Erfðabreyttar lífverur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 15:05:16 (4121)

1996-03-20 15:05:16# 120. lþ. 112.2 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[15:05]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Það eru þrjú atriði sem ég vildi gera athugasemd við. Í fyrsta lagi held ég að það Náttúruverndarráð sem yrði til eftir hugsanlega breytingu á náttúruverndarlögunum yrði betur til þess fallið að vera umsagnaraðili en það Náttúruverndarráð sem til er í dag. Það yrði að mínu mati óháðara hinu opinbera og líkara samvisku þjóðarinnar í umhverfismálum eins og nefnt var fyrr í umræðunni af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Einnig væri tryggara að þar innan borðs væru sérfræðingar í hinum ýmsu málum náttúruverndar vegna þess að þar er gert ráð fyrir fimm tilnefningum af hálfu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Um samsetningu ráðsins má hins vegar deila af öðrum orsökum.

Í öðru lagi hvað varðar útflutninginn verður varla neitt flutt út frá Íslandi sem var ekki annaðhvort flutt inn eða framleitt. Lögin sem við ræðum fjalla nákvæmlega um innflutning og það sem fram fer hér á landi og annað verður ekki flutt út. Þar af leiðandi tekur ákvæðið til þess sem yrði hugsanlega flutt út líka.

Í þriðja lagi hvað varðar samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika fæ ég ekki séð að frv. stangist á nokkurn hátt við þann samning. Það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að ýja að var að sá samningur væri eitthvað nýtt sem hefði orðið til eftir að frv. var samið í tíð hans sem hæstv. umhvrh. Því er til að svara að samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika var undirritaður í Ríó 1992 af forvera hans í starfi sem umhvrh. (Gripið fram í: Flokksbróður.) Og flokksbróður og vorum við þar viðstaddir ásamt öðrum, ég og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson.

Að lokum þetta. Þau orð sem féllu milli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um Mao Tse Tung, þær samlíkingar og það hvernig þeir voru að hrósa honum, finnst mér alls ekki við hæfi að ræða þannig um manninn sem stóð fyrir menningarbyltingunni í Kína.