Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 15:31:28 (4128)

1996-03-20 15:31:28# 120. lþ. 112.5 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[15:31]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. fjmrh. að því þar sem við erum að fjalla um úrræði til að leysa vanda skuldugra heimila hvort ekki hafi komið til greina að breyta fyrirkomulagi dráttarvaxta á opinberum gjöldum sem reiknast frá og með gjalddaga skulda. Það eru kannski 16% vextir í stað þess að um væri að ræða einhverja samningsvexti með einhverju álagi. Hefur ekki komið til greina að skoða t.d. vaxtalögin og breyta fyrirkomulagi dráttarvaxta?

Ég minni á að þegar við vorum að ræða um Innheimtustofnun sveitarfélaga fyrir nokkrum dögum var hæstv. félmrh. mjög jákvæður gagnvart því að breyta fyrirkomulagi á dráttarvöxtum. Þar vorum við að ræða um meðlagsgreiðslur þar sem meðlagsskuldir voru um 5,3 milljarðar kr. og dráttarvextir þar af um 11 millj. kr. Ef við skoðum opinberu gjöldin eru álagðir dráttarvextir vegna álagningar opinberra gjalda fyrir árið 1993, 1994 og 1995 um 810 millj. kr. eingöngu á þessum þremur árum og ógreitt af þessum 810 millj. kr. var um síðustu áramót um 300 millj. kr. Þetta er óheyrileg dráttarvaxtataka og óeðlilegt að það séu greiddir dráttarvextir strax þegar skuld fellur í gjalddaga enda erum við að ræða um mjög háa vexti. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi ekki komið til greina að breyta dráttarvaxtafyrirkomulaginu eða að draga eitthvað úr þeirri gjaldtöku sem ríkissjóður hefur af stimpilgjöldum sem eru yfir 2 milljarðar kr. á ári.