Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 22:39:43 (4089)

1996-03-19 22:39:43# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[22:39]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg rétt hjá hv. þm. að við stöndum frammi fyrir því að þurfa að velja aðra hvora leiðina eða einhverja blöndu úr báðum, t.d. að loka sjóðnum og nýir starfsmenn fái þá önnur kjör. Þau kjör geta annaðhvort verið betri launakjör eða meira framlag vinnuveitandans á móti framlagi launþegans í lífeyrissjóð þar sem framlagið stendur undir útborguninni þegar fram í sækir. Þetta eru þær tvær aðferðir sem til eru.

Það er minnst á 60--70 milljarða í þessu sambandi. Það er nú þannig með suma tryggingastærðfræðinga að þeir gefa sér forsendur. Það fer auðvitað allt eftir ávöxtunarforsendunni sem gefin er hvaða upphæð er notuð. Ef við höfum 5%, þá er þetta lægri upphæð. Ef það eru 2,5 eða 3%, sem ég veit að kollegar hv. þm. nota, þá er upphæðin miklu hærri. Þetta er ekki meiri vísindi en svo. Það er t.d. enn deilt í lífeyrisnefndinni um slíkar forsendur af því að tryggingastærðfræðingar gera svo mikinn mun á því hvernig laun munu þróast og hver verði síðan verðlagsvísitala. Ég held að þeir hafi ekki alltaf rétt fyrir sér þó að þeir séu vel menntaðir.