Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 21:42:37 (4079)

1996-03-19 21:42:37# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[21:42]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það fer að líða að lokum þessarar umræðu. Ég vildi nota tækifærið til þess að taka upp atriði sem hafa komið upp í umræðunni síðan ég talaði fyrr í dag og einnig að koma að einni spurningu sem ég gleymdi að spyrja hæstv. fjmrh.

Fyrra atriðið varðar það sem fram kom í ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þar sem hann ræddi um yfirvinnu. Mér þótti það athyglisvert og það vekur þá spurningu hvernig sú skylda sem lögð er á herðar opinberra starfsmanna að vinna yfirvinnu kemur heim og saman við þá yfirlýstu stefnu að samræma réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna því sem gengur og gerist á almennum vinnumarkaði. Eftir því sem ég best veit er ekki hægt að skylda menn til að vinna yfirvinnu gegn vilja sínum. En slíkt ákvæði er að finna í núgildandi lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þar segir í 31. gr., með leyfi forseta:

,,Þó er engum starfsmanni, nema þeim, er gegnir lögreglustörfum eða annarri öryggisþjónustu, skylt að vinna meiri yfirvinnu í viku hverri en nemur þriðjungi af lögmæltum vikulegum vinnutíma.``

Hér í frv. er þetta hlutfall lækkað niður í fimmtung þannig að það er aðeins verið að draga úr þessari skyldu. En spurning mín er þessi: Finnst hæstv. fjmrh. rétt að halda í þetta ákvæði og hvernig kemur þetta heim og saman við það yfirlýsta markmið að samræma reglur sem gilda á almennum vinnumarkaði því sem er hjá ríkinu? Ekki gerir það ríkið samkeppnishæfara að geta skyldað starfsmenn sína á þennan hátt.

Hitt atriðið sem ég vildi ítreka og spyrja hæstv. fjmrh. um, er skýring á breytingunni varðandi launagreiðslur, það að hverfa frá því að greiða laun fyrir fram og fara í eftirágreiðslur. Ég sé einfaldlega ekki hvaða rök mæla með þessu. Er hugsunin sú að fólk eigi að vera búið að vinna vinnuna sína áður en það fær borgað fyrir hana eða hvað? Þetta getur skipt máli t.d. þegar fólk er að leggja út í vinnudeilur og það getur auðvitað verið erfitt að fá ekki kaupið sitt greitt. (Gripið fram í: Hann er að spara.) Það er nú spurningin. Felst í þessu sparnaður fyrir ríkið? Ég get varla ímyndað mér að svo sé til lengri tíma litið. En mér finnst algjörlega vanta rök varðandi þetta atriði. Þetta er í núgildandi lögum og það er sem sagt verið að breyta þessu en mér finnst hér algerlega vanta skýringu á því hvers vegna.

[21:45]

Þá langar mig aðeins til að ræða við hv. þm. Ögmund Jónasson um 9. gr. frv. sem hann gerði hér að umtalsefni og mér finnst hann nú vægast sagt gera allt of mikið úr. Það kemur fram í skýringum við greinina að það er einmitt verið að taka á því að svona sérstakar launagreiðslur eru mjög handahófskenndar nú. Mér finnst menn ekki hafa lesið greinina almennilega en það segir hér, með leyfi forseta:

,,Forstöðumenn stofnana geta ákveðið að greiða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum,`` --- að sjálfsögðu er samið um grunnlaun og kjarasamningar gilda auðvitað. Síðan segir í framhaldinu --- ,,sem ákvörðuð eru eða samið er um skv. 1. mgr.``

Það er sem sagt hægt að semja um aukagreiðslur af þessu tagi vegna sérstakrar hæfni er nýtist í starfi, t.d. ef menn hafa sérstaka menntun, vegna sérstaks álags og væntanlega nær það til fleiri en ... (ÖJ: Ofan á það sem samið er um.) Já, það er það sem ég er að segja. En það er heimilt að gera þetta með samningum. Það er hægt að semja um þetta. (ÖJ: Þá ræður forstöðumaðurinn.) Þetta stendur hér í greininni, hv. þm. Það er hægt að semja ,,eða samið er um skv. 1. mgr.`` Það er hægt að bæta slíkum aukagreiðslum ofan á samninga. (Gripið fram í.) (ÖJ: Ofan á samninga.) Ofan á samninga. Það er það sem málið snýst um. Slíkar greiðslur geta verið réttmætar, t.d. vegna óeðlilegs álags. Tökum t.d. öldrunarstofnun eða eitthvað slíkt, þá er samið um það sérstaklega að þar sé um álag að ræða. Það kemur líka fram hérna í greininni þó ég ætli nú ekki að fara að gerast einhver sérstakur ... (ÖJ: Þá eru það samningar.) Já. (ÖJ: Það er munurinn.) Það er það sem kemur fram hér í greininni, hv. þm.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þm. að ræða ekki saman hér.)

Það kemur líka fram, það er best að ítreka það enn einu sinni, að það á að fara eftir reglum. Þessi forstöðumaður sem getur samið við sitt starfsfólk eða einstaka starfsmenn um slíkar aukagreiðslur á að fara eftir reglum. Þannig að það er einungis hægt að ákveða slíkt eftir ákveðnum reglum. Ef ég tek það sem hv. þm. nefndi hér áðan þá er það svo að t.d. kennarar í framhaldsskólum svo ég taki nú dæmi hafa samið um ýmsar aukagreiðslur, hópálag, stílapeninga, gæslupeninga og sérstakt álag vegna félagsstarfa sem þeir sinna fyrir nemendur. Það hefur verið samið um ýmsar slíkar greiðslur. Hér er um það að ræða að í stað þess að það duttlungakerfi sem nú er til, þar sem einmitt forstöðumenn semja um svona sporslur í felum --- þannig er það núna og það nær að vísu yfirleitt ekki til mjög stórs hóps en þó ótrúlega stórs. Hann er ótrúlega stór og það eru t.d. ákveðnir hópar háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem hafa slíkar aukagreiðslur. (Gripið fram í: Sjaldnast konur.) Já, það er alveg hérrétt það eru fyrst og fremst karlastéttir sem hafa notið þessa og þar liggja að baki ákveðin sjónarmið. Ég vil spyrja hv. þm.: Hverju hafa miðstýrðir samningar skilað konum hér á landi? Við stöndum einfaldlega frammi fyrir þeirri staðreynd að launahlutfall kynjanna er nú það sama og það var á þrettándu öld og það sama og það var um síðustu aldamót, hvort sem við erum að tala um konur sem ófu vaðmál áður en fiskurinn tók við sem aðalútflutningsvara eða hvort við tökum fiskverkakonur hér um síðustu aldamót sem höfðu einungis um helming af launum karla. Við erum einfaldlega í sömu stöðu enn þann dag í dag ef litið er á meðallaun. Hér hafa samningar á undanförnum árum verið mjög miðstýrðir. Þeir hafa verið mjög miðstýrðir. Ég fæ ekki séð að það hafi skilað konum neinu sérstöku. Hins vegar kannast ég við það frá Danmörku að þar var fyrir nokkrum árum gerð ákveðin breyting sem aðallega fólst í því að samningar voru fluttir frá ríki til sveitarfélaga. Þeir voru fluttir til sveitarfélaganna og það hefur sjálfsagt fylgt verkefnaflutningi yfir til sveitarfélaganna. Það hefur ekki komið fram þar að sú breyting hafi skilað konum neinum sérstöku. Danskur hagfræðingur sem ég hlustaði á út í Svíþjóð fyrir um það bil tveimur og hálfu ári síðan, sagði að sú breyting hefði ekki skilað konum neinu sérstöku. En það verður að liggja að baki einhver stefnumörkun og vilji til breytinga til að það verði breyting á launakjörum kvenna sérstaklega. Það eru markmið sem bæði ríkisstjórn og sveitarfélög þurfa að setja sér. Ég get vísað til þess að launahlutfall kvenna miðað við karla í Bandaríkjunum er miklu hærra en hér. Ekki eru þar miðstýrðir kjarasamningar. Það er nú ekki aldeilis. Þannig að það er ýmislegt annað sem ræður. Það eru viðhorf sem ráða, það eru lög sem ráða og það má nefna að í Bandaríkjunum hafa konur í verulega ríkum mæli nýtt sér dómstólaleiðina. Dómar sem falla þar eru teknir alvarlega og hafa fordæmisgildi. Ég get nefnt sem dæmi að þegar ég fór í ferð um Bandaríkin haustið 1994 þá kom ég m.a. í heimsókn í Firestone hjólbarðaverksmiðjurnar í Iowa (ÖS: Ekki í Yellowstone?) Nei, það var hvorki í Yellowstone né Yellowknife heldur í Iowa. Þar unnu konur í mjög ríkum mæli við verksmiðjustörf við hlið karla. Þær urðu bara steinhissa þegar við fórum að spyrja þær hvernig væri með launahlutföllin því það hvarflaði ekki að nokkrum manni þar að greiða konum og körlum mismunandi laun. Hins vegar var þar búið að standa verkfall í sex mánuði vegna þess að Japanir voru að taka verksmiðjuna yfir. Þeir ætluðu einmitt að bylta launakerfinu og starfsháttum öllum og hafa það að hætti Japana, sveigja menn til hlýðni og annað slíkt. Enda hafði staðið verkfall í sex mánuði. Þannig að þessi mál eru með ýmsum hætti, hv. þm.

Ég held að menn eigi nú að skoða þessa hluti vel. Ég vil rifja það upp í þessu samhengi að hér höfum við einmitt horft upp á það á undanförnum árum að heilu samtökin hafa verið þvinguð undir kjarasamninga, þvinguð undir þjóðarsáttina og í raun og veru verið svipt samningsrétti um árabil. Það er mín skoðun að ég vil sjá sem mesta samstöðu launafólks hér á landi og ég held að það veiti ekki af að það standi sameinað um réttindi sín og sæki fram til aukinna réttinda. En ég hef ekki trú á því að það eigi að þvinga alla undir sömu lög og reglur. Það þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki og það þarf að eiga sér stað veruleg uppstokkun, ekki síst til að ná tökum á því launamisrétti sem hér ríkir. Það þýðir t.d. að karlarnir fá þá ekki það sama. Ef menn ætla virkilega að taka á launamisréttinu þá þýðir það meiri hækkun til kvenna og kvennastétta en karlarnir fá. Ég held að menn eigi ekki að vera svona hræddir við þetta ákvæði sem við erum hér að ræða sérstaklega. Ég hef ekki áhyggjur af þessu enda gilda þær skýringar sem hér eru gefnar á þessu sérstaka ákvæði (Gripið fram í: Ruth Richardson var ...) og þeim reglum sem á að setja. Ég held einmitt að vonandi nýtist þetta konum til betri launa hjá ríkinu. Já, Ruth Richardson var á því að það ætti ekki að binda allt samfélagið í einn kjarasamning og það er nú þróun sem menn hafa t.d. verið að hverfa til í Skandinavíu, að binda ekki allt saman í einn samning eða einn farveg, samráðið mikla vegna þess að það kemur niður á ákveðnum hópum. Við sjáum það, hv. þm. sem er mjög heitt hér í hamsi í þessum umræðum, að sú stefna sem hér hefur verið ríkjandi hefur m.a. bitnað á opinberum starfsmönnum. Hún hefur bitnað á ákveðnum hópum sem reyndar hafa reynt að brjótast undan þessu með hverju verkfallinu á fætur öðru vegna þess að óánægjan er mjög mikil, ekki síst meðal kvennastéttanna. Ég held því að við eigum að hafa opin augun fyrir þeim leiðum sem færar eru. En ef sú verður raunin að þessi lög, verði þau samþykkt, leiði til aukins launamunar kynjanna þá skal ég verða fyrst til að ganga til liðs við hv. þm. til að reyna að breyta því.