Tilhögun þingfundar

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 11:45:51 (4151)

1996-03-21 11:45:51# 120. lþ. 113.94 fundur 232#B tilhögun þingfundar#, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[11:45]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan stendur frammi fyrir því að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir telja að frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sé algert forgangsmál og að öll önnur mál skipti litlu og blikni við hliðina á þessu máli. Það er einkum Framsfl. sem beitir sér í því máli eins og kunnugt er.

Við erum ósátt við þessa forgangsröð og mótmælum henni. Ákvörðunin um að taka málið á dagskrá núna er gerð þrátt fyrir mótmæli stjórnarandstöðunnar og í fullri andstöðu og ósátt í þinginu.

Þetta þýðir líka það, hæstv. forseti, að hugmyndir sem höfðu verið uppi um t.d. nefndafundi eftir helgi verður að endurskoða að okkar mati. Við beinum því til formanna nefnda sem höfðu boðað fundi eftir helgi að þeir endurskoði áætlanir sínar um störf nefnda eftir helgina. Þetta þýðir jafnframt að það er sett spurningarmerki við samkomulag um þinghaldið yfirleitt, bæði hér í salnum og sömuleiðis í þingnefndum. En stjórnarflokkarnir verða auðvitað að ráða hvernig þessir hlutir þróast því að þeir hafa meiri hluta og geta enn beitt honum í þessari stofnun, þótt mín spá sé sú að það muni þrengjast um áður en langt um líður.

Við lýsum því yfir að þessi ákvörðun að hefja málið er gerð í ósætti við okkur. Við leggjum jafnframt á það áherslu að við fáum ráðrúm til að meta málin betur í þinghléi á þingflokksfundum núna á eftir og sömuleiðis leggjum við á það áherslu að það verði ekki fundir um málið í kvöld heldur verði þeim frekar haldið áfram á morgun ef þörf krefur og ef það er ætlun stjórnarflokkanna að knýja málið fram með þessum hætti. Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur stjórnarflokkunum fyrir að stofna góðu samkomulagi um þinghaldið í vetur í þá hættu sem nú blasir við.