Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 14:44:18 (4116)

1996-03-20 14:44:18# 120. lþ. 112.2 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[14:44]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil ræða lítillega það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson réttilega fann að við orðanotkun mína áðan þegar ég leyfði mér þann hroka homo sapiens að tala um æðri lífverur. Það er rétt sem hv. þm. segir að menn eiga að fara varlega með orðanotkun af þessu tagi. Það sem ég hafði í huga var að fyrir áratug, þegar menn voru að hefja umræðu um þessi mál, voru menn fyrst og fremst að tala um lífverur sem höfðu talsvert einfaldari byggingu erfðaefnis en t.d. spendýr. Nú eru spendýr komin undir þann flokk lífvera sem verið er að erfðabreyta. Ég held ekki að svo hafi verið á þeim tíma. Fyrir um það bil einum og hálfum áratug starfaði ég sjálfur við það að erfðabreyta lífverum bæði hér á landi og reyndar erlendis líka þar sem ég stóð í löngu námi sem laut að slíkum hlutum. Það er líka merkilegt að velta fyrir sér þróuninni síðan þá. Á þeim tíma voru menn ekkert að velta fyrir sér ýmsum siðferðilegum álitaefnum sem tengjast erfðabreytingum. Nú eru þau komin miklu ofar á dagskrá og það er hárrétt sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Hv. umhvn. á hrós og þakkir skilið fyrir að hafa komið með þá eðlisbreytingu, að ég segi ekki erfðabreytingu á frv., að ein af stoðunum sem frv. stendur nú á er einmitt þessi siðferðilegi þáttur. Hin siðferðilegu álitaefni eru tekin inn í frv. og það er vel.

Hins vegar er það líka svo að það er gerð önnur meginbreyting á frv. með þessari brtt. frá umhvn. sem kemur nú fram á milli 2. og 3. umr. Ég tel það eðlisbreytingu á frv. þegar búið er að taka inn ákvæði um að það eigi að leita álits Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ég tel að þá sé verið að taka tillit til þeirrar gagnrýni sem kom fram við 2. umr. og mér finnst það gott. Það þykir mér líka undirstrika að menn innan hv. umhvn. eru farnir að skilja þetta öðrum skilningi en áður. Ég var auðvitað sama marki brenndur og margir virðast vera innan hv. umhvn. Ég leit á þetta frá of þröngu sjónarhorni á meðan þetta mál var á mínu verksviði og til samningar í umhvrn. En eins og ég sagði hreinskilnislega í umræðunni um daginn hefur mér síðar af sérstökum ástæðum gefist tóm til þess að kanna þetta mál frekar og velta því fyrir mér. Þá skildist mér auðvitað að frá því að menn fóru að setja þessi lög úti í Evrópu hefur orðið veruleg breyting á. Menn hafa verið að taka inn allt aðra hópa og flokka lífvera en áður voru undir í þessum efnum. Fyrir 10--15 árum voru menn fyrst og fremst að erfðabreyta bakteríum og flytja erfðaefni á milli slíkra vera. Nú er þetta gerbreytt. Spendýr, fiskar og plöntur eru komnar til sögu. En hinn upphaflegi hugsunarháttur hefur hins vegar flust hingað til lands með þeim tilskipunum Evrópusambandsins sem urðu í rauninni aflvaki þessarar frumvarpssmíðar. Þegar sett var niður nefnd til að véla um þessi mál, nefnd sem reyndar var til staðar í umhvrn. þegar ég kom þangað, var hún fyrst og fremst skipuð sérfræðingum á sviði örvera. Það er því ekki fyrr en á allra síðustu stigum í þessari umræðu sem menn taka verulega undir með þeim sem halda því fram að það sé nauðsynlegt að taka miklu ríkara tillit til ráðgjafar frá þeim sem hafa sérþekkingu á sviði t.d. spendýra og plantna. Mér þykir gott að það er gert hérna og því segi ég að þetta er meginbreyting að mínu viti. Menn geta svo deilt um hvort það er réttur skilningur hjá mér eða ekki.

Ég fer hins vegar ekki ofan af því að mér finnst það fingurbrjótur að menn skuli setja ákveðið verk í hendur Náttúruverndarráði, sérstaklega þegar það liggur fyrir að það er þingmeirihluti fyrir því að gerbreyta formi ráðsins. Jafnvel þótt við gerðum ráð fyrir því að það yrði engin formbreyting á Náttúruverndarráði held ég að það sé hvorki æskilegt né eðlilegt miðað við þá sérfræðiþekkingu sem Náttúruverndarráð hefur yfir að búa í dag að ætla ráðinu að geta komið með ígrundað álit á sleppingum erfðabreyttra lífvera í lífríki náttúrunnar á Íslandi. Eftir því sem ég skil það frv. sem hv. þm. og formaður umvhn., Ólafur Örn Haraldsson, styður, er verið að breyta Náttúruverndarráði mjög verulega. Það er verið að gera það að ráðgjafahópi ráðherrans og það er út af fyrir sig ágæt hugmynd. En ég sé ekki að innan Náttúruverndaráðs sé sérfræðiþekking þess eðlis að það réttlæti að leitað sé til ráðsins um sleppingar af þessu tagi.

Ég velti því fyrir mér hvort það hafi ekki verið miklu viturlegra að setja inn í frv. að það þyrfti að leita til einhverra frjálsra ráðgjafahópa vegna þess að þetta er ráðgjafahópur sem er kostaður af hálfu hins opinbera. Þess vegna verður aldrei hægt að líta á hann sem óháðan. Inn í allan þennan strúktur vantar einhvers staðar aðkomu fyrir frjálsa hópa, þ.e. frjáls félagasamtök á sviði náttúruverndar. Ég held að þarna greini menn verulega á við hv. þm. Hjörleif Guttormsson. Mér þykja það ekki góð vinnubrögð að leggja þetta til núna þegar þingið veit að á næstunni verður lögunum um Náttúruverndarráð breytt.

Ég fagna því sem sagt, herra forseti, að það er búið að setja inn klárt ákvæði um að það verður leitað álits hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Ég velti þá fyrir mér hvers vegna menn hafi ekki gengið lengra í þessa átt. Ég hygg að í brtt. sem við samþykktum við 2. umr. hafi 6. gr. frv. verið breytt, en hún fjallar um ráðgjafarnefnd ráðherra. Þar er gert ráð fyrir að í stað fimm manna, eins og ráðherrann lagði upphaflega til, verði ráðgjafarnefndin níu manns alls og þar er talað um að í henni eigi að verða sérfróðir menn á sviði erfðatækni og siðfræði. Ég lít hins vegar svo á að með því að taka Náttúrufræðistofnun Íslands inn í 14. gr. séu menn að undirstrika að það þurfi að leita eftir þekkingu svipaðri þeirri sem þar er innan veggja. Hvers vegna þá ekki, herra forseti, að binda orðalag 6. gr. þannig að það verði alveg skýrt að í ráðgjafarnefnd ráðherrans eigi að sitja menn sem hafa t.d. sérþekkingu á vistfræði, dýrafræði, grasafræði eða annarri sérgrein sem lýtur að plöntum og dýrum eða búsvæðum þeirra. Ég held að erfðafræðingar og siðfræðingar geti alls ekki metið þá hættu sem fylgir erfðabreyttri lífveru fyrir náttúru landsins og það sama gildir auðvitað um Hollustuvernd ríkisins. Að nokkru leyti skjóta menn byttu undir þennan leka með breytingunni sem gert er ráð fyrir að verði við 1. málsl. 14. gr., en mér finnst að það hefði átt að gera þetta með afdráttarlausari og skýlausari hætti.

Herra forseti. Ég er líka þeirrar skoðunar að þessi lög hefðu átt að taka mið af samningum sem við höfum gengið frá eftir að frv. var smíðað. Þar er mjög mikilvægur alþjóðlegur samningur sem Íslendingar hafa orðið fullgildir aðilar að síðan menn fóru að velta þessum málum fyrir sér og fyrstu frumvarpsdrögin sáu dagsins ljós. Það er samningurinn um lífræðilegu fjölbreytnina. Hann tók gildi undir árslok 1994 og samkvæmt ákvæði 19. gr. samningsins ber okkur að setja almennar reglur innan lands um útflutning erfðabreyttra lífvera.

Ég spurði hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson og hæstv. umhvrh. að því við 2. umr. hvort 2. gr. frv. tæki sérstaklega til útflutnings á erfðabreyttum lífverum. Það kemur ekki, þykir mér, skýrlega fram í textanum. Svarið var að svo væri. Fyrst menn fóru í það að breyta frv. milli 2. og 3. umr. hefðu þeir auðvitað átt að hnýta þetta traustari hnútum og koma með sérstakt ákvæði þarna inn í frumvarpsdrögin. Nú geta auðvitað hinir ágætu nefndarmenn hv. umhvn. komið og sagt: Já, en af hverju gerðir þú það bara ekki sjálfur á meðan þú varst ráðherra? Það er rökrétt spurning. Ég hef hins vegar sagt alveg hreinskilnislega að það megi líta á það sem mistök af minni hálfu. En á hitt ber líka að líta að frv. var ekki lagt fram í tíð fyrri ríkisstjórnar. Tvisvar sinnum var lagt til að ráðherrann legði það fram en í bæði skiptin var það sent til baka, fyrst og fremst út af málfari. Þarna var um að ræða afskaplega flókið og tæknilegt orðfæri sem mér þótti á þeim tíma ekki bjóðandi þinginu og er þeirrar skoðunar að ráðuneyti eigi að vanda sitt málfar og eigi ekki að koma fram með frv. eins og við höfum séð hér síðustu daga frá hæstv. heilbrrh. í frv. um réttindi sjúklinga.

Þetta, herra forseti, finnst mér nauðsynlegt að segja. Ég er þakklátur fyrir það að menn tóku mið af nokkurri af þeirri hörðu gagnrýni sem hér kom fram á sínum tíma milli 2. og 3. umr. En hvers vegna breyttu þeir þá ekki fleiri ákvæðum eins og t.d. 2. gr.?

Það er ýmislegt fleira sem ég vil ekki eyða tímanum í að fjalla um, herra forseti, en ég þakka fyrir þessa umræðu sem mér finnst hafa verið málefnaleg. Ég velti því fyrir mér og spyr hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson hvort hann treysti sér ekki sem formaður hv. umhvn. til þess að taka þetta enn og aftur til skoðunar því hér er um svo mikilvægt mál að ræða eins og við vitum. Það má heita að þróun nýs geira íslensks atvinnulífs byggist á þessu. Það er að vísu geiri sem ekki er enn fæddur, það vitum við. En við erum menn framtíðarinnar eins og Framsfl. er, eða hvað?