Stofnun sérskóla á vegum ríkisins

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 13:33:41 (4093)

1996-03-20 13:33:41# 120. lþ. 111.1 fundur 351. mál: #A stofnun sérskóla á vegum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[13:33]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um opnun ýmissa sérskóla á vegum ríkisins. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

,,Hefur ráðherra í hyggju að opna ýmsa sérskóla á vegum ríkisins þannig að þeir verði felldir inn í almennan framhaldsskóla og menntun á vegum hins opinbera þar með sett undir eitt fagráðuneyti í stað margra?``

Á vegum ríkisins eða hins opinbera eru starfandi nokkrir sérskólar, starfræktir af viðkomandi ríkisstofnunum. Má þarf nefna skóla fyrir lögreglumenn, skóla fyrir slökkviliðsmenn, starfsfólk Pósts og síma, tollverði, jafnvel skóla fyrir bankastörf o.fl. Skólar þessir eru í raun nokkuð lokaðir ungu fólki er hug hefði á að leggja störf þessi fyrir sig. Um leið og starfsmenntun verður efld með nýjum lögum um framhaldsskóla hlýtur að vera rökrétt að færa sérskóla þá er hér um ræðir inn í hið almenna skólakerfi með sérstökum ákvæðum og skilyrðum fyrir hvern þátt þannig að ungt fólk geti menntað sig til þeirra starfa og aflað sér starfsréttinda á umræddum sviðum. Því er þeirri spurningu beint til hæstv. menntmrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir breytingum á þessu sviði.

Jafnframt er hæstv. menntmrh. spurður hvort hann telji ekki eðlilegra að menntamál almennt heyri undir eitt ráðuneyti í stað þess að dreifast á mörg. Ég bendi á að t.d. fræðsla í landbúnaði heyrir undir landbrn., fiskvinnsla að hluta til undir sjútvrn. en að hluta til undir menntmrn., starfsmennt að hluta undir félmrn. en að hluta undir menntmrn., ferðamál undir samgrn., lögreglu- og tollamál undir dómsmrn. og þannig má áfram telja. Þessi skipan er um margt vafasöm hvað menntun snertir þar sem enginn einn aðili hefur heildarsýnina. Ég tel rökrétt að eitt ráðuneyti hafi heildarsýn í menntamálum öllum með atvinnulífinu þannig að skipulag af hálfu hins opinbera verði skilvirkt og opið. Því er hæstv. menntmrh. jafnframt spurður hvort hann telji ekki eðlilegt að þessi málaflokkur heyri undir eitt ráðuneyti, menntmrn.