Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 22:33:49 (4084)

1996-03-19 22:33:49# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[22:33]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að ræða frekar biðlaunaréttinn við hæstv. fjmrh. Ég vil fyrst spyrja hann: Gerir hann sér ekki grein fyrir því að fjmrn. hefur tapað næstum öllum málum sem tengjast biðlaunarétti? Sá skilningur sem hann hefur haft uppi á biðlaunum og eðli þeirra hefur hingað til þegar til dómstóla hefur komið verið dæmdur rangur. Ég er andstæður þeirri skoðun hans að biðlaunarétturinn sé ekki áunninn. Ég held að hann sé áunninn með tvennum hætti. Í fyrsta lagi í gegnum baráttu opinberra starfsmanna sem heildar, hann hefur komið til vegna þeirra. Í öðru lagi er hann fall af tíma. Hann eykst þegar kemur yfir ákveðna tímalengd í starfi hjá ríkinu. Þess vegna er hann áunninn.

Í þriðja lagi held ég líka að hann sé eins konar trygging sem hinn opinberi starfsmaður hefur fengið gegn því að starf hans kunni að verða fellt niður. Þá verður þessi réttur virkur. Þetta held ég að menn verði að gera sér grein fyrir.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvernig á því standi, ef hann er svona mikið á móti biðlaunaréttinum, að embættismenn halda réttindum áfram en ekki aðrir.