Umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 10:57:13 (4146)

1996-03-21 10:57:13# 120. lþ. 113.91 fundur 229#B umræður um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur o.fl.# (aths. um störf þingsins), Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[10:57]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Tíminn fyrir þessa umræðu er nú liðinn, en forseti mun gefa frummælanda kost á að tala aftur. En vegna orða sem hér hafa fallið vill forseti taka það fram að honum þykir nokkuð fast kveðið að þegar sagt er að hér sé verið að beita gerræðislegum vinnubrögðum, menn dregnir á asnaeyrum, ef ekki blekktir. (ÖS: Spurning um sjálfstæði þingsins.) Já. Forseti vill nú í góðri samvinnu við hv. þingmenn gæta sjálfstæðis þingsins og telur sig gera það eftir því sem hann hefur getu til.

Í þessu tilviki bregst forseti við óskum ríkisstjórnar. Þetta er eitt af áherslumálum ríkisstjórnarinnar og forseti verður að meta það hvernig líklegast er að hægt sé að standa við starfsáætlun þingsins. Þetta er eitt af stærri málunum sem koma fyrir þingið og forseti metur það svo að það sé mikilvægt að koma því til nefndar fyrir þinghlé sem verður eftir fund á morgun þannig að þingnefnd gefist formlega kostur á að koma málinu til umsagnar.

Forseti biður hv. þingmenn að hafa skilning á því að hann kemur ekki í veg fyrir að mál komi til umræðu, hvorki mál ríkisstjórnarinnar né einstakra þingmanna. Það gerir forseti ekki. Hann beitir ekki valdi sínu þannig. (Gripið fram í: En er ekki forseti líka forseti okkar?) Jú, forseti er forseti allra þingmanna og telur sig rækja sitt starf þannig og biðst undan ásökunum um að hann geri það ekki.

Það er kvartað undan því hér að þingmönnum hafi ekki gefist kostur á að kynna sér málið. Forseti bendir á að þetta er þó allt innan marka þingskapa. Frv. var dreift á þingfundi síðasta þriðjudag, að vísu seint á þriðjudag, það er rétt, en það er samt innan þess ramma sem þingsköp setja. Forseti minnir líka á að við 1. umr. er ætlast til að frv. séu rædd í heild sinni en ekki ræddar einstakar greinar frumvarpanna.

Forseti vill svo taka það skýrt fram þannig að það valdi engum misskilningi að hann lætur engan segja sér fyrir verkum, hvorki einstaka ráðherra, ríkisstjórn, einstaka þingmenn eða hópa þeirra. En hann reynir í starfi sínu að gæta réttsýni og taka tillit til réttmætra tilmæla hvort heldur er frá ríkisstjórn eða einstökum þingmönnum. Forseti óskar eindregið eftir samstarfi við hv. þingmenn um þinghaldið nú sem endranær.

Það er ætlun forseta að umræða um þetta mál fari fram í dag og 1. umr. ljúki áður en við gerum hlé á þingstörfum á morgun. Forseti er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að ræða um þinghaldið í dag við formenn þingflokka og vill hafa samráð við þá um hvenær við ræðum málið, hvort við gerum það að lokinni framsöguræðu hæstv. félmrh., í hádegisverðarhléi eða síðar í dag.