Umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 10:49:40 (4143)

1996-03-21 10:49:40# 120. lþ. 113.91 fundur 229#B umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[10:49]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram að bréfið sem var lesið upp í upphafi fundar frá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, formanni þingflokks Alþfl., var ekki aðeins sent fyrir hönd þingflokks Alþfl. heldur líka annarra þingflokka stjórnarandstöðunnar. Þetta segi ég til að undirstrika alvöru þessa máls. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir getur ekki leyst úr þessum samskiptavanda í þinginu sem hún hefur stofnað til með því að ráðleggja fólki að hlusta á útvarpið þó að það sé einlægt merkilegt sem hún hefur að segja við þjóðina á öldum ljósvakans.

Ég vil líka segja það, hæstv. forseti, að ég tel að þessi vinnubrögð hæstv. félmrh. og forseta spilli fyrir góðum samskiptum innan þingsins og geta því miður haft mjög víðtæk áhrif. Ég held að það sé nauðsynlegt að það mál verði rætt. Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. forseti svari spurningu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar: Eru þessi vinnubrögð fordæmi? Er við því að búast að menn hagi sér svona framvegis? Er við því að búast að ríkisstjórnin muni henda inn málum af þessu tagi á næstu dögum og vikum og ætlast til þess að þau verði rædd svo að segja samdægurs í þessari stofnun án þess að fólk hafi eðlilegar aðstæður til að kynna sér þau? Er við því að búast að þannig verði haldið áfram í nefndum þingsins eins og mun hafa gerst í morgun, að það hafi verið neitað óskum um að mál fengju eðlilegan umsagnarfrest? Er við því að búast að því verði haldið áfram að ráðherrar sem ætla að knýja fram mál til umræðu í þessari virðulegu stofnun eins og hæstv. félmrh. hefji dagana á því að kenna Alþingi mannasiði í útvarpsumræðum í þættinum Hér og nú eins og var núna í morgun? Og finnst mér að það sitji síst á hæstv. núv. félmrh. sem er ekki orðvarasti alþingismaðurinn að reyna að kenna mönnum mannasiði. Er með öðrum orðum við því að búast að staðan sé þannig að stjórnarliðið hafi sagt stjórnarandstöðunni stríð á hendur í einu og öllu? Er Nýja-Sjálandsaðferðin komin til framkvæmda á öllum sviðum? Á að iðka þessi vinnubrögð ekki aðeins gagnvart stórum málum heldur líka í þingnefndum og líka gagnvart stjórnarandstððunni utan þessara sala? Ef svo er, hæstv. forseti, þá óska ég eftir því að það verði tilkynnt af forseta úr ræðustól þannig að stjórnarandstaðan eigi kost á því að haga sér í samræmi við það.