Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 15:48:40 (4132)

1996-03-20 15:48:40# 120. lþ. 112.5 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[15:48]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Í greinargerð með því frv. sem hér er til umræðu segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Stuðla verður að því að einstaklingar sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum, hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum. Þetta frv. miðar að því að ráða bót á þessum vanda``.

Þarna er annars vegar verið að vitna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og hins vegar tilgang þessa frv. sem er að ráða bót á vanda. Í því ljósi skulum við líta á frv. og forsögu þess.

Það liggur nefnilega fyrir, virðulegi forseti, að á þessum meinta vanda sem hér er rætt um var ráðin bót með lögum nr. 62/1989, þ.e. hér er komið með gamalt mál, löngu samþykkt lög í nýjum búningi og með því á að telja fólki trú um að það sé verið að gera skuldurum einhvern greiða, það sé verið að hjálpa því fólki í landinu sem á erfitt.

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um veita lögin um tekjuskatt og eignarskatt nú þegar og hafa gert það um nokkurra ára bil fjmrh. heimild til að gera nákvæmlega það sem verið er að biðja um með því frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil aðeins, virðulegi forseti, fá að vitna í greinargerðina sem fylgdi því frv. en það var flutt á 111. löggjafarþingi árið 1988 af hv. þáv. þm. Kjartani Jóhannssyni. Ég vil byrja á upphafi greinargerðarinnar vegna orða hæstv. fjmrh. áðan þar sem hann gat þess af hvaða tilefni lögunum hefði verið breytt á þá lund sem þau eru enn þann dag í dag og hann ætlar að láta endurstaðfesta í þinginu. Hann taldi að það mundi hafa verið vegna aðgerða þáv. fjmrh. Í greinargerðinni stendur hins vegar, með leyfi forseta:

,,Fyrir Alþingi liggur vitneskja um að fjármálaráðherrar hafa tekið sér vald sem þeir ekki hafa að lögum til að leyfa einstökum aðilum að greiða háar fjárhæðir opinberra gjalda með skuldabréfum til lengri eða skemmri tíma`` o.s.frv.

Á árinu 1988, virðulegi forseti, mun hv. þáv. þm. Kjartan Jóhannsson hafa komist að því að um langt árabil höfðu verið gerðir samningar í fjmrn. af hálfu þáv. fjmrh. bæði við einstaklinga og fyrirtæki. Hæstv. fjmrh. ætti að líta til þess hvernig þessum málum var háttað þegar hann var iðnrh. í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, ef mig misminnir ekki. A.m.k. var hans flokkur í ríkisstjórn á tímabilinu 1983 og áfram. Hann kynni að finna ýmsar rósir ef ekki fjólur í gögnum ráðuneytisins varðandi samninga sem gerðir voru á þeim tíma. Áður en ráðherrann fullyrðir of mikið, ætti hann að skoða örlítið gögnin í ráðuneyti sínu. A.m.k. liggur fyrir að hér var samþykkt þessi tillaga til breytinga á lögum um tekju- og eignarskatt sem hv. þáv. þm. lagði til og hefur síðan staðið í lögum um tekju- og eignarskatt, en það er einmitt 2. mgr. 111. gr. laganna, sú málsgrein sem ráðherrann ætlar nú að láta endurstaðfesta.

Við skulum bera þetta aðeins saman, virðulegi forseti, svo öllum sé ljóst að hér er einungis um að ræða gamalt vín á nýjum belgjum. Beri menn saman núverandi lagatexta annars vegar og hins vegar texta frv., er það svo að 1., 2. og 4. mgr. 1. gr. eru nákvæmlega eins og texti laganna. Einungis 3. mgr. er ný og um hvað skyldi hún vera? Við skulum fara nánar yfir það og við skulum líka velta því fyrir okkur til hvers hún er.

(Forseti (StB): Forseti verður aðeins að trufla hv. þm. í ræðunni því nú er klukkan að verða fjögur og gert var ráð fyrir að fundur stæði ekki lengur en að þingflokksfundatíma. Það þarf að ná nokkrum atkvæðagreiðslum og því vildi forseti spyrja hv. þm. hvort mikið sé eftir af ræðunni. Ef svo er, óskaði forseti eftir því að hv. þm. gerði hlé á ræðu sinni þannig að áfram yrði haldið síðar.)

Ég er rétt að byrja á ræðunni, virðulegi forseti. Ef forseti ætlar að koma atkvæðagreiðslum að sýnist mér að ég verði að fá að fresta ræðu minni og flytja hana þá síðar. (JóhS: Hvenær?) Spurningin er hvenær.

(Forseti (StB): Á næsta fundi, þegar þetta mál verður á dagskrá.)

Mætti ég semja við forseta um að ræðan yrði þá flutt á morgun?

(Forseti (StB): Það er ekki hægt að ganga frá slíkum samningum á þessari stundu, en forseti vill...)

Sú ósk liggur fyrir.

(Forseti (StB): Það verður tekið til skoðunar við gerð dagskrár fyrir morgundaginn. En forseti verður því miður að óska eftir því að hv. þm. geri hlé á ræðu sinni úr því að mikið er eftir af henni.)

(Fjmrh.: Þingmaðurinn hefur engan áhuga á því að koma til móts við fátæka fólkið í landinu.)

Ég vil gjarnan koma til móts við forseta og gera hlé á ræðu minni, enda rétt komin af stað með inngang hennar. Hvað ummæli hæstv. ráðherra varðar þá er það einmitt vegna hagsmuna þeirra sem verr eru settir í þjóðfélaginu sem ég tel bráðnauðsynlegt að fara mjög nákvæmlega ofan í þetta mál svo öllum megi vera ljóst það sem þegar hefur komið fram í máli mínu, þ.e. að hér er einungis um að ræða gamalt vín á nýjum belgjum og engin nýmæli.

(Forseti (StB): Forseti vill þakka hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir að gera hlé á ræðu sinni.)