Framgangur stjórnarfrumvarpa

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:07:11 (4107)

1996-03-20 14:07:11# 120. lþ. 112.91 fundur 228#B framgangur stjórnarfrumvarpa# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:07]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. lýsti því yfir á þinginu fyrir nokkrum dögum að frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins yrði ekki þröngvað í gegnum þingið, samið yrði um þessi efni við samtök opinberra starfsmanna og hann bætti því við að áunnin réttindi yrðu ekki skert. Nú segir hæstv. forseti og hefur dregið nokkuð í land að þetta verði ekki gert í andstöðu við kennara. Nú er hörfað og hvikað frá þeirri megingrundvallaryfirlýsingu sem var gefin sem vekur upp spurningar í framhaldi af sjónvarpsviðtali við hæstv. fjmrh. í gær sem sagði að hæstv. forsrh. hefði komið inn í þetta mál á réttri stundu með réttu orðin. Til hvers? spyr maður þá. Til að auðvelda flutninginn á grunnskólanum frá ríki til sveitarfélaga? Er þetta gert í hagræðingarskyni eða erum við að fjalla um prinsippmál, að það eigi að semja um þessa hluti og það eigi ekki að skerða áunnin réttindi? Það er ljóst að þau drög sem þegar liggja fyrir, fela í sér umtalsverðar skerðingar fyrir þá sem eiga aðild að sjóðnum og einnig fyrir fólk sem er komið á lífeyri.

Ég vakti athygli á því í þingræðu í gær og hef ekki fengið svör frá hæstv. forsrh. hvort hann muni beita sér fyrir því að frv. um réttindi og skyldur fengi sams konar meðferð þar sem rök hafa verið færð fyrir því að einnig þar er um að ræða skerðingu á áunnum réttindum. Þar erum við komin að afmæliskveðjunni til verkalýðssamtakanna á Íslandi, afmæliskveðjunni til Alþýðusambands Íslands, að reyna að setja fjötra á verkalýðshreyfingu. Maður hlýtur að spyrja sig að því: Hvað er það sem vakir fyrir ríkisstjórninni að hún þori ekki annað en reyna að takmarka réttindabaráttu launafólks á Íslandi? Við höfum að vísu séð mörg dæmi. Kjör öryrkja og lífeyrisþega hafa verið skert, þess fólks sem getur ekki samkvæmt opinberum yfirlýsingum og stöðlum framfleytt sér. Hvert er förinni heitið? Hvert er för ríkisstjórnar hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar heitið?