Stofnun sérskóla á vegum ríkisins

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 13:39:30 (4095)

1996-03-20 13:39:30# 120. lþ. 111.1 fundur 351. mál: #A stofnun sérskóla á vegum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[13:39]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. greinargóð svör og tel að í svari hans hafi komið fram mikilsverðir punktar. Ég túlka svör ráðherra svo að stefna hans og ætlan sé að stuðla að samræmingu og einföldun menntamála, ekki síst starfsmennta þannig að menntamál þjóðarinnar verði skoðuð í einni samfellu og sem ein heild.

Auðvitað munu margir hagsmunaaðilar verjast því að breyta því fyrirkomulagi en ég minni á að með því að dreifa yfirstjórn menntamála á marga staði svo sem nú tíðkast skapast ávallt sú hætta að grá svæði myndist og mikilsverð mál kunni að falla milli stafs og hurðar. Heildarsýnin er mikilsverð.

Þá er ekki síður mikilvægt að ungt fólk sem sækir í framhaldsskóla geti séð fyrir sér við upphaf framhaldsskólanáms atvinnulífið allt og valið sér námsbrautir í samræmi við áhuga sinn og getu. Það markmið næst ekki með lokuðum sérskólum eða með því að dreifa þætti menntunar í marga staði og vænti ég þess að áður en langt um líður megum við sjá einfaldara og opnara skipulag í starfsmenntun og endurmenntun á öllum sviðum.

Ég þakka hæstv. menntmrh. greinargóð svör.