Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 15:35:29 (4130)

1996-03-20 15:35:29# 120. lþ. 112.5 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[15:35]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir svörin. Ég skil hans svör svo að hann sé jákvæður fyrir því að skoða það að breyta fyrirkomulagi dráttarvaxta. Ég geri mér grein fyrir því að ef ráðist verður í að breyta fyrirkomulaginu verður það að ganga yfir allt sviðið og verður að breyta vaxtalögunum. Það er alveg ljóst að vaxtalögin hafa ekki fylgt eftir þeirri þróun sem hefur orðið í frelsi vaxta. Fyrirkomulag dráttarvaxta er rígbundið niður í vaxtalögunum. Ég tel það mjög óeðlilegt og hefur það leitt til mjög óðeðlilegrar dráttarvaxtatöku.

Ég fagna því að ráðherra taki undir málið með þessum hætti og felur nefndinni sem fær þetta mál til umfjöllunar að skoða hvort ekki eigi að breyta fyrirkomulagi dráttarvaxta. Ég legg áherslu á að nefndin sem fær málið til meðferðar skoði þá hvort ekki verður lagður grunnur að því með þessu máli að breyta fyrirkomulagi dráttarvaxta vegna þess að það er mjög óeðlilegt hvernig staðið er að dráttarvaxtatöku hér á landi.