Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 12:35:19 (4155)

1996-03-21 12:35:19# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[12:35]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Eitt með öðru góðu sem hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson gerði í ráðherratíð sinni var að koma þessari nefnd á laggirnar og ég tel að hann ætti alveg blygðunarlaust að gangast við faðerninu að því. Nefndin hefur unnið ákaflega gott starf þó að því miður leiddi það ekki til endanlegrar niðurstöðu sem samþykkt væri samhljóða, enda var það kannski til of mikils ætlast. Hún er búin að sitja 48 fundi og ræða málin. Ég hef ekki farið fram með neinu offorsi og alls ekki verið að ganga neitt erinda annars aðilans fremur en hins. (Gripið fram í: Víst.) Það viðurkenni ég ekki. Það eru líka lagðar skyldur á vinnuveitendur um lýðræðislega afgreiðsluhætti ekkert síður heldur en á verkalýðsfélögin.