Umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 10:41:31 (4139)

1996-03-21 10:41:31# 120. lþ. 113.91 fundur 229#B umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[10:41]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það á að fara að taka til umræðu stóralvarlegt og mjög umdeilt mál, mál sem snertir sjálfan grundvöll verkalýðshreyfingarinnar í landinu og mál sem hefur, eins og reyndar fleiri frumvörp í leiftursókn ríkisstjórnarinnar að verkalýðshreyfingunni, valdið miklum ófriði og miklum deilum úti í þjóðfélaginu. Það er háalvarlegt að hv. þingmönnum er ekki gefinn kostur á því að kynna sér svona viðamikið mál áður en það er tekið til umræðu í þinginu. Kannski bera orð hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur einna helst vott um þá veruleikafirringu sem á sér stað hjá ríkisstjórninni að halda að stjórnarandstaðan öfundi ríkisstjórnina af þeim tillögum sem hér eru til umræðu. Það á eftir að koma fram í umræðunum og kannski fær þá hv. þm. að komast að öðrum sannleik í því máli.

Þetta mál er viðkvæmt og flókið og það er hrein og klár móðgun við hv. Alþingi að því sé ekki gefinn kostur á því að kynna sér málið til hlítar áður en vaðið er út í umræðu. Ég get sagt fyrir mig að ég er þokkalega vel að mér í vinnulöggjöfinni og þekki ágætlega forsögu þessa máls, en mér entist varla nóttin til að undirbúa mig undir þessa umræðu. Ég get því ímyndað mér hvernig það er fyrir marga aðra sem þekkja kannski ekki vinnulöggjöfina svo vel fyrir. Til hvers er yfirleitt verið að ræða þessi mál á þingi? Er ekki bara eðlilegra að hætta þessu? Vill ekki ríkisstjórnin ákveða þetta út af fyrir sig. Hún virðist a.m.k. gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir lýðræðislega og pólitíska umræðu inni í þingsölum. Það er ýmislegt sem er gert til þess. Þetta eru óþverravinnubrögð og þau fela í sér aðför að lýðræðinu. Ég vil því taka undir með þeim sem hér hafa talað áður. Ég hvet virðulegan forseta til að endurskoða þá ákvörðun að taka þetta mál til umræðu með svo litlum fyrirvara.