Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 21:21:18 (4078)

1996-03-19 21:21:18# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[21:21]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það hefur verið mikið rætt um frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna í dag, enda eina málið á dagskrá þingsins. En það hefur ekki einvörðungu verið rætt innan þings, það hefur einnig verið talsvert til umfjöllunar utan þings. Þar er ég ekki að tala um fjöldann allan af fundum sem haldnir hafa verið undanfarna daga og vikur um þessi mál. Ég er að vísa til viðtala í fjölmiðlum, m.a. við hæstv. fjmrh. Þar mun hann hafa lýst því yfir að drögum að þessu frv., sem hér er til umræðu, hafi verið skotið til samtaka opinberra starfsmanna og óskað eftir umsögn af þeirra hálfu. Þeir hafi kosið, opinberir starfsmenn og þeirra samtök, að fara með þetta út og gera opinberar upplýsingar sem hefðu ekki átt að verða opinberar að svo stöddu. Hv. þm. Pétur Blöndal mun einnig hafa talað í þá veru í dag að málið hafi lekið frá BSRB og öðrum samtökum opinberra starfsmanna. Þannig hefur verið talað hér.

Hvernig halda menn að við vinnum? Hvernig halda menn að lýðræðisleg samtök vinni? Á þetta allt að gerast á bak við luktar dyr? Átti kannski ekki að láta það vitnast að til stæði að svipta lögreglumenn samningsrétti? Átti það ekki að vitnast að það stóð til að svipta starfsmenn Stjórnarráðsins samningsrétti? Tollverði? Starfsmenn fangelsa? Mátti það ekki vitnast? (PHB: Það fór sem sagt út.) Þetta var að sjálfsögðu látið ganga til okkar félagsmanna og félaga og rætt þar. Hv. þm. býsnast nú mjög yfir þeim upplýsingum að um þetta hafi verið fjallað í stjórn samtaka launafólks. Það segir okkur sína sögu um starfshætti í þeim samtökum sem hv. þm. starfar með, þar er það einræðisvaldið sem gildir. Fáeinir menn virðast véla þar um málin og segja síðan hinum hvað þeim eigi að finnast. Að sjálfsögðu er um þetta rætt innan stjórnar og innan samtaka sem eiga um þetta að fjalla.

Í dag var haldinn fundur í þeirri nefnd sem fjallar um lífeyrismálin og lífeyrisfrv. starfsmanna ríkisins. Þar var óskað eftir upplýsingum um það hvort ríkið eða fjmrn. hefði reitt fram einhverja nýja útreikninga. Svörin sem þar fengust voru á þann veg að svo væri ekki. Síðan birtist það í fréttum í dag síðdegis að þessir útreikningar hafi verð gerðir. Þeir eru látnir ganga út til fjölmiðlanna og eru þar til umræðu. Eftir hverju er verið að óska af okkar hálfu? Er verið að óska eftir lokaðri umræðu, einhverri prívatumræðu fáeinna manna þegar verið er að gera grundvallarbreytingar á okkar samningsumhverfi, grundvallarbreytingar á réttarstöðu manna? Hvað skyldu menn hafa verið að staðfesta í þessum útreikningum sem voru til umfjöllunar í fjölmiðlum í dag? Þar var verið að staðfesta að fullyrðingar samtaka opinberra starfsmanna um að drögin að frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins fælu í sér stórfellda skerðingu ættu við rök að styðjast. Verið er að staðfesta að þarna sé um stórfelldar skerðingar að ræða. Og mótsagnirnar sem hér hafa komið fram í málflutningi hæstv. fjmrh. og annarra sem hafa talað af hálfu ríkisstjórnarinnar eru afar miklar. Þannig segir hæstv. fjmrh. að aldrei hafi staðið til að skerða áunnin lífeyrisréttindi bótalaust. Ég vil þá spyrja hæstv. fjmrh. hvernig á því hafi staðið að menn hafi rætt um það í alvöru að afnema svokallaða eftirmannsreglu sem sannanlega felur í sér skerðingu á lífeyri þeirra sem komnir eru á lífeyri? Átti að bæta þeim það upp í launum? Á hvern hátt ætlaði hæstv. fjmrh. að bæta þessi réttindi? Hann hefur fullyrt að aldrei hafi staðið til að skerða áunnin réttindi bótalaust. Hvernig átti að bæta þessu fólki, lífeyrisþegum, upp þessi réttindi? Hvernig átti að gera það?

Hér hefur verið rætt um þær grundvallarbreytingar sem boðaðar eru með frv. um réttindi og skyldur á launakerfi ríkisins, kosti þess og galla að hafa miðstýrt launakerfi og hvort hyggilegt sé að fara út í aukna valddreifingu, fara með kjarasamninga inn í einstakar stofnanir. Og hefur sitt sýnst hverjum í því efni. Þá grundvallarreglu verður að virða, ætli menn á annað borð að hverfa frá miðstýringu til aukinnar valddreifingar, að samningar verði félagslegir, að um verði að ræða félagslega samninga. Ekki samninga á forsendum forstjóranna, ekki duttlungasamninga. En það er einmitt þetta sem boðað er í þessu frv. Þetta er frv. sem veitir forstöðumönnum einhliða rétt til að ákvarða kaupið og kjörin. Þeim er í sjálfsvald sett hvernig þeir bera sig að í þeim efnum. Mér finnst mikilvægt þegar við erum að ræða þetta málefnalega að athuga hver reynsla annarra þjóða er af sams konar breytingum og hér eru boðaðar. Hver er reynsla annarra þjóða? Mönnum hefur orðið tíðrætt um það í dag að það eigi að búa svo um hnútana að hlutur kvenna verði tryggður sem best. Hér í 9. gr. segir að það skuli kveðið á um það að karlar og konur hafi sömu möguleika á að fá viðbótarlaun. Engar reglur eru settar um þetta. Þetta er bara staðhæfing sem þarna er sett á blað.

[21:30]

Hver skyldi reynsla annarra þjóða hafa verið af þeim kerfisbreytingum sem hér eru boðaðar? Alls staðar þar sem hefur verið farið út á þessa braut, hefur þetta leitt til aukins launamunar. Það hefur alls staðar gert það. Það er búið að gera fjöldann allan af rannsóknum á þessu. Þetta hefur gerst í Svíþjóð. Það voru gerðar miklar rannsóknir á því. Launamunurinn jókst. (Gripið fram í: Launamunur almennt?) Já, og sérstaklega milli karla og kvenna. Launamunurinn jókst við það að fara úr miðstýrðu kerfi yfir í valddreift. Hvernig skyldi standa á því? Jú, vegna þess að menn afsala sér tækjunum til þess að laga þessa hluti. Markaðurinn býður upp á ákveðið misræmi og ranglæti í þessum efnum og til þess að laga það þarf að taka ákvörðun um að maður vilji laga það og síðan þarf að hafa möguleika á að fylgja þeirri ákvörðun eftir. Menn hafa notað alls kyns tæki til þess, starfsmat t.d. Menn þurfa að geta tekið um þetta ákvörðun og eiga möguleika á að fylgja henni eftir.

Í frv. eru menn að afsala sér öllum þessum tækjum. Það er ekki nóg með að menn séu að hverfa frá miðstýrðu kerfi og fara yfir í valddreift. Menn eru líka að setja það í vald einstakra forstöðumanna, einstakra forstjóra að ákveða samkvæmt sínum geðþótta. Það segir í lögunum. Það er því allt sem bendir til þess að þessi kerfisbreyting muni leiða til aukins launamunar og aukins munar milli karla og kvenna. Reynslan alls staðar segir okkur þetta. Og heyra hæstv. fjmrh. tala um að það þurfi að gera launakerfið gagnsætt og setja þetta upp á borð. Vita menn það ekki að samkvæmt lögum á að birta allar þessar upplýsingar? Til skamms tíma var birt skrá yfir launakjör allra opinberra starfsmanna. Menn gátu nálgast hana í hvaða bókabúð sem var. Af hverju er þetta ekki gert? Af hverju var horfið frá þessari ráðstöfun? Og vita menn ekki að allar upplýsingar um launakjör, bæði launin sjálf og annað sem mönnum er greitt, er allt til í tölvum fjmrn? Þetta er allt saman þar til. Allar þessar upplýsingar eru fyrir hendi. Það er hægt að keyra þetta allt út ef vilji er til þess. Þessar upplýsingar eru allar fyrir hendi. Það sem verið er að gera núna hérna með þessum breytingum er að það er verið að fara með þetta niður í jörðina. Það er verið að búa til duttlungastjórnun og það er alveg sama hvað hæstv. fjmrh. hristir mikið höfuðið yfir því. Það er verið að búa til duttlungastjórnun nema hann meini ekkert með þessu. Nema hann meini ekkert með því að forstöðumenn stofnana geti ákveðið að umbuna mönnum á sínum forsendum. (Gripið fram í: Hvernig er kerfið núna?)

Kerfið er núna þannig að hinar breiðu stéttir, hinar stóru stéttir í þjóðfélaginu eru á dagvinnulaunum. Vinni þær á næturnar fá þær vaktaálag fyrir slíkt. Þær eru ekki á þessu sporslukerfi, sjúkraliðarnir, hjúkrunarfræðingarnir. Hvað eru menn að tala um hér almennt? Almennt eru opinberir starfsmenn á taxtalaunum. Hvað er verið að gefa í skyn? Að hér sé eitthvert neðanjarðarlaunakerfi þegar á heildina er litið? Staðreyndin er sú að þegar kemur upp í toppana sem menn ætla að gera sjálfráðari, þá er það þar sem sporslurnar verða til. En hjá hinum almenna launamanni er það taxtinn sem blífur. Menn fá greitt samkvæmt launataxta. Heldur hv. þm. Pétur Blöndal að menn séu kannski allir með 40 þús. kr. greiðsluna, hinn almenni opinberi starfsmaður eða vill hann fara nánar út í þá sálma? Hvað eru menn að reyna að gefa í skyn? Staðreyndin er sú að einkenni launakerfisins hjá hinu opinbera er það að launin eru almennt of lág. Það verður að hækka þau. En það verður ekki gert með því að setja þetta inn í duttlungastjórnun forstjóra, það verður ekki gert með því. Það sem verið er að skapa með því er sannanlega, ef við lítum til reynslu annarra þjóða, hætta á auknu launamisrétti.

Eitt vildi ég gjarnan fá upplýst hjá hæstv. fjmrh. sem segir að vel komi til greina að lögreglumenn, tollverðir og aðrir þeir sem samkvæmt frv. eru sviptir samningsrétti, fái samningsréttinn en glati þeirri ráðningarfestu sem þeir búa við. Er verið að bjóða upp á eitthvert val í þessum efnum?

Lögreglumenn á Norðurlöndunum búa við bæði samningsrétt og verkfallsrétt, á öllum Norðurlöndunum, og trausta ráðningarfrestu. Þeir gera það. Hér er verið að bjóða upp á eitthvert val. Það verður fróðlegt að fá upplýsingar frá hæstv. fjmrh. um þetta á eftir.

Það sem er að gerast í grófum dráttum er að það er verið að reyna að þröngva í gegn grundvallarbreytingum. Þannig er að starfsmaður hins opinbera þarf að líta til þriggja þátta. Hann þarf að líta til þess lagaramma sem setur honum skorður. Hann þarf að líta til verkstjórnandans, síns verkstjóra og hann þarf að sjálfsögðu að líta til þeirra sem hann þjónar, almennings. Það sem verið er að gera með þessum lögum er að breyta áherslunum hvað þessa þætti snertir. Það er verið að auka vald yfirboðarans og ég fór í gegnum það við fyrri umræðuna í dag að þetta kemur fram í fjölmörgum greinum frv.

Að lokum vil ég segja þetta. Mér hefur fundist þessi umræða af hálfu hæstv. fjmrh. einkennast af vantrú, mér liggur við að segja fyrirlitningu gagnvart opinberum rekstri og það einkennir allan málatilbúnað í þessu frv. Það er talað um þá ógæfu sem hafi hent þjóðina frá 1955 þegar opinberir starfsmenn voru 8% af vinnuaflinu upp í að vera núna 20%. Það er engin tilraun til að skoða þær þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa á þessum tíma. Þegar umönnunarstörf og uppeldis- og menntastörf hafa flust af heimilinu út á vinnumarkaðinn. Það er engin tilraun til að skoða aukna atvinnuþátttöku kvenna og hvernig það hefur breytt þessum hlutföllum. Það er engin tilraun til þess að skoða þetta með tilliti til samanburðar við önnur lönd sem sýnir að við erum með miklu minni opinber umsvif en gerist á Norðurlöndunum og almennt í hinum þróaða heimi, miklu minni. Það er engin tilraun til að gera það. Stundum veltir maður því fyrir sér hvort hæstv. fjmrh., æðsti yfirmaður hins opinbera reksturs hér á landi, haldi að þetta fólk sé ekki að gera neitt, að það sé eiginlega bara til óþurftar, kennararnir, hjúkrunarfræðingarnir, sjúkraliðarnir, að það komi bara í vinnuna á morgnana svona til að ræða um veikindarétt og biðlaun og lífeyrisrétt og annað slíkt. Að hæstv. fjmrh. skuli ekki átta sig á þeirri þjónustu sem hér fer fram við samfélagið, ekki bara hinn almenna borgara heldur við atvinnulífið allt, því samspili sem á sér stað milli opinbers reksturs og einkareksturs.

Hæstv. forseti. Mér finnst ekki hægt að ljúka þessari umræðu án þess að við fáum nánari upplýsingar frá ríkisstjórninni um hvað hún raunverulega ætlast fyrir. Við erum búin að fá yfirlýsingar frá hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. sem stangast á í veigamiklum atriðum. Hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að það komi ekki til greina að skerða áunnin réttindi. Við höfum ekki fengið svör við því hvort hann ætlar að fylgja þessu eftir gagnvart frv. um réttindi og skyldur. Þar er gert ráð fyrir því að áunnin réttindi verði skert. Biðlaunaréttur er áunnin réttindi. Biðlaunaréttur er ekki sá sami fyrir mann sem hefur starfað skemur en 15 ár og hinn sem starfað hefur lengur en 15 ár. Hann er ólíkur. Þetta eru áunnin réttindi og þannig mætti nefna fleiri atriði.

Hæstv. forseti. Mér finnst ekki hægt að ljúka þessari umræðu áður en við fáum nánari upplýsingar um það hvað ríkisstjórnin raunverulega ætlast til. Og það verður að greiða úr þeim mótsagnakenndu yfirlýsingum sem hafa komið annars vegar frá hæstv. fjmrh. og hins vegar frá hæstv. forsrh.