Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 22:28:08 (4081)

1996-03-19 22:28:08# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[22:28]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. fór með rangt mál varðandi 47. gr. Hann sagði að það væri sambærilegt gildandi lögum. Það er rangt. Í 7. gr. laga frá 1986 er talað um starfsmenn sem eru utan stéttarfélaga. Í fyrsta lagi greiða þeir til þess stéttarfélags sem þeir ættu að tilheyra og taka laun samkvæmt þeim samningum. Ég er ekki að gera að umtalsefni gjald til stéttarfélaga. Í 47. gr. segir allt annað. ,,[Hann skal] njóta sömu launa og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf. Sé ekki um það að ræða skal fjmrh. ákveða laun og launakerfi starfsmanna.`` Hér er efnisbreyting á ferðinni sem opnar möguleika fyrir fjmrh. að brjóta niður félagafrelsi hjá opinberum starfsmönnum. Og ég er dálítið hissa á því að opinberir starfsmenn hafa ekki gert meira úr þessu ákvæði en raun ber vitni. Þeir hafa reyndar nefnt þetta.

Í öðru lagi varðandi vald forstöðumanna og annað slíkt. Ég hef margoft tekið fram að ég vil auka vald ríkisstofnana. Það á hins vegar ekki að gerast, hæstv. fjmrh., með þeim hætti sem hér er lagt upp með, þ.e. með eftirlitslausu valdi sem forstöðumönnum er fengið. Ég er að tala um að valdinu fylgi eftirlit og þá samningsumboð. Það verður að vera í farvegi sem er hægt að vinna vel eftir, en það á að efla sjálfstæði stofnana.