Umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 10:47:59 (4142)

1996-03-21 10:47:59# 120. lþ. 113.91 fundur 229#B umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[10:47]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem hefur komið fram varðandi þetta frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Ég vil hins vegar gera annað mál að umtalsefni og það er mál um viðskiptabanka og sparisjóði. Um það er ágreiningur í þinginu. Það var á dagskrá á mánudaginn fullbúið en tekið út af dagskrá með klukkutíma fyrirvara að ósk formanns efh.- og viðskn. Þetta var ekki gert með samþykki forseta. Þá var sagt og ég man ekki betur en forseti gerði það úr ræðustól, að þetta mál yrði á dagskrá á fimmtudag, þ.e. í dag. Ég vek athygli á því. Þetta er mikilvægt mál. Hugtakið víkjandi lán lýsir þessu nokkuð og um bankamál ber að tala en ekki fresta þeirri umræðu.

Nú er það svo að við höfum stutt hæstv. forseta í því að halda uppi góðri venju og þingsköpum á þessu þingi. Við höfum stutt forseta í þeirri viðleitni hans að hér fari fram þingleg og vönduð umræða um mál. Hér eru fullbúin mál tekin út af dagskrá sem búið er að lofa að komi til eðlilegrar afgreiðslu vegna þrýstings framkvæmdarvaldsins. Ég óska eftir því, herra forseti, að það verði skýrt af hverju frv. um viðskiptabaka og sparisjóði er ekki á dagskránni eins og hér var lofað fyrr í vikunni. Ég tek að öðru leyti undir alla þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á málsmeðferð varðandi frv. um stéttarfélög og vinnudeilur.