var að ræða við um flutning grunnskólans. Ég segi: Þarna er komið aftan að mönnum með býsna alvarlegum hætti. Ég sagði það hér fyrir nokkrum dögum að ég hefði enga trú á því að hæstv. menntmrh. væri aðili að þessum ljóta leik, að þessu svindli, með leyfi forseta, gagnvart opinberum starfsmönnum. En ég spyr hæstv. fjmrh.: Vissi hann um þetta? Vissi hann, þegar skrifað var undir skjalið gagnvart kennurunum, 1. febr. að það væri tilbúið frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem var lofað í bréfi verkefnisstjórnarinnar að ætti að ræða við kennarana? Vissi hann um það? Var hann þátttakandi í þessu gabbi gagnvart opinberum starfsmönnum? Og svo ætlast menn til þess, hæstv. forseti, að umræðan hér snúist um einhver minni háttar tæknileg atriði út og suður eftir að það er komið í ljós að vinnubrögðin eru eins og hér hefur verið rakið?

Hæstv. forseti. Ég tel að í frv. sem hér er á dagskrá sé um að ræða fjölmörg atriði bæði smá og stór. Ég ætla ekki að endurtaka margt af því sem hér hefur verið sagt fyrr í dag um þau efni. En ég ætla aðeins að byrja á að fara yfir vinnubrögðin sem lýst er í greinargerð frv. á bls. 14. Ég vil skjóta því hér að, hæstv. forseti, að það er náttúrlega mjög sérkennilegt hvernig frv. er lagt fram. Ég hef aldrei séð svona frágang á frv. Það er byrjað á 10--15 línum eða svo, athugasemdir við lagafrv. þetta, síðan eru birtar yfirlýsingar frá tiltekinni nefnd sem fjmrh. skipaði og svo er farið yfir það hvernig þessum hlutum er háttað í nokkrum löndum, síðan yfir hverja grein fyrir sig. En það er hvergi dregið skilmerkilega saman á einum stað hverju nákvæmlega er verið að breyta. Hver grein fyrir sig er tekin og farið einhverjum orðum um hana en það er ekki farið yfir frv. eins og venja er og maður verður að gera kröfu um vegna þess að hér snjóar inn alls konar málum. Því eiga þingmenn að geta gert kröfu um að mál séu sæmilega útbúin af hæstv. ríkisstjórn, en það á ekki við um þetta frv. Það er illa frá því gengið tæknilega burt séð frá öllu efni málsins.

Það var sem sagt 12. des. 1995 að skrifað var bréf og sagt orðrétt, með leyfi forseta, að heildarendurskoðun --- hvorki meira né minna --- stæði fyrir dyrum. 12. desember. Stæði fyrir dyrum. Hvernig mundi nú venjulegur þingmaður skilja þetta orðalag; stæði fyrir dyrum? Mundu menn skilja það þannig að þetta væri eiginlega búið, afgreitt mál, eða mundu menn skilja það þannig að það væri verið að leggja af stað hér í nokkra vegferð? Ég hygg að það sé hinn almenni skilningur á því máli. En það var tekið fram í bréfinu, segir svo hér í öðru lagi, að ætlunin væri að hraða endurskoðun á lögunum. Hvernig hefðu menn nú skilið það? Mundu menn hafa skilið það þannig að það ætti að hraða henni þannig að henni lyki bara um áramót? Eða kannski um næstu áramót, 1996/1997? Það hefði verið talinn hraði einhvern tímann. Það er stundum talinn hraði í fjmrn., t.d. þegar á að fara að leggja á fjármagnstekjuskatt. Þá er nú hraðinn ekki talinn í dögum eða vikum heldur árum eða kjörtímabilum jafnvel hjá hæstv. núv. fjmrh. Veruleikinn er hver? Hann er sá að í þessu bréfi stendur að það sé óskað eftir hugmyndum um breytingar sem fyrst. Þetta gengur svo skínandi vel að það er byrjun í febrúar sem kynnt er efni frv. Svo stendur hér í greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Í kjölfar þess hafa átt sér stað viðræður við fyrirsvarsmenn samtakanna [opinberra starfsmanna] og hefur verið höfð hliðsjón af athugasemdum þeirra við endanlega gerð frumvarpsins.``

Ég fullyrði það, herra forseti, að þarna er verið að reyna að segja ósatt, í þessum línum meira og minna. Það er meira og minna verið að reyna að segja ósatt, verið að vefja ósannindin inn í einhverja loðmullu sem ætlast er til að menn taki ekki eftir. Það var augljóst mál að það var ekki um það að ræða að menn sætu þarna yfir ítarlegum samningaviðræðum um einstök atriði þessa máls, sem menn hefðu þó átt að gera vegna þess að auðvitað er umbúnaður um kjarasamninga, þ.e. lögin í þessu tilviki, hluti kjarasamninganna. Það segir sig sjálft. Þannig að sú tilraun til blekkinga sem birtist hér í greinargerð frv. er alveg ótrúleg. Ég segi það eins og er, hæstv. forseti, að ég neyðist til að nota þau orð þó ég hafi tekið eftir því hér í dag að hæstv. fjmrh. er alveg ótrúlega viðkæmur fyrir orðum, þ.e. íslenskum orðum eins og fram hefur komið, enda er hann búinn að vera lengi í burtu á öðrum menningarsvæðum þar sem tíðkast annað orðbragð en hér í þessari stofnun. Vinnubrögðin eru satt að segja alveg fráleit, algjörlega fráleit af hálfu hæstv. ráðherra í þessum málum.

Eins og ég rakti hér áðan er þetta hluti af heildarstefnu. Eitt er sem sagt lífeyrisfrv. og ég ætla að endurtaka aðeins eina spurningu um það. Hvenær kemur það? Hvenær hefjast hinar umfangsmiklu og góðu viðræður? Umfangsmiklu og góðu viðræður, eða fara þær kannski fram svona sitt í hvoru lagi. Hvenær kemur þetta frv.? Hvenær ætlar fjmrh. að leggja þetta frv. fram? Ætlar hann að gera það í haust? Ætlar hann að gera það í haust? Þá er afturköllun hæstv. forsrh. markleysa. Vegna þess að ef það á að leggja frv. fram í haust, er það partur af þessum málatilbúnaði. Þá er verið að blekkja. Er meiningin að leggja þetta frv. fram í haust? Ég vil líka endurtaka hér fyrri spurningar frá í dag varðandi önnur atriði eins og t.d. í sambandi við réttarstöðu starfsmanna Pósts og síma. Ég vil einnig spyrja: Er kannski ætlunin að taka í gegnum þingið líka frv. sem var verið að dreifa hér á borðin um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur? Er ætlunin að gera það líka? Eins og menn þekkja þá hafa lögin um stéttarfélög og vinnudeilur staðið óbreytt um alllangan tíma. Af hverju? Fyrst og fremst vegna þess að það hefur ekki verið hægt að ná samstöðu um það hvernig þeim ætti að breyta í einstökum atriðum. Og stéttarfélögin hafa verið virt þannig að ríkisstjórnir, hvað sem þær hafa heitið, hafa ekki hjólað í þessi mikilvægu undirstöðuatriði einhliða. Það á reyndar alveg eins við í sambandi við opinbera starfsmenn. Ég spyr: Hvað ætli það hafi oft gerst á undanförnum áratugum að menn hafi hjólað í réttindamál opinberra starfsmanna án þess að áður hafi farið fram ítarlegar samningaviðræður? Ætli við munum ekki eftir því báðir, ég og hæstv. fjmrh., hvernig réttindamál opinberra starfsmanna hafa verið tekin hér í gegnum þingið, t.d. lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem hafa í raun og veru verið niðurstaða kjarasamninga. Og þar sem ráðherrar Sjálfstfl. hafa verið að semja við opinbera starfsmenn og engum hefur dottið í hug að breyta þessum hlutum vegna þess að um var að ræða niðurstöðu samninga. En núv. hæstv. ríkisstjórn gerir ekkert með samninga. Hún ætlar að keyra þessa hluti í gegn með góðu eða illu. Henni er bersýnilega alveg sama hvor lendingin í þeim efnum verður.

[21:00]

Hæstv. fjmrh. sagði hér fyrr í kvöld varðandi viðræðurnar við kennarana: Það var skýrt tekið fram við kennarana að það stæði til að gera þessar breytingar --- ég tók eftir þessu orðalagi --- gera þessar breytingar á lífeyrismálunum. Ég ætla að spyrja ráðherrann: Hvaða ,,þessar breytingar`` voru kennararnir látnir vita um að stæði til að gera á lífeyrismálunum áður en gengið var frá frv. um réttindimálin? Hvaða ,,þessar breytingar`` voru nákvæmlega kynntar í þessu efni? Hvaða ,,þessar breytingar`` voru það sem hæstv. ráðherra ákvað að kynna áður en gengið var frá yfirlýsingu verkefnisstjórnarinnar 1. febrúar sl. um flutning grunnskólans? Hvaða breytingar lágu þá á borðinu varðandi lífeyrismál opinberra starfsmanna um leið og gengið var frá bréfi verkefnisstjórnarinnar? Hvaða breytingar lágu þarna fyrir? Það stendur í bréfi verkefnisstjórnarinnar að þetta verði rætt síðar, en ráðherrann sagði hér í dag: ,,Það var skýrt tekið fram að það stæði til að gera þessar breytingar.`` Þá skildi ég hann þannig að hann ætti við þær breytingar í frumvarpsdrögunum um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, að hann sé að gefa í skyn að það mál hafi í raun og veru verið kynnt fyrir verkefnisstjórninni áður en blaðið var undirritað. Ef það er rangt, er mikilvægt að það komi fram. Ég tel nokkuð ljóst að hitt atriðið sé hreinlega ósatt vegna þess að þessar breytingar gátu ekki hafa verið kynntar við þær aðstæður sem þarna voru.

Málið snýst um það, hæstv. ráðherra, að 1. febrúar sl. gekk verkefnisstjórn vegna flutnings grunnskólans frá yfirlýsingu. Þar var gengið frá reglum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda og því að lagareglur yrðu þær sömu og hafa verið, fluttar algerlega yfir. Þetta mál var rætt í dag og þegar hæstv. fjmrh. var gagnrýndur fyrir að hafa ekki greint frá því í einstökum atriðum sem stæði til að gera í lífeyrismálunum svaraði hann að það hefði verið skýrt tekið fram að það stæði til að gera þessar breytingar. (Fjmrh.: Það var ekki verið að tala um lífeyrismálin þarna.) Það er ágætt, en þá er gott að hæstv. fjmrh. skýri það, annaðhvort í andsvari eða í ræðu sinni seinna, vegna þess að þetta er þýðingarmikið úrslitaatriði. Að vísu liggur það nú fyrir að þessi drög að frv. um lífeyrissjóð virðast hafa verið til þegar menn voru að undirrita yfirlýsingu verkefnisstjórnarinnar.

Ég tel nauðsynlegt að fá þetta alveg upp á borðið, hæstv. forseti, vegna þess að hér er greinilega um að ræða mjög mikla ónákvæmni í samskiptum af hálfu fjmrn. sem nauðsynlegt er að skýra í þessum málum svo hlutirnir geti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti.

Síðan ætla ég, hæstv. forseti, að drepa á nokkur atriði sem ég tel að skipti langmestu máli í þessu frv. Ég tel að það séu þrjú grundvallaratriði sem skaga þarna alveg upp úr. Það er í fyrsta lagi 9. gr. sem hefur margoft verið nefnd í dag og gengur út á það að forstöðumenn stofnana geti ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum o.s.frv. Þetta hefur verið rætt dálítið í dag. Ég tel að þetta sé grundvallarbreyting og ég heyri að menn eru ekki alveg sammála um hana. Ég ætla ekki að endurtaka þá umræðu hér. En ég ætla að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig sér hann fyrir sér að forstöðumenn einstakra ríkisstofnana geti gengið frá þessum hlutum, ákveðið aukagreiðslur til starfsmanna sinna, miðað við þann starfsramma sem þeim er ætlaður samkvæmt fjárlögum hverju sinni? Það hlýtur í raun og veru að vera býsna snúið mál að koma þeim hlutum eðlilega fyrir miðað við að þegar við göngum frá fjárlögum þá felast í þeim fjárheimildir um einstakar greiðslur. Ég sé það satt að segja ekki fyrir mér í fljótu bragði hvernig menn hugsa sér að koma þessu atriði fyrir miðað við annað frv. sem liggur hér inni, þ.e. frv. til laga um fjárreiður ríkisins. Ég sé ekki hvernig sú hugsun sem þarna er verið að viðra og opnar fyrir talsverðan sveigjanleika fyrir þessa aðila rímar við aðrar reglur og önnur lög sem eru í gildi í þessum efnum

Annað atriði sem ég tel standa upp úr, hæstv. forseti, í sambandi við þetta frv. er 40. gr. og það hvernig embættismenn eru flokkaðir í tvennt samkvæmt 22. gr. í æðri og óæðri embættismenn, æðri og óæðri starfsmenn ríkisins. Ég tel þetta satt að segja ekki heppilegt fyrirkomulag. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. skýri mikið betur hvaða rök eru fyrir því að búa til 1. flokks embættismenn og 2. flokks embættismenn. Og hann þarf að skýra mikið betur hvað hann á við með 40. gr., þ.e. orðunum ,,til að stuðla að eða taka þátt í verkfalli eða öðrum sambærilegum aðgerðum.`` Ég tel að þetta sé stórt atriði, hæstv. forseti, og meginatriði nr. 2 eins og ég sé þetta frv. fyrir mér.

Grundvallaratriði nr. 3 er 47. gr. Um hana mætti segja margt, en tíminn leyfir það því miður ekki, hæstv. forseti. Ég minni á að á næstsíðasta þingi var stjórnarskránni breytt. Þar var aðallega breytt mannréttindakafla hennar og það var heilmikið tekist á um hvort það ætti að vera þannig að stéttarfélögin héldu sömu möguleikum til að skipuleggja sig og fólk innan sinna vébanda og verið höfðu. Þau sjónarmið komu fram, m.a. frá einum og einum manni að ég hygg úr Sjálfstfl., að þetta ákvæði sem þarna var verið að tala um væri í raun og veru slæmt og það þyrfti að opna fyrir það að menn gætu losað sig út úr stéttarfélögunum. Með hliðsjón af þessu má t.d. nefna sjónarmið hæstv. menntmrh. varðandi aðild að stúdentaráði Háskóla Íslands eða skylduaðild að samtökum stúdenta.

Hver varð niðurstaða Alþingis í þessu máli? Niðurstaðan varð sú að í raun og veru væri ekkert í nýju stjórnarskránni sem hróflaði við skipulagsrétti verkalýðshreyfingarinnar. Það var t.d. tekið fram af hv. þm. Ragnari Arnalds, frsm. stjórnarskrárnefndar, og hv. þm. Geir H. Haarde, sem var einnig frsm. þeirrar nefndar, að það ætti ekki á neinn hátt að hrófla við þeim réttindum sem verkalýðshreyfingin hefði haft til að skipuleggja sig. Það var alveg skýrt um hvað menn voru að tala. Einn þáv. þm. Sjálfstfl., Björn Bjarnason, gerði athugasemdir við þetta mál varðandi réttindi verkalýðsfélaganna til að skipuleggja sig með eindregnum hætti.

Nú er það hins vegar svo að í 47. gr. er komið inn á grundvallarréttindi hinna almennu verkalýðsfélaga í þessu landi með þeim hætti að það sýnir betur en nokkuð annað í frv. að staða launafólks á Íslandi andspænis þessu frv. hlýtur að mætast í einum punkti. Hér stendur, með leyfi forseta, í 2. mgr. 47. gr.: ,,Nú kýs starfsmaður að standa utan stéttarfélaga og skal hann þá njóta sömu launa og launakjara og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf.`` Hér er bersýnilega verið að opna fyrir alveg nýjan vinkil á þessum skipulagsmálum stéttarfélaganna og verkalýðshreyfingarinnar. Því miður hef ég ekki haft aðstöðu til þess að lesa þetta frv. sem var verið að henda á borðin frá félmrh. Framsfl., hinum vinstri sinnaða Páli Péturssyni hæstv. Það er því mál sem við verðum að skoða síðar og væntanlega gefst kostur á því síðar í kvöld því þetta er auðvitað allt sama súpan.

Ég tel augljóst, hæstv. forseti, með hliðsjón af því hvernig staðan er í þessum málum og með hliðsjón af því að kjarasamningar verða lausir um næstu áramót að ríkisstjórnin vill greinilega taka upp allt samningssviðið eins og það leggur sig. Hún er í raun og veru að segja upp kjarasamningum með þessum vinnubrögðum. Með hliðsjón af vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í þessum málum sem eru algerlega einstæð, á hv. Alþingi auðvitað að taka í taumana. Það er eðlilegt að Alþingi fylgi í þeim efnum fordæmi hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. ákvað að stöðva á þessu þingi lífeyrissjóðafrv. Hann sló þannig á fingurna á hæstv. fjmrh. Ekki í fyrsta sinn segja sumir, ég þekki það ekki. Nú á Alþingi að fylgja fordæmi hæstv. forsrh. og stöðva þetta. Og gera hvað við það? Ekki henda því, heldur vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar þannig að hún geti unnið betur sína heimavinnu og taki þessi mál upp með eðlilegum hætti í samningaviðræðum við stéttarfélögin í landinu sem munu fara fram um næstu áramót eða í tengslum við það að núgildandi kjarasamningar losna. Þess vegna væri að mínu mati eðlilegast að Alþingi samþykkti að vísa þessu frv. frá, vísa því til ríkisstjórnarinnar þannig að hún geti farið í eðlilegar viðræður við stéttarsamtökin í landinu um þessi mál.

Ég vil líka segja, hæstv. forseti, að ef málin eru skilin eftir svona, t.d. varðandi lífeyrismálin og mismununinn á þeim tveimur frumvörpum sem ég hef rætt, er bersýnilega ekki verið að stuðla að góðum friði um það að grunnskólinn flytjist til sveitarfélaganna. Þar þurfa menn bersýnilega að ganga mikið betur frá hlutunum af því að því miður sýnir reynslan að núverandi ríkisstjórn er í þeim efnum ekki treystandi.