Framgangur stjórnarfrumvarpa

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:16:11 (4111)

1996-03-20 14:16:11# 120. lþ. 112.91 fundur 228#B framgangur stjórnarfrumvarpa# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er viðtekin venja í þinginu að menn láta eitt og jafnt yfir stjórn og stjórnarandstöðu ganga varðandi afbrigði. Enda þurfa stjórnarliðar, hverjir sem þeir eru á hverjum tíma, iðulega mjög á stjórnarandstöðu að halda til þess að afbrigði nái fram að ganga og væri fáránlegt ef stjórn á hverjum tíma eða stjórnarflokkar mundu ekki gæta þess að stjórnarandstaðan fengi sambærilega þjónustu, ef ég má nota það orð í því sambandi eins og stjórnarliðar.

Aðeins varðandi freud-heitin, ég held að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi ruglað mér saman við hæstv. forseta og ég held að það hafi ekkert með freud-heitin að gera. Eða a.m.k. tók ég það ekki þannig.

Varðandi þau ummæli sem höfð voru eftir mér um lífeyrissjóðsréttindin skulu menn ekki rýna of mikið í þau orð sem ég sagði hér. Ekkert af því sem ég sagði var tekið til baka og stóð ekki til af minni hálfu. Hafi ég talað eitthvað ógætilega, stendur sú yfirlýsing sem ég gaf. Menn verða að fara varlega í að rýna í það hvernig menn haga fínustu orðum sínum. En ég ítreka að það var ekkert tekið til baka í þeim efnum.

Ég vil líka vara menn svolítið við því að nota þessi stóru orð sem við notum hér eins og styrjaldarástand og stríðsyfirlýsing. Það voru notuð allstór orð í umræðunum í gær allt þar til menn fóru að ræða þessi mál nokkuð málefnalega. Þá kom upp úr kafinu að þau frumvörp sem menn höfðu talað hvað ógætilegast um hafa margt gott í sér fólgið. Svo mun einnig reynast með breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, frv. sem á að breyta ,,þrælalögunum ógurlegu`` eins og þau voru kölluð, lögin frá 1938. Það skyldi nú varla vera að ,,þrælalögin ógurlegu`` væru orðin heilagur bókstafur í hugum sumra? (Gripið fram í: Þrælalög Framsóknarflokksins.) Nei, þrælalögin ógurlegu heyrði ég þau nefnd. Það er margt í þessum lögum sem er mjög til bóta fyrir alla, ekki síst launþegana í landinu. Við skulum fara vandlega yfir frv., líka með aðilum vinnumarkaðarins og sjá hvort menn geta ekki sameinast um það að fá þau frumvörp fram sem eru til bóta.