Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 22:30:08 (4082)

1996-03-19 22:30:08# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[22:30]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ræðutími hefur verið takmarkaður og skal ég reyna að vera stuttorður. Í fyrsta lagi drógu kennarar sig út úr samstarfi um flutning grunnskólans vegna þess að þeir töldu sig hafa verið blekkta. Þeir hafa ákveðið að ganga að nýju til samstarfs en vilja áður fá skriflegar yfirlýsingar frá ríkisstjórninni vegna þess að þeir hafa brennt sig áður á því að það er ekki að marka þær yfirýsingar sem gefnar hafa verið.

Hæstv. fjmrh. segir að ekki standi til með þessu frv. sem hér er til umræðu að skerða réttindi sem samið hafi verið um. Hér er verið að breyta öllu kjaraumhverfinu, þar á meðal áunnum réttindum. Ég nefndi það í ræðu minni áðan að biðlaunaréttur er áunnin réttindi. Hann eykst eftir því sem fólk er lengur í starfi. Hæstv. fjmrh. sagði hvað honum þætti sanngjarnt í þeim efnum. Honum þótti ósanngjarnt ef einhver einstaklingur væri í einhvern tíma á tvöföldum launum. Ég vil trúa hæstv. fjmrh. fyrir því að mér finnst líka ósanngjarnt þegar ráðherrar í ríkisstjórn eru á fjórföldum launum á við lægstu starfsmenn ríkisins, mér finnst það mjög ósanngjarnt. Mér finnst það líka mjög ósanngjarnt þegar ríkisstjórn gefur einkavinunum SR-mjöl upp á mörg hundruð millj. Mér finnst það líka mjög ósanngjarnt.

Hæstv. fjmrh. segir að það takist á tvö sjónarmið. Það er rétt. Þær nýjungar hins vegar sem fjmrh. boðar eru sóttar í mistakasmiðjur heimsins. Menn hafa leitað fanga í Nýja-Sjálandi og Thatcher-Bretlandi. Það er rétt að þessum ráðum er andæft vegna þess að þau hafa hvarvetna leitt til aukins ójafnaðar og það er á þeirri forsendu sem þessu er mótmælt.