Umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 10:33:21 (4135)

1996-03-21 10:33:21# 120. lþ. 113.91 fundur 229#B umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.# (aths. um störf þingsins), RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[10:33]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég mótmæli því að frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sé komið á dagskrá þessa fundar. Þetta er allt annað en vikuáætlun þingsins gaf til kynna. Ég minni á að við þingflokksformenn áttum fund á mánudag með forseta þar sem reynt var að sjá fram eftir vikunni og tekið var fyrir hvað hér yrði rætt og þá var ekki orðað að þetta frv. væri svo mikið sem á leið inn í þingið.

Mér eru vonbrigði og undrun efst í huga þegar þetta mál er komið á dagskrá. Án samráðs við verkalýðshreyfinguna er frv. sem ekki hefur náðst sátt um á milli aðila komið inn á þing. Án samráðs við stjórnarandstöðu og fullkomlega í bága við óskir hennar er frv. sem dreift var í fyrrakvöld komið á dagskrá þessa fundar. Það er hægt að draga stöðu máls saman, virðulegi forseti, í eina setningu: Afmælisgjöfin til verkafólks á 80 ára baráttuafmæli er á dagskrá í dag og vekur furðu allra hugsandi manna. Ég mótmæli því að í einni og sömu vikunni séu flutt tvö frumvörp þar sem með valdi á að setja lög á réttindi launþega og sem samanlagt beinast gegn öllum launþegum þessa lands.

Ég fer þess alvarlega á leit, virðulegi forseti, að forseti geri hlé á þessum fundi og í samráði við þingflokksformenn verði þess freistað að fresta þessu máli. Þingmenn sem hefðu t.d. viljað vera viðstaddir og taka þátt í þessari umræðu höfðu bundið sig við skyldustörf á verksviði sínu og þessi skammi fyrirvari til að taka svo stórt mál, umdeilt mál og mál sem fullkomin ósátt er um í þjóðfélaginu á dagskrá er algerlega óviðunandi.