Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 22:35:17 (4085)

1996-03-19 22:35:17# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[22:35]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hv. þm. Ég held að síðasti dómurinn um biðlaunaréttinn byggist á svokallaðri jafnræðisreglu, þ.e. ef maður les þennan dóm með mínum gleraugum. Það kann að vera rangt því að það er erfitt að glöggva sig á honum. Ég tel að biðlaunarétturinn sé skaðabótaréttindi sem auðvitað eru mismunandi mikil eftir því hvort starfsmaður er lengur eða skemur við störf. Þessi réttur er tilkominn, eins og mjög gögglega sést í Alþingistíðindum frá þeim tíma, til þess að koma í veg fyrir að fólki væri sagt upp með því að leggja niður störf af því að það hafði hvorki samnings- né verkfallsrétt. Og ástæðan fyrir því að þessu er haldið hjá svokölluðum embættismönnum er að þeir munu hvorki hafa samningsrétt né verkfallsrétt eftir þá breytingu sem verið er að gera hér. Þess vegna er eðlilegt að þeir haldi að nokkru biðlaunaréttinum eins og var frá 1954, áður en menn höfðu samnings- og verkfallsrétt. Það er skýringin.