Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 15:36:38 (4131)

1996-03-20 15:36:38# 120. lþ. 112.5 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[15:36]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er komið til umræðu þriðja frv. sem tengist þeim aðgerðum ríkisstjórnarinnar að létta skuldum af mjög illa stöddu fólki. Það vill svo illa til að mínum dómi að öll þessi mál sem eru innbyrðis tengd fara til þriggja nefnda á hinu háa Alþingi.

Við getum að vísu aðeins bætt úr með því að senda þessi mál á milli nefnda til umsagnar en mér finnst alveg augljóst að ákveðið óhagræði er að því að ekki skuli vera hægt að fjalla um þessi mál í heild á einum stað. Þetta vekur einmitt þær spurningar sem ég hef reyndar komið að oft á undanförnum vikum hvort við þurfum ekki að gera breytingar á þingsköpum hvað þetta varðar, að heimilt sé að vísa málum til annarra nefnda, sérstaklega þegar svona stendur á. Það er verið að fjalla um nátengd mál. Einhvers staðar verður yfirsýnin að vera.

Fyrsta málið sem þessu tengist var frv. um réttaraðstoð og síðan frv. um Innheimtustofnun sveitarfélaga, þ.e. meðlagsgreiðslurnar, og svo loks er það sem snýr að tekjuskatti og eignarskatti. Vissulega eru ýmsar spurningar sem vakna þegar þessi mál öll eru skoðuð í heild.

Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. og kom reyndar fram í umræðunni um réttaraðstoðina að fjárlagaskrifstofu fjmrn. þykir afar erfitt að áætla hversu margir einstaklingar geti notfært sér þá aðstoð sem hér um ræðir. Það er nefnt sem dæmi í umsögninni um frv. um réttaraðstoð að það gæti t.d. verið á bilinu 20--40 og þá yrði kostnaðaraukinn 4--10 millj. kr. Þetta held ég að hljóti að vera ákaflega mikil vanáætlun og í rauninni finnst mér sérkennilegt ef fjárlagaskrifstofan vill gefa frá sér vandaða umsögn að ekki sé hægt að fara betur í saumana á þessum málum og greina betur þá einstaklinga sem eiga miklar skuldir við ríkið, ógreidda skatta og meðlög til þess að átta sig betur á því hvað erum við að tala um mikinn vanda.

Það hafa komið fram skýrslur um skuldir heimilanna og er óþarft að vera að tíunda þær enn einu sinni en meginniðurstaða þeirra upplýsinga sem þar komu fram voru einmitt þær að skuldir heimilanna eru af margvíslegum toga. Mönnum hættir til að tala um skuldir heimilanna sem fyrst og fremst húsnæðisskuldir en það er margt fleira sem þar kemur inn, bæði námsskuldir og lausaskuldir, og svo það sem kemur í frv. um Innheimtustofnun sveitarfélaga, hversu gífurlegar skuldir margir eru með á bakinu vegna meðlagsgreiðslna. Þetta eru himinhrópandi tölur en ég rifja upp að í athugasemdum við það frv. kemur fram að 10.660 meðlagsgreiðendur skulda hvorki meira né minna en 5,5 milljarða kr. Þetta eru gífurlegar upphæðir. Ef við tökum þennan hóp skuldara þykir mér afskaplega ólíklegt að sá kostnaðarauki sem fjárlagaskrifstofan var að reyna að meta sé ekki meiri en þar greinir. En það segir okkur ákaflega lítið um þann fjölda sem mundi hugsanlega nýta sér einhvers konar nauðasamninga vegna tekjuskatts og eignarskatts.

Þá kem ég að því sem mér finnst vera meginmál umræðunnar og þeirri stóru spurningu sem við vorum að velta upp í sambandi við Innheimtustofnun sveitarfélaga. Það er hvort rétt sé af ríkisvaldinu og þeim sem fara með fé almennings að fella niður höfuðstól skulda. Það er alveg ljóst að í frv. um Innheimtustofnun sveitarfélaga segir hreint og klárt að það megi afskrifa höfuðstól skuldara að hluta eða öllu leyti. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. fjmrh.: Hvað felst í þessum nauðasamningum sem hér er verið að bjóða upp á? Þýðir það í flestum eða jafnvel öllum tilfellum að höfuðstóll skattaskulda verði felldur niður? Er það hugsunin? Auðvitað er hægt að gera nauðasamninga án þess að skuldir séu endilega afskrifaðar þó að það sé reyndar höfuðeinkenni slíkra samninga þegar fyrirtæki eiga í hlut að fyrirtækinu er gefinn eftir hluti skuldanna. Mér finnst þetta skipta verulegu máli. Eru menn að tala um það að bæði þeir sem skulda skatta fái niðurfelldan höfuðstól skulda og jafnframt meðlagsgreiðendur eða eru það bara meðlagsgreiðendur sem eiga að njóta þessarar fyrirgreiðslu? Hvaða skilaboð er þá verið að senda til annarra þeirra sem skulda? Mér finnst þetta vera mikið og stórt atriði. Er siðferðilega rétt að afskrifa skuldir? Er ekki réttara að skuldbreyta og lengja sem allra mest í skuldunum? Er réttlætanlegt að fella niður höfuðstól þegar um er að ræða annars vegar það sem menn eiga að greiða fyrir framfærslu barna sinna og hins vegar greiðslur í sameiginlega sjóði allra landsmanna? Mér finnst þetta vera grundvallarspurning en það breytir málinu svolítið hvort það er stefnan í þessum frumvörpum að slíkt eigi sér stað eða hvort við vorum bara að tala um meðlagsgreiðendur. Þetta er ekki orðað neitt svipað í þessum frumvörpum. Þarna er auðvitað um býsna stórt mál að ræða.

Fram kom í svari við fyrirspurn sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði fram snemma hausts að býsna há opinber gjöld eru afskrifuð nú þegar, annars vegar hjá einstaklingum og hins vegar hjá lögaðilum. Það vakti mjög mikla athygli hvílíkar feiknaupphæðir voru á ferð. Mikið af þessu eru áætlaðir skattar á þá sem standa ekki í skilum en mér finnst að það þurfi að koma fram í umræðunni hversu háar upphæðir eru nú afskrifaðar. Hver er t.d. talan fyrir árið 1995 hvað varðar afskriftir á skattskuldum? Hvað erum við að tala um mikinn vanda? Það er það sem ég er að reyna að átta mig á.

[15:45]

Ég tek það skýrt fram að ég er ekki að gera lítið úr vanda heimilanna eða vanda einstaklinga, hvort sem það eru meðlagsgreiðendur eða aðrir. Það eru auðvitað margar ástæður fyrir því að fólk lendir í miklum skuldum og ræður ekki við sín fjármál. Þar á ríkisstjórnin sinn hlut að máli, bæði sú sem nú starfar og sú sem á undan henni fór, m.a. með aukinni skattheimtu og þjónustugjöldum. Fleira kemur og til sem ekki er hægt að skrifa á reikning þessarar ríkisstjórnar, t.d. samdrátturinn í efnahagslífinu og atvinnuleysið sem yfir okkur hefur dunið á undanförnum árum og hefur sett fjárhagsáætlanir fjölda heimila algerlega úr skorðum. Ég ítreka að ég er ekki að gera lítið úr þessum vanda en mér finnst við vera að ræða ákveðið grundvallaratriði sem er afskriftir skulda og hvaða skilaboð við erum þar með að senda út í þjóðfélagið. Er sem sagt í lagi að safna skuldum og þegar þær eru komnar yfir visst mark fer maður til ríkisins, leitar eftir réttaraðstoð og fær afskrifaðar skuldir? Við verðum að vera mjög vel meðvituð um hvað við erum að gera þarna. Erum við að opna ákveðnar glufur eða erum við fyrst og fremst að tala um tímabundnar aðgerðir til að aðstoða þá sem nú eiga í miklum erfiðleikum, m.a. í kjölfar þess samdráttar sem samfélag okkar hefur gengið í gegnum?

Ég held að ég sé búin að nefna flest það sem mér finnst skipta máli í þessu samhengi. Ég skil það svo að hér er auðvitað fyrst og fremst um aðstoð við einstaklinga að ræða. Svo ég hafi það alveg á hreinu ætla ég að spyrja hæstv. fjmrh. um 1. lið 1. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Gjaldandi sé skuldlaus í virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi og vörugjaldi ...`` Þarna er átt við þá sem eru í atvinnurekstri. Með staðgreiðslu opinberra gjalda, er þá ekki átt við að hann hafi staðið í skilum fyrir starfsmenn sína? Hæstv. fjmrh. kinkar kolli. Ég vildi bara vera viss um að ég skildi þetta rétt.

Hæstv. forseti. Ég fæ tækifæri til að fylgja þessum málum eftir og vinna frekar í þeim, en það eru ákveðnar grundvallarspurningar sem felast í þessum málum.