Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 15:33:18 (4129)

1996-03-20 15:33:18# 120. lþ. 112.5 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[15:33]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið hv. þingmenn um að ræða ekki um stimpilgjöldin eins og það séu eitthvað verulega slæm gjöld. Þetta eru skattstofn ríkisins og hefur verið þannig áratugum saman og ef hann hverfur verður auðvitað eitthvað annað að koma í staðinn. Kannski er það erfiðast við stimpilgjöldin að á allra síðustu dögum og mánuðum hefur nokkuð borið á því að fyrirtæki, sem eiga í samkeppni við erlend fyrirtæki, hafa verið að tapa viðskiptum vegna stimpilgjalda. Þar þarf auðvitað að gera breytingar á stimpilgjaldalöggjöfinni en ég ætla ekki að fara frekar út í það hér, það frv. hefur verið til skoðunar í ráðuneytinu.

Þannig hefur verið litið á að dráttarvextir af skattskuldum yrðu hluti skuldarinnar. Það er mjög erfitt ef menn ætla að breyta vaxtafyrirkomulaginu að breyta því öðruvísi en að það gildi þá í öllum tilvikum. Það yrði þá að setja nýjar reglur þannig að í öllum tilvikum yrði ekki um dráttarvexti að ræða heldur um einhvers konar álag á vexti. Ég sé ekki í fljótu bragði hvað gæti komið í staðinn en það hefur verið talið óheimilt af hálfu fjmrn. að gefa sumum eftir dráttarvexti einfaldlega vegna þess að þá er verið að gera mun á einstaklingum sem ekki er heimilt samkvæmt jafnræðisreglunni. Ég minni hins vegar á að lögum hefur verið breytt varðandi oftekna vexti og nú eru greiddir sams konar vextir af vöxtum sem eru ofteknir þegar þeir eru greiddir til baka en þessu var breytt fyrir skömmu og horfir til mikilla bóta.

Virðulegi forseti. Mér finnst hins vegar vel koma til greina að nefndin ræði þetta mál og fái allar upplýsingar um það hvort hægt sé að finna eitthvert annað fyrirkomulag.