Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 23:01:30 (4091)

1996-03-19 23:01:30# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[23:01]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Satt að segja er alveg hægt að halda því fram að þetta þing sem hefur staðið um nokkurra mánaða skeið hafi að sumu leyti verið óvenjudauft. Í raun og veru hefur það verið þannig að menn hafa verið að nudda hér í gegnum þingið fjölmörgum meira og minna tæknilegum málum og það hefur verið mjög lítið um það að efnt væri til verulega alvarlegra pólitískra skoðanaskipta. Þá undanþigg ég í þessu sambandi að sjálfsögðu fjárlagafrv. og bandorminn en að öðru leyti hefur þetta þing ekki sætt mjög miklum tíðindum. Og það hefur heyrst út í þjóðfélaginu að menn hafa talið að þetta þing væri afbrigðilega dauft að mörgu leyti. Nú er hins vegar ýmislegt að gerast á þessum klukkutímum sem bendir til þess að á síðustu vikum þessa þings geti dregið til meiri tíðinda, meiri pólitískra tíðinda en maður hefur séð mjög lengi í þessu landi. Það er fyrst og fremst vegna þess að það er verið að leggja hér fram frumvörp hvert á fætur öðru um hin almennu starfsréttindi launafólks og er þar um að ræða stórkostlegar hugmyndir um grundvallarbreytingar á öllum þessum atriðum.

Hér liggur fyrir frv. um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda í grunnskólum. Það er samið samkvæmt samkomulagi 1. febrúar sl. Hér liggur fyrir frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Frá því var gengið um miðjan febrúar, tveimur vikum síðar eða svo. Þar er mest allt tekið til baka sem stendur í frv. um réttindi og skyldur skólastjórnenda. Síðan er dreift hér á borð þingmanna í kvöld frv. til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem gerir m.a. ráð fyrir því að breyta í grundvallaratriðum allri umgjörð verkalýðsfélaganna í landinu. Til fróðleiks er m.a. gert ráð fyrir því að það verði opnað fyrir það að stofnuð verði vinnustaðarfélög með tilteknum hætti þrátt fyrir mjög hörð mótmæli verkalýðshreyfingarinnar. Við höfum að undanförnu kynnst því hvernig opinberir starfsmenn, BSRB, BHMR og kennarasamtökin hafa mótmælt aðförinni að sínum réttindum. En ég spái því, hæstv. forseti, að í framhaldi af þessu frv. sem dreift var hér á borð þingmanna í kvöld muni vakna upp víðtækari mótmæli samtaka launafólks en menn hafa getað gert sér í hugarlund að kæmi til greina miðað við þær aðstæður sem hafa verið uppi að undanförnu. Ég er sannfærður um að þegar menn átta sig á því hvað felst í öllum þessum málatilbúnaði muni mjög víða heyrast mótmæli í þjóðfélaginu. Auðvitað er það svo, hæstv. forseti, að núv. ríkisstjórn treystir því að hún hafi hér 40--43 menn til að greiða atkvæði með sér í öllum málum. En ég er viss um að þegar þingmenn stjórnarflokkanna átta sig á því hvað hér er verið að gera við verkalýðshreyfinguna í landinu munu jafnvel þeir sem hafa sofið fastast í vetur vakna. Ég geri mér grein fyrir því, hæstv. forseti, að það er stór spá að gera sér í hugarlund að þessir menn muni rumska í vetur en ég spái því samt að svo verði. Ég spái því að jafnvel þingmenn stjórnarflokkanna muni rumska. Ég spái því, hæstv. forseti, að á næstu dögum og vikum sem eftir eru af þessu þingi muni almenningur á Íslandi rísa upp og gera það sem unnt er til að stöðva þá ósvinnu sem ætlunin er að taka hér í gegnum þingið á þessum vordögum í skjóli sljóleikans, í skjóli kæruleysisins, í trausti þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að ekki nokkur maður taki við sér.

Því hefur verið haldið fram að núv. ríkisstjórn sé óvenjusterk, hún geti í rauninni allt. Hún hafi svo sterkan þingmeirihluta og ráðherrarnir séu í raun svo samstilltir að það gangi aldrei hnífurinn á milli þeirra. Því hefur verið haldið fram um þessa ríkisstjórn að að mörgu leyti starfaði hún og sérstaklega ráðherrar Framsfl. eins og menn í embættismannastjórn. Þeir væru með svona tiltölulega snyrtilegum hætti að rúlla í gegn þessum hefðbundna prófarkalestri Stjórnarráðsins en að öðru leyti örlaði ekki mikið á pólitík hjá þeim aðilum. Ég sé núna fyrir mér, hæstv. forseti, að þetta geti verið að breytast. Ég sé fyrir mér að menn muni átta sig á því nú á næstunni, bæði þessir aðilar og þjóðin líka, að jafnvel ríkisstjórn með sterkan þingmeirihluta getur verið veik. Það mun koma í ljós þegar fólk rís upp almennt á móti þessum hugmyndum sem hér eru uppi.

Ég tók eftir því, hæstv. forseti, að þegar rætt var um núv. ríkisstjórn við upphaf hennar sögðu ýmsir talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna, eins og t.d. hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, að svona stjórnir hefðu alltaf lent í stríði við verkalýðshreyfinguna, alltaf. Svona stjórnir hefðu aldrei kunnað að fara með mál gagnvart samtökum launafólks í landinu. Þetta eru í raun og veru svipaðir hlutir, hæstv. forseti, og við höfum oft sagt, alþýðubandalagsmenn. En ég tók sérstaklega eftir því í yfirlýsingum og viðtölum við hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson. Ég tók líka eftir því þá að margir töldu að það mundi ekki gerast fyrr en seint á kjörtímabilinu að þessi ríkisstjórn lenti upp á kant við samtök launafólks í landinu. Það yrði mjög seint á kjörtímabilinu. Ég held að það hafi engan órað fyrir því þá að það gæti gerst eftir aðeins örfáar vikur eða mánuði að núv. ríkisstjórn lenti í stórfelldum átökum við samtök launafólks með þeim hætti sem nú sýnist blasa við. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að jafnvel þessi sterka ríkisstjórn getur fyrst og fremst fyrir eigin handvömm riðað til falls á ótrúlega stuttum tíma ef menn halda áfram offorsi gagnvart samtökum launafólks með þeim hætti sem er að birtast hér núna.

Því hefur stundum verið haldið fram, hæstv. forseti, að það sé erfitt að stjórna þessu landi gegn verkalýðshreyfingunni. Ég held að við munum eftir því sumir að við höfum talið að þessi kenning væri rétt og að hún væri skynsamleg og styddist við reynslu. Við þekkjum líka frá síðustu árum að við höfum ekki orðið vör við þetta mikla afl sem felst í verkalýðshreyfingunni. Margir hafa talið að í raun og veru væri hún komin að fótum fram og gæti ekki barið frá sér. Það er kannski að einhverju leyti í trausti þess sem ríkisstjórnin setur fram þessar hugmyndir sínar núna. Auðvitað er það samt sem áður þannig að verkalýðshreyfingin í landinu getur sett fram sínar kröfur og sýnt sitt afl. Ég held að þegar um er að ræða að breyta í grundvallaratriðum starfsskilyrðum launafólks sé komið að úrslitastundu. Ef menn ekki sýna þetta afl sem er í verkalýðshreyfingunni við aðstæður eins og þessar, gerir hún ekki það gagn sem hún þarf að gera fyrir launafólk í þessu landi. Þess vegna held ég að það geti verið fram undan úrslitaátök fyrir samtök launafólks og það geti farið svo að ríkisstjórnin komist að því fullkeyptu að það er ekki hægt að fara gegn verkalýðshreyfingunni á Íslandi með hvað sem er. A.m.k. vona ég að það verði þannig. Ég vona að hæstv. ráðherrar muni heyra þann kraft sem þar er til ef betur er að gáð.

Hæstv. forseti. Ég ætla þessu næst að víkja aðeins að einstökum efnisatriðum sem fram hafa komið í kvöld. Ég tók þannig til orða að það væri verið að flokka menn í fyrsta flokks og annars flokks starfsmenn. Af hverju sagði ég það? Vegna þess að í frv. er gert ráð fyrir því að sumir hafi að nokkru leyti meiri réttindi en aðrir. Þess vegna er það útúrsnúningur að setja hlutina upp með þeim hætti sem hæstv. fjmrh. gerði í þessu efni hér fyrr í kvöld. Hæstv. fjmrh. vitnaði til þess að hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hefði sagt að það ætti að fella niður æviráðningar og hann væri á móti biðlaunaréttindum. Ég tók eftir því að hv. þm. sagði þetta nokkurn veginn svona. Ég held hins vegar að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að hvaða skoðun sem menn kunna annars að hafa á biðlaunaréttindum eða æviráðningum þá skiptir máli hvernig farið er að því að taka á þessum hlutum. Auðvitað er þetta hluti af kjörum og kaupi og auðvitað á þetta að gerast með kjarasamningum. Þess vegna eru aðfarir ríkisstjórnarinnar í þessum efnum fráleitar.

Varðandi almenn efnisatriði ætla ég bara að vekja athygli á því að hæstv. fjmrh. fullyrti að í 47. gr. frv. fælist engin efnisbreyting. Ég tók eftir því að hv. þm. Ágúst Einarsson rak þetta gjörsamlega þvert ofan í hæstv. ráðherra. Þar kom fram að í 2. mgr. 47. gr. felst efnisbreyting. Eins og hv. þm. Ágúst Einarsson sagði, getur hún orðið til þess að brjóta niður stéttarfélögin og möguleika þeirra til að hafa útslitaáhrif á vinnumarkaðnum. Ég held að það sé nauðsynlegt í þessu sambandi að hlusta á hv. þm. Ágúst Einarsson, m.a. vegna þess að ég veit ekki betur en að hann hafi um hríð stýrt samninganefnd ríkisins og þekki þar af leiðandi allvel til þessara mála.

Í fimmta lagi ætla ég að víkja að hinum áunnu réttindum, afturvirku réttindum og þeim þáttum sem hér voru nefndir. Hæstv. ráðherra sagði: Það hefur aldrei staðið til að skerða áunnin réttindi. Hann sagði meira. Hann sagði: Það stendur ekki til að spara á þessum breytingum varðandi lífeyrismálin. Það stendur ekki til að spara. Það var fróðlegt að heyra það miðað við það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði þegar hann var að biðja um að laun opinberra starfsmanna yrðu lækkuð um 600 þús. kr. á mann á ári. Hæstv. ráðherra sagði fullum fetum að það væru ekki uppi hugmyndir um að spara á þessari lífeyrisbreytingu. Það fannst mér athyglisvert. En athyglisverðast fannst mér það að hæstv. fjmrh. viðurkenndi að hin sérstöku réttindi opinberra starfsmanna, þ.e. 32 ára reglan, 95 ára reglan og eftirmannsreglan hafi ekki verið metin. Mér fannst hæstv. fjmrh. tala eins og honum væri ekki að öllu leyti ljóst að menn hafa áunnið sér þessi réttindi að einhverju leyti líka. Þess vegna er í raun og veru nauðsynlegt að reikna út þessi réttindi fyrir hvern og einn opinberan starfsmann. Og ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort hann hugsi sér virkilega að breyta lögunum um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna þannig að það verði tekið flatt yfir línuna eða hvort það hlýtur ekki að vera leiðin í því máli sem hann ber fyrir brjósti að skoða lífeyrisréttindi hvers og eins og reikna þau út frá viðkomandi einstaklingi. Ég held að það sé útilokað að fara öðruvísi yfir þessa hluti.

[23:15]

Ég tel það líka mjög mikilvægt sem hæstv. fjmrh. sagði fyrr í kvöld og ég endurtek það svo það fari ekki á milli mála hvað hann sagði, eða þannig skildi ég a.m.k. ráðherrann. Hann sagði, með leyfi forseta:

,,Það kemur vonandi sem fyrst, [þ.e. frv. um lífeyrissjóðinn] það verður að finna sameiginlegar forsendur, tryggingafræðilegar og lögfræðilegar.``

Þetta sagði hæstv. ráðherra. Þetta er mjög mikilvægt atriði og ég vil inna hann eftir því hvort þetta sé rétt eftir honum haft því að þetta er í raun og veru úrslitamál í þessu sambandi. Það þýðir að sú nefnd eða sá hópur sem er að störfum, að því er ráðherrann sagði fyrr í kvöld, sem er að fjalla um þessi mál verður að komast að sameiginlegri niðurstöðu til þess að hægt sé að flytja frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna inn í þessa stofnun að mati ráðherrans. Og það er auðvitað mjög mikilvægt að hæstv. fjmrh. svari þessu skýrt vegna þess að það hefur hann ekki gert. Ég tel að í raun og veru hafi fjmrn. ekki unnið sína heimavinnu í sambandi við þessi mál að því er varðar útreikning á áunnum réttindum og fleiri þáttum af því tagi.

Í sjötta lagi varðandi einstök atriði sem fram komu í ræðu hæstv. fjmrh. fyrr í kvöld er það atriði að hann sagði um kennarafrv.: ,,Ég er sannfærður um að þessum lögum verður breytt. Það er fullt af úreltum hlutum í kennarafrv.`` Hver flytur frv. um réttindi kennara og skólastjórnenda í grunnskólum? Hæstv. fjmrh. Hann er með öðrum orðum að flytja frv. sem hann segir sjálfur að verði að breyta út af öðru frv. sem hann er að flytja hér. Hann segir líka að það sé fullt af úreltum hlutum í þessu og þeim verði að breyta. Hann segir að vísu: Það eru sveitarfélögin sem munu gera þetta af því að þau munu fara með þessi mál. En það breytir ekki því að þegar ráðherrann flytur mál sitt með þessum hætti er hann að hjálpa þeim sem vilja snúast gegn þeim fyrirheitum sem kennurum hafa verið gefin í þessu máli. Ég held að það sé mjög alvarlegt umhugsunarefni hvernig komið hefur verið fram við þennan hóp ríkisstarfsmanna að undanförnu sem hafa starfað í góðri trú eins og menn þekkja. Ég tel að orð hæstv. fjmrh. séu afhjúpun á því sem hann og fleiri hafa verið að reyna að fela fyrir þjóðinni og þinginu. Þeir eru með hnífinn uppi í erminni og ætla að eyðileggja það á einhverju stigi sem þeir eru þó að flytja tillögu um í þessari stofnun.

Í sjöunda lagi varðandi einstök atriði sem hér hafa komið fram í kvöld kom fram hjá hæstv. ráðherra og reyndar líka hjá hv. seinasta ræðumanni að þetta snýst í raun og veru allt um eitt atriði. Það er að ríkisstjórnin þolir ekki þá tilhugsun að sitja uppi með óbreyttan ríkisrekstur. Það er kjarni málsins. Hér er um að ræða almenna pólitíska atlögu, hugsjónaatlögu af hálfu Sjálfstfl. gegn ríkisrekstri, gegn félagslegum rekstri, og í þeim efnum er þeim bersýnilega ekkert heilagt. Kórónan á sköpunarverki kvöldsins er svo ræða Péturs H. Blöndals. Hv. þm. viðurkennir fullum fetum að það verði að lækka kaup opinberra starfsmanna. Það sé höfuðatriði þessa leiðangurs sem hér stendur yfir af hálfu hæstv. fjmrh.

Ég tel þess vegna nauðsynlegt að undirstrika að lokum, hæstv. forseti, að það er nauðsynlegt, ekki aðeins fyrir stjórnarandstöðuna heldur fyrir þjóðina, að þessi ríkisstjórn átti sig á því áður en langur tími líður að hún kemst ekki upp með þau óhæfuverk sem hún er að leggja af stað með núna á þessum þingdögum.