Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 22:41:13 (4090)

1996-03-19 22:41:13# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[22:41]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég held að það sé að koma betur og betur í ljós hvað frv. er illa unnið af hálfu hæstv. fjmrh. Það sannar kannski það sem menn máttu vita að líklegast borgar sig ekki fyrir hæstv. ráðherra að flatmaga á fjarlægum ströndum meðan misvitrir embættismenn framkvæma verkin fyrir þá. Það sem hér hefur gerst er að það eru lögð fram frumvörp en ráðherrann er ekki alveg klár á því hvað í þeim felst.

Ef ég má byrja á því, herra forseti, að taka hér dæmið um lífeyrisréttindafrv. sem ekki hefur verið lagt fram. Hæstv. forsrh. hefur sagt þvert ofan í yfirlýsingar hæstv. fjmrh. að það verði ekki lagt fram í þeirri mynd sem það hefur verið kynnt hagsmunaaðilum. Því er ljóst að hæstv. fjmrh. hafði ekki hugmynd um hvað það var sem fólst í því frv. Hæstv. fjmrh. hefur aftur og aftur í dag og í fjölmiðlum síðustu daga eftir að hæstv. forsrh. var búinn að gera hann afturreka með frv. haldið því fram að hann hafi ekki ætlað að skerða rétt eins eða neins. Hins vegar, eins og hann hefur raunar sagt í dag, vissi hann ekki hvað í þessu frv. var. Hann var ekki viss um hvort í því fólust skerðingar eða ekki. Samt hafði hann haft fyrir því að kynna hagsmunaaðilum frv. Slík vinnubrögð eru auðvitað afskaplega óvönduð.

Herra forseti. Það hefur komið fram að tryggingastærðfræðingur, væntanlega óháður sem hefur bara beitt þeirri þekkingu sem hann hefur aflað sér með langri skólagöngu á sínu sviði, hefur reiknað þetta frv. sem liggur fyrir í dragaformi og er á flækingi hist og her um þjóðfélagið. Hann kemst að þeirri mikilvægu niðurstöðu að skerðingin sé 4--11%. Þetta er merkileg tala, ekki síst í ljósi þess að aðstoðarmaður hæstv. fjmrh. hefur sagt í fjölmiðlum að sér komi alls ekki á óvart að slíkt sé skerðingin og hann rengi það ekki. Með öðrum orðum er sá maður sem næst gengur hæstv. fjmrh. þeirrar skoðunar að það geti vel verið svo að frv. feli í sér 4--11% skerðingu. Þá spyr maður: Ef það kemur ekki aðstoðarmanni fjmrh. á óvart, því skyldi það þá koma hæstv. fjmrh. á óvart? En það er eigi að síður svo að hæstv. ráðherra segist ekki hafa nokkra hugmynd um það hvort í þessu felist skerðing eða ekki. Það eru ekki góð vinnubrögð, herra forseti.

Hins vegar fagna ég því að bæði hv. þm. Pétur Blöndal og hæstv. fjmrh. hafa eðlilega sagt að ef til þess komi að skerða réttindi af þessu tagi, verði með einhverju móti að bæta það. Það er auðvitað mergurinn málsins. Ef menn ætla með einhverju móti að skerða áunnin réttindi, verður að bæta það upp með einhverjum öðrum hætti.

Herra forseti. Það er hæstv. fjmrh. sem hefur öðru sinni í dag dregið inn í umræðuna frv. sem varðar réttindi kennara. Og það er ekki hægt annað en bera til baka þær vitleysur og þær staðleysur sem hæstv. ráðherra lætur sér hér öðru sinni um munn fara. Við tókum þessa umræðu, herra forseti, í síðustu viku þegar hæstv. ráðherra var víðs fjarri góðu gamni. Hæstv. ráðherra kemur hér og segir: Það var aldrei ætlunin að brjóta neitt á kennurum. Það var aldrei ætlunin vegna þess að menn gerðu þeim ljósa grein fyrir því að það kynni að fara svo að hér yrði lagt fram sérstakt frv. sem breytti skyldum og réttindum allra opinberra starfsmanna og af sjálfu mundi þá leiða að það kynni að fara svo að réttindum kennara yrði þá líka breytt.

[22:45]

Herra forseti. Það er nákvæmlega þetta sem ekki var sagt við kennara þegar gengið var frá samningunum. Og það er rétt að fara aðeins yfir með hvaða hætti þetta samkomulag var gert. Á Alþingi náðist víðfeðm samstaða um flutning grunnskólans yfir til sveitarfélaganna og það var tvennt sem menn settu inn í lög sem kváðu á um þetta. Það var í fyrsta lagi að lífeyrisréttindum yrði ekki breytt til hins verra og að ráðningarréttindi kennara og skólastjórnenda mundu heldur ekki breytast þegar yfir til nýs vinnuveitenda væri komið. En það segir réttilega á bls. 9 að það kunni að skapast þær aðstæður að ríkisstjórnin gæti haft frumkvæði að því að breyta samkomulaginu við kennara. Og hvaða aðstæður eru það? Jú það er ef einn af þessum þremur aðilum, fer fram á breytingar, ef t.d. sveitarfélögin óska eftir því að réttindum kennara verði breytt. Það var eins og blaut tuska framan í andlit þingheims, framan í andlit kennaranna þegar þetta sást í greinargerðinni og þegar hæstv. menntmrh. kom og flutti þetta líka munnlega í sinni ræðu. Menn áttu ekki von á þessu. Þetta var aldrei parturinn af samkomulaginu og það er staðfest á blaðsíðunni beint á móti, herra forseti. Neðst á bls. 8 í frv. til laga um réttindi kennara og skólastjórnenda segir, með leyfi forseta:

,,Frumvarpið er byggt á því samkomulagi sem náðist milli þessara aðila og birt er í skýrslu nefndarinnar.``

Síðan segir: ,,Frumvarpið felur því fyrst og fremst í sér endurspeglun á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 38/1954 ...``

Hæstv. fjmrh., þetta var samkomulagið sem var gert. Kennurum var hvergi gerð grein fyrir því, a.m.k. kemur það ekki fram í fylgiskjölum sem ríkisstjórnin hefur látið fylgja frv., að það kynnu að skapast aðstæður þar sem þessu yrði kippt til baka, alls ekki. Það var nákvæmlega þess vegna sem kennarar drógu fulltrúa sína til baka úr nefndum sem voru að fjalla um flutninginn. Hins vegar á meðan hæstv. fjmrh. var erlendis þá hefur hæstv. forsrh. í rauninni undið hann eins og blautan svamp og úr svampinum lak a.m.k. frv. um lífeyrisréttindin. Þannig að það er alveg ljóst að það er frá.

En það er líka nauðsynlegt að árétta það hér, herra forseti, að lensa hæstv. forsrh. lenti á fleiri frv. en einvörðungu því sem laut að lífeyrisréttindunum. Ég hef áður rifjað það upp, herra forseti, að það sem hæstv. forsrh. sagði var orðrétt þetta, með leyfi forseta: ,,Þá verður jafnframt að gæta að hinu sem ég hafði áður lýst yfir að ekki væri verið að svipta menn bótalaust rétti sem þeir hefðu áunnið sér.`` Ég tel herra forseti, að í frv. sem er hér til efnislegrar meðferðar, frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sé verið að breyta réttindum sem er ekki hægt að lýsa öðruvísi en áunnum. Hæstv. fjmrh. missti það út úr sér í andsvari áðan að það bæri að virða samningsrétt og verkfallsrétt til verðmæta. Vegna þess að embættismennirnir sem skapaðir eru með frv. eru sviptir bæði samningsrétti og verkfallsrétti þá sagði hæstv. fjmrh. verður þeim bætt sú svipting með því að þeir fá biðlaunarétt. Með þessu er hæstv. fjmrh. að viðurkenna þrennt í senn. Í fyrsta lagi að biðlaunarétturinn felur í sér fémæti, í öðru og þriðja lagi að verkfallsréttur og samningsrétturinn fela það líka í sér. Þetta finnst mér, herra forseti, benda til þess ótvírætt að orð hæstv. forsrh. eigi við um þetta. Þarna er verið að svipta menn bótalaust rétti sem þeir hafa áunnið sér.

Það sem skiptir þó miklu meira máli tel ég að sé auðvitað biðlaunarétturinn. Það getur vel verið að það sé, svo notuð séu orð hæstv. fjmrh., bara bölvað bull að láta menn hafa eins og hann segir tvöföld laun. Það má vel vera að hæstv. fjmrh. sé svo gjörsamlega úti á þekju að hann hafi ekki tekið eftir þeirri þróun sem hefur orðið í íslensku samfélagi núna á allra síðustu árum. En ef hann hefði ekki búið við sama atvinnuöryggi og ég og hann búum við þá mundi hann kannski vita að úti í þjóðfélaginu hefur nýr vágestur numið land. Atvinnuleysi hefur verið hér miklu meira en við höfum þekkt á undanförnum árum. Er rétt við slíkar aðstæður að svipta menn réttinum til biðlauna? Ef það er gert, herra forseti, og ég er til umræðu um það, verður það að gerast þannig að það sé samið um það við opinbera starfsmenn og að þeim séu boðnar viðunandi bætur.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal spurði í dag hversu mikils virði þessi réttur væri. Ég get ekki svarað því. Menn geta ekki svarað því vegna þess að það er nokkuð sem hlýtur að vera rætt um í samningum milli manna. Það er mergurinn málsins. Hæstv. fjmrh. hefur ekki staðið í neinum samningum og hann hefur engan vilja haft til raunverulegra samninga. Það er ekki fyrr en núna þegar hann er kominn í klípu með málið, þegar hann er um það bil að verða búinn að klúðra þessum þremur flaggskipum sínum, frv. þremur, sem hann kemur á hnjánum og býðst til að semja. Við viljum hafa samráð, sagði hæstv. fjmrh. hér í dag. Við viljum semja og endilega tala við opinbera starfsmenn. En það er samt sem áður svo að í þessu merka áróðursriti sem hæstv. fjmrh. hefur gefið út á kostnað skattborgaranna er samningsferlinu lýst. Og hvað kemur fram þar? Jú það kemur fram að 23. ágúst sl. skipaði fjmrh. nefnd til að endurskoða starfsmannastefnuna og m.a. til að endurskoða núgildandi lög sem eru nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Síðan er það ekki fyrr en sex mánuðum síðar, hálfu ári síðar, 12. desember sem hæstv. fjmrh. skrifar opinberum starfsmönnum bréf. Með öðrum orðum þá er í marga mánuði búin að starfa nefnd til að endurskoða lögin og þeir sem eðlilega hefðu átt að hafa fulltrúa þar ef raunverulegur vilji var til samráðs voru samtök opinberra starfsmanna. Þeim er skrifað bréf rétt undir jólin og jólagjöf hæstv. fjmrh. til þeirra er að spyrja samtökin hvað þeim finnist eiga að vera í þessum nýju lögum. Samráðsviljinn sem birtist nú með því þegar hæstv. fjmrh. er kominn niður á hnén í málunum birtist bara í því að opinberir starfsmenn fengu bréf og síðan eru þeim kynnt drögin 12. febrúar. Þetta er allur samráðsviljinn. Eins og Páll Halldórsson hefur sagt, þá var mönnum boðið til eins eða tveggja rabbfunda með ágætum prófessor í lögum við Háskóla Íslands sem samdi þessi lög, fínn maður. En þetta var allt samráðið. Eðlilega er það svo að hæstv. fjmrh. vill semja núna þegar allt er í óefni komið og þegar hæstv. forsrh. er búinn að vinda hann eins og blauta tusku. Er búinn að brjóta hann niður gagnvart samningsaðilunum. Menn spyrja eðlilega út frá orðum hæstv. forsrh.: Hvenær dregur hæstv. fjmrh. þetta frv. líka til baka? Ég held nefnilega að áður en upp verður staðið verði búið að sýna fram á að hér er um það að ræða að það er verið að hnika aftur áunnum réttindum. Þá er spurningin um það hvort á að gilda, yfirlýsingar hæstv. forsrh. eða yfirlýsingar hæstv. fjmrh. Við höfum reynsluna fyrir okkur. Við vitum að í hvert einasta skipti sem hæstv. forsrh. vill þá tekur hann hæstv. fjmrh. og setur hann eins og ungbarn á hné sér. Ég held, herra forseti, þegar menn fara yfir þetta mál með rökum, komist þeir að því að miðað við yfirlýsingar sem hæstv. forsrh. hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar gefið, er ekki hægt að samþykkja þetta frv. í óbreyttri mynd vegna þess að þá er hæstv. forsrh. orðinn ómerkur orða sinna. Og ef það er eitthvað sem hæstv. forsrh. er annt um þá eru það hans orð. Ég hef aldrei vitað til að hann hafi gengið á bak þeirra. Ég á heldur ekki von á því núna að það gerist af þessu tilefni.

Herra forseti. Mig langar aðeins að ræða þessi áunnu réttindi sem menn hafa drepið hér á. Ég tel að samningsréttur sé áunnin réttindi. Ég tel að verkfallsréttur sé það líka og ég hef bent á að í máli hæstv. fjmrh. megi finna rök sem benda til hins sama. Biðlaunarétturinn, segir hæstv. fjmrh., er einstaklingsbundinn. Hann er ekki partur af kjarasamningum. Mér finnst að partur af þeim blekkingaleik sem ég held fram að hæstv. fjmrh. hafi ráðist í á kostnað okkar skattborgaranna þegar hann gaf út þetta áróðursrit hérna felist einmitt í því að gefa ekki rétta mynd af því umhverfi sem kjarasamningar opinberra starfsmanna fara fram við. Það má skilja á þessu plaggi eins og þar gildi sömu leikreglur og eru við lýði á frjálsum vinnumarkaði. Það er auðvitað allt, allt öðruvísi. Það eru svo margir þættir af kjörum, hlunnindum og réttindum opinberra starfsmanna sem ráðast af lagasetningu og reglugerðum sem hins vegar gerist alls ekki á frjálsum vinnumarkaði. Það er einmitt þessi þróun sem í gegnum tíðina hefur orðið til þess að opinberir starfsmenn hafa fallist á lægri laun eða gert sér að góðu en viðgangast á frjálsum vinnumarkaði. Þegar opinberir starfsmenn hafa gengið fyrir dyr hæstv. fjmrh., þessa hæstv. fjmrh., á undangengnum árum og sagt: Það er komið að því að opinberir starfsmenn fái laun sem eru í samræmi við það sem tíðkast á frjálsum vinnumarkaði. Hvert hefur svarið þá verið? Svarið hefur verið að opinberir starfsmenn hafi ýmis konar réttindi sem menn á frjálsum vinnumarkaði hafa ekki og þess vegna sé sanngjarnt að það sé metið að einhverju leyti sem ígildi launa og krónutalan sé lægri. Gott og vel.

Hin hliðin á þessari röksemdafærslu er sú að þegar lensu hæstv. ríkisstjórnar er nú lagt í þessi réttindi, þegar á að rýra þau, hljóta á móti að koma sömu rök og hæstv. fjmrh. hefur áður notað, að ríkisstjórnin bæti réttindamissinn með einhverju sem fémætt má teljast. Það held ég að hljóti að vera eðlileg krafa, herra forseti. Ég tel að það sé lágmarkskrafa líka, herra forseti, að hæstv. fjmrh., sem er oddviti fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, kynni sér a.m.k. rækilega það sem hefur gerst í biðlaunamálunum. Ég sagði áðan að í hvert einasta skipti, held ég, sem ríkisstjórnin hefur þurft að fara með biðlaunamál fyrir dómstólana þá hefur hún tapað. Í langflestum tilvikum að minnsta kosti. Dómurinn sem féll núna fyrir skömmu í svokölluðu SR-máli virðist í fljótu bragði ekki koma þessum frv. við. En þegar skyggnst er undir yfirborðið kemur í ljós að það er í rauninni kjarni þess sem hæstv. fjmrh. þarf að breyta. Þessi dómur var tvenns konar. Annars vegar komst dómarinn að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hægt að svipta starfsmenn SR-mjöls biðlaunarétti vegna þess að það væri brot á jafnræðisreglu, vegna þess að það væri ekki verið að láta allan hópinn, opinbera starfsmenn, sæta þessari skerðingu heldur einungis tiltekinn part af honum. En það var líka annað sem dómurinn komst að. Hann ítrekaði að það er ekki sambærilegt að starfa hjá hlutafélagi sem er algerlega í eigu ríkisins og á frjálsum vinnumarkaði. Þetta er mergurinn málsins. Punctum saliens í því sem er að gerast með þessu frv. er að í því felst lykillinn að því að einkavæðingarstefna ríkisstjórnarinnar gangi upp. Það er málið. (Gripið fram í: Rétt.) Við höfum þegar séð eitt frv. hæstv. ríkisstjórnar fljóta upp á sker. Það var frv. um Póst og síma. En það hefur komið opinberlega fram að það er ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um þá aðferð sem þar er notuð til að reyna að samræma réttindaákvæðin gildandi lögum. Og það er alveg ljóst að biðlaunaákvæðið í póst- og símafrumvarpinu er algjörlega í blóra við niðurstöðuna í SR-málinu. Þannig að það mun aldrei koma til þess, fullyrði ég, að það frv. komi óbreytt frá nefnd og sennilega dagar það uppi. Ef menn skoða líka ræður hæstv. samgrh. í því máli, kemur í ljós að hann er í hjarta sínu sammála því að það sé ekki hægt að hlutafélagsvæða Póst og síma fyrr en frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er komið í gegn.

Þetta er það sem ríkisstjórnin þarf að fá fram. Það er þess vegna sem hún dregur til baka frv. um lífeyrisskerðinguna og það er þess vegna sem hún mun líka draga til baka það frv. um breytingar á vinnulöggjöf sem hefur verið dreift hér í dag. Það sem ríkisstjórnin þarf að fá fram er auðvitað biðlaunaákvæðið sem er að finna í þessu frv. hérna. Áður en það er samþykkt getur ríkisstjórnin ekki einkavætt eitt einasta fyrirtæki eða eina einustu stofnun án þess að greiða viðkomandi starfsmönnum full biðlaun. Það er mergurinn málsins.

[23:00]

Að þessu leytinu til hefur hæstv. ráðherra ekki komið hreint til dyra. Enginn hæstv. ráðherra hefur komið hér beinlínis og sagt: Við þurfum að gera þetta til þess að hlutafélagsvæða og einkavæða. Nú hefur það auðvitað komið í ljós að bæði ég og hv. þm. Svavar Gestsson teljum að hið opinbera þurfi að hafa leiðir til að einkavæða fyrirtæki ef mönnum sýnist svo. Við erum sammála um þetta enda báðir gamlir marxistar. En það er einfaldlega þannig að allt kostar sitt. Réttindi starfsmanna eru fémæt. Það er ekki hægt að taka aftur biðlaunaréttinn öðruvísi en að eitthvað komi fyrir og ef hæstv. fjmrh. vill endilega hlutafélagsvæða opinberar stofnanir, sem er til umræðu af minni hálfu, verður hann að hlíta leikreglunum og gjalda keisaranum það sem keisarans er. Í þessu tilviki er það klárt að hann kemst ekki hjá því að borga biðlaunaréttinn samanber þau lög sem eru í gildi og samanber þann dóm sem féll í SR-málinu. Og hæstv. ráðherra á að vera maður til að koma hingað og segja: Það er út af þessu sem mér liggur á að koma þessu frv. í gegn. Þá getum við kannski rætt frv. á réttum grunni.