Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 12:32:39 (4154)

1996-03-21 12:32:39# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[12:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt í upphafi þessarar umræðu að það komi skýrt fram vegna orða í framsöguræðu hæstv. ráðherra um tilurð þess hóps sem þetta frv. byggir að verulegu leyti vinnu á að þann 4. okt. 1994, í tíð minni sem félmrh., kallaði ég þá tilgreindu aðila sem hér um ræðir að sama borði til þess að ræða samskiptareglur á vinnumarkaðinum, eins og segir í greinargerð með frv. Það var hins vegar algerlega skýrt af minni hálfu í viðræðum við alla þessa aðila að ekki undir nokkrum kringumstæðum væri um það að ræða að afrakstur þessa nefndarstarfs yrði með þeim hætti að tíndar yrðu út, eins og ráðherra orðaði það áðan, einstakar tillögur eða hugmyndir einstakra nefndarmanna eða hópa heldur væri um það að ræða að freista þess að reyna að ná samkomulagi og frekari sátt um þessar samskiptareglur og þarna væri skynsamlegur vettvangur til þess.

Ég get líka upplýst það að forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar voru margir hverjir dálítið uggandi um að setjast að þessu borði og þess vegna undirstrika ég það enn rækilegar en ella hver var tilgangur þessa nefndarstarfs, nefnilega að ná víðtækri sátt og samvinnu um bættar samskiptareglur. Hér hefur því hæstv. félmrh., fulltrúi Framsfl. í félmrn. núna, algjörlega haft endaskipti á upphaflegum tilgangi þessa nefndarstarfs. Að fara fram með því offorsi sem hann gerir núna gegn vilja fjölmargra aðila í þessari sömu nefnd, fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar, m.a. um innri mál verkalýðshreyfingarinnar og að taka þar upp hugmyndir og sjónarmið vinnuveitenda er fullkomlega óeðlilegt og stangast algjörlega á við upphafleg markmið nefndarstarfsins. Þetta er nauðsynlegt að komi skýrt fram, virðulegi forseti, vegna orða hæstv. ráðherra áðan og vegna framhalds þessarar umræðu.