Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 23:20:04 (4092)

1996-03-19 23:20:04# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[23:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem hafa fylgst með umræðum í dag að hæstv. fjmrh. hefur verið venju fremur órólegur og taugatrekktur, leyfi ég mér að segja. Það er alveg ljóst að sú staða sem uppi er í þessum málum og andrúmsloftið í kringum þessi mál, t.d. innan ríkisstjórnarinnar, er býsna viðsjárvert. Það hefur verið afar viðkvæmt mál þegar minnst hefur verið á það hér hvernig hæstv. forsrh. tók fram fyrir hendurnar á hæstv. fjmrh. En það skyldi nú ekki eiga eftir að fara svo að hæstv. forsrh. eigi eftir að leika fleiri leiki í þeirri skák? Það gæti átt eftir að koma til kasta hæstv. fjmrh. að kistuleggja þessi frumvörp til þess að reyna að bjarga því sem bjargað verður af andrúmslofti sæmilegra samskipta í þjóðfélaginu.

Ég vil sérstaklega leggja áherslu á það, herra forseti, sem ég komst ekki nema rétt til að nefna í fyrri ræðu minni í dag. Það er mikil einföldun held ég og væri mikill misskilningur að líta einangrað á þetta frv. Það er nokkur tilhneiging til þess, eða var a.m.k. þangað til í dag, að líta á það sem einangrað mál sem varðaði eingöngu samskipti opinberra starfsmanna og ríkisstjórnarinnar. Svo er ekki, það er mikill misskilningur. Það hefur líka komið á daginn og sannaðist m.a. mjög rækilega nú í dag og hér í kvöld þegar dreift var á borð þingmanna nýju þingmáli. Það hefur greinilega legið svo mikið við að það var ekki tími til að prenta þingskjalið í Gutenberg heldur er það ljósritað í A4-stærð.

Þetta er nefnilega frv., herra forseti, sem er hluti af miklu stærri pakka og meiri leiðangri en bara þeim sem snýr að réttindum og skyldum opinberra starfsmanna. Og er það þó út af fyrir sig alveg nóg. Hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að breyta öllum leikreglum á vinnumarkaði gagnvart öllum aðilum, líka almennu verkalýðshreyfingunni og samskiptum vinnuveitenda og verkalýðsfélaga. Það er að koma á daginn í gegnum þessi frumvörp sem hér eru að birtast. Ég hef að vísu þann grun að hernaðaráætlunin hafi gengið út á það að reyna að kljúfa verkalýðshreyfinguna, etja mönnum þar saman, enda mikið gert af því að tala um forréttindi opinberra starfsmanna, setja hluti þar upp með þeim hætti að þar séu á ferðinni alveg sérstakur forréttindaklúbbur, t.d. hvað lífeyrisréttindi snertir, það yrði að taka á því og gera út á það að slíkt hljómi vel í eyrum ýmissa, t.d í almennu verkalýðshreyfingunni. Hugsanlega hefði þetta að einhverju leyti tekist hjá hæstv. ríkisstjórn ef hæstv. félmrh. hefði ekki hent þeirri sprengju inn í umræðurnar sem hann hefur gert. Þá kemur að því, herra forseti, að það væri átæða til þess að hæstv. félmrh. sýndi sig áður en umræðu lýkur. Eins var fyrr í dag beðið um að hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. væru viðstaddir. Er ekki ætlunin að virða þær óskir, herra forseti? Sá forseti sem þá sat á forsetastóli, hv. 2. þm. Suðurl., Guðni Ágústsson, brást afar vel við og ítrekaði að hann hefði komið þessum tilmælum á framfæri við hæstv. ráðherra og reyndar héldu þeir sig þá í húsinu.

Málið er í því samhengi að það er eiginlega alveg óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. sé til að mynda við. Það þýðir ekki að líta einangrað á þetta mál hér þegar fram eru komin á þinginu frumvörp sem eru náskyld þessu, flutt jafnvel af öðrum ráðherrum úr hinum stjórnarflokknum. Þá er eðlilegt að höfuðið á öllu saman, hæstv. forsrh., með alla sína prúðu lokka komi og geti svarað fyrir ríkisstjórnina og stefnu hennar í þessum málum almennt.

Auðvitað er það líka þannig, herra forseti, að það á ekki að sleppa Framsfl. alveg frá því að bera pólitíska ábyrgð á þessum málum. Þetta er stjfrv. og hæstv. félmrh. er kominn í klúbbinn sem er að reyta réttindin af verkalýðshreyfingunni og verkafólki með frumvarpssmíð af þessu tagi.

Það væri líka fróðlegt að fara yfir það til að mynda hvaða stefnu Framsfl. hafði í málefnum vinnumarkaðarins fyrir kosningar. Það er einhvern veginn þannig að ég man bara ekkert eftir því að þeir hafi, snillingarnir, rætt mikið um það fyrir kosningar hvað þeir ætluðu sér að gera í málefnum vinnumarkaðarins. Mig rekur ekki minni til þess að það hafi staðið í fallega bæklingnum þeirra, Fólk í fyrirrúmi, að það ætti að stórskerða réttindi verkafólks og leysa upp verkalýðshreyfinguna, búta hana alla niður. En það er nákvæmlega það sem felst t.d. í frv. hæstv. félmrh. sem er komið á borð þingmanna. Að sjálfsögðu, herra forseti, ætla ég ekki að ræða það mál efnislega undir þessari umræðu, það á ekki heima þar. En það er ekki hægt annað en skoða samhengi þessara hluta og hvernig unnið hefur verið að þessum málum. Haldi menn að hæstv. fjmrh. sé einn um að hunsa öll eðlileg samskipti og ætlast síðan til að verkalýðshreyfingin skrifi upp á hlutina og samþykki þá eftir á, samanber samráð eftir á sem hæstv. fjmrh. hefur nú innleitt, eru kannski vinnubrögð hæstv. félmrh. og þau samskipti enn athyglisverðari ef eitthvað er. Ég aflaði mér upplýsinga um hvernig það mál hefði gengið fyrir sig, herra forseti. Halda menn að það sé líklegt að það verði friðsamlegt í kringum þessi frumvörp á næstu vikum eins og að þeim er staðið? Vita menn til að mynda hvernig slitnaði upp úr samskiptum almennu verkalýðshreyfingarinnar og reyndar Vinnuveitendasambandsins annars vegar og hæstv. félmrh. hins vegar? Það segir lítið um það í frv. Þó er komið inn á að í framhaldi af því að áfangaskýrslu var skilað í nóvember, hafi fulltrúar aðila vinnumarkaðarins í nefndinni ekki náð samstöðu um tillögur til breytinga á ákvæðum gildandi laga til að hrinda í framkvæmd framangreindum tillögum vinnuhópsins. Ég vek athygli á orðinu ,,hugmyndum`` því að í áfangaskýrslunni voru settar fram hugmyndir sem forustumenn verkalýðsfélaganna upplýstu ríkisstjórnina um að væru ekki útræddar, þær væru fyrst og fremst settar fram til þess að fá fram umræður um þessi mál. Hvað gerir svo hæstv. félmrh. með þessa áfangaskýrslu? Hún er tekin og í kjölfar þess smíðað frv. sem gengur reyndar í veigamiklum atriðum í aðrar áttir. Samt er vísað til áfangaskýrslunnar sem þó var á engan hátt útrædd og félögin settu fram með miklum fyrirvara um að það væri ekkert samkomulag um það sem þar stæði, heldur væri það sett fram sem hugmyndasafn til umræðu.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands kom þeirri afstöðu á framfæri til ríkisstjórnarinnar að þessa hluti væri óhjákvæmilegt að taka til frekari skoðunar og semja um. Það var afstaða Alþýðusambandsins að hugmyndirnar væru þess eðlis að um þessa hluti þyrfti og yrði að semja með sama hætti og opinberir starfsmenn hafa sett hlutina í þetta samhengi. Menn stóðu í þeirri trú að þeir væru að hefja ferli slíkra samskipta á síðustu vikum. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, herra forseti, að þetta komi fram hér. Þetta varðar vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum.

Verkalýðshreyfingin og reyndar vinnuveitendur stóðu í þeirri trú á síðustu vikum að þeir væru að hefja ferli slíkra samskipta þar sem sjónarmið væru leidd fram og í kjölfarið yrði reynt að semja um hlutina. Ég get t.d. upplýst að menn beittu sér fyrir því að fá fundi þar sem sáttasemjari var kallaður á vettvang vegna aðildar hans að málinu, hugmynda um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Það áttu sér stað slíkir fundir þar sem sáttasemjari, fulltrúi Alþýðusambandsins og vinnuveitenda hittust til að skoða ólíkar hugmyndir og ræða málin í framhaldi af áfangaskýrslunni og því hugmyndasafni sem þar er sett fram. Einnig áttu sér stað fundir með aðild ráðuneytisins eða fulltrúa ráðherra í málinu.

[23:30]

Í síðustu viku er settur einn slíkur fundur. Menn eru í góðri trú um að þessi samskipti séu í eðlilegum farvegi og það sé ætlunin að semja um hlutina.

Í upphafi þess fundar er það upplýst að hæstv. félmrh. hafi þá þegar kynnt öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni og þingmönnum úr stjórnarliðinu frv. um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Sá fundur varð ekki mikið lengri, herra forseti. Hann stóð í fimm mínútur. Þá auðvitað stóðu bæði fulltrúar Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins upp og töldu sig ekki hafa neitt frekar að gera á þessum vettvangi. Þannig lauk því samráði. Þetta er þetta samráð eftir á, nákvæmlega sama formúlan og notuð var við BSRB og samtök opinberra starfsmanna. Menn eru kallaðir til og þeim kynnt fullbúin frumvarpsdrög og mönnum gefinn kostur á að gera við þau athugasemdir kannski fram að helgi. Sem betur fer brugðust menn við á þann eina hátt sem hægt er að bregðast við við slíkar aðstæður, þ.e. að menn stóðu upp og gengu út af fundinum. Mér er reyndar nær að halda að það hafi ekki síður verið fyrir forustu Vinnuveitendasambandsins en gagnaðilans sem sú lína var tekin.

Ég spyr, herra forseti: Er nú líklegt að menn sem vinna svona að hlutunum nái miklum árangri? Auðvitað er ekkert hér á ferðinni annað en stríðshanski og nú hefur honum verið kastað gagnvart almennu verkalýðshreyfingunni jafnframt þannig að ríkisstjórnin er búin að skora öll verkalýðssamtökin í landinu á hólm, fyrst opinbera starfsmenn með þeim aðferðum og vinnubrögðum og framkomu sem hér hefur verið farið rækilega yfir í dag. Og nú almennu verkalýðshreyfinguna með því sem ég hef upplýst og komið hefur fram reyndar í fjölmiðlum að hluta til í dag og mun ábyggilega heyrast enn betur af á morgun.

Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn almennt að vinna að þessum málum? Hefur hún hugsað sér að keyra þetta yfir í krafti þess að hafa nógu marga stjórnarþingmenn handjárnaða til að greiða atkvæði með hverju sem er og hvernig sem að málunum hefur verið staðið? Er virkilega ætlunin að pína þetta allt í gegn í vor? Hver er ástæðan fyrir því að þetta er drifið svona inn ef það er ekki hugsunin? Hver er ástæðan fyrir því að jafnvel hæglætismaður eins og hæstv. félmrh. lætur hafa sig út í vinnubrögð af þessu tagi? Það er von að spurt sé.

Herra forseti. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að þessi mál öll og í því samhengi sem þau eru hljóta að setja allt í bál og brand í þjóðfélaginu á næstu vikum, því að það er ekki eins og það sé bara þetta. Fylgifiskar þessara mála eru auðvitað líka einkavæðingaráformin öll. Það eru t.d. hlutir eins og samskiptin við sveitarfélögin, flutningurinn á grunnskólanum og annað því um líkt. Niðurstaðan getur einfaldlega ekki orðið önnur, herra forseti, en að þessi mál öll hljóti að komast í uppnám. Það liggur í hlutarins eðli.

Mér sýnist líka, herra forseti, að hv. Alþingi og einstakar nefndir þingsins fái talsverð verkefni þegar menn koma úr hinu ríflega páskaleyfi og þá er væntanlega ekki ætlunin að eftir verði nema fáeinar starfsvikur á þinginu. Það er ekki eins og þetta sé eitthvert smáræði sem hér er. Sjá menn pappírana upp á tugi og hundruð blaðsíðna? Og hvernig er ætlunin að vinna að þessu, herra forseti? Ég held að hv. forsætisnefnd ætti aðeins aðeins að kíkja á það. Nú er þetta þannig að þessi mál eru að dreifast á fjölmargar nefndir í þinginu. Hvar á samræmingin að fara fram? Á að hafa þetta þannig að í menntmn. sé verið að baksa með frv. til laga um réttindamál kennara og skólastjórnenda eða hvað það nú heitir? Í efh.- og viðskn. verður frv. til laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Í félmn. verða væntanlega þessi snilldarsmíð frá hæstv. félmrh.. þegar þau komast til nefndar o.s.frv. Ég átta mig ekki alveg á því, herra forseti, hvernig menn hugsa framgang þessara mála almennt í þinginu og af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og þeirra sem ábyrgð bera á málum. Ég held að það sé ástæða til þess fyrir hv. forsætisnefnd að fara að eiga viðræður við ríkisstjórnina um það hvernig í ósköpunum á að standa að þessum hlutum.

Herra forseti. Ég hefði talið langskynsamlegast af forseta og stjórnarliðinu og ekki síst hæstv. fjmrh. sem er orðinn dasaður --- það stórsér á honum eftir daginn --- að fresta nú umræðunni og skoða hvort það sé hyggilegt að vera að keyra hlutina svona áfram. Þetta er orðið ágætis dagsverk og okkur væri alveg fullur sómi af því að láta staðar numið, herra forseti. Ég segi þetta m.a. með vísan til þess að það hefur ekki verið virt að hér væru til svara hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. eins og beðið var um. Og ég segi það líka með vísan til þess að aðstæður eru að breytast jafnharðan í þessum málum. Auðvitað eru það nýjar fréttir og stórtíðindi, það frv. sem hæstv. félmrh. hefur látið dreifa í algerri andstöðu við vilja verkalýðshreyfingarinnar. En auðvitað verður ríkisstjórnin og hæstv. forseti fyrir sitt leyti að ráða því hvaða framgangsmáta þeir vilja hafa á þessum hlutum hér. Ég er alveg sannfærður um að þessi mál eru að versna og þau eru að lenda í harðari hnút með, mér liggur við að segja hverjum klukkutímanum sem líður á meðan svona er að þessu staðið. Það teiknar til þess að hér hljóti að verða mjög hörð átök, bæði innan þings og utan, ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að keyra þessi mál yfir hér með þessum aðferðum sem ég kann nú eiginlega ekki við að nefna því nafni sem mér kemur helst í hug, herra forseti, en læt þó vera að gera. Það er alveg ljóst að það væri ekki fallegt ef ég léti það út úr mér að gefa þessum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar þá einkunn sem vert væri og skylt.