Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 12:40:15 (4159)

1996-03-21 12:40:15# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[12:40]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Skýrslan kom fram í nóvember og hún leiddi glöggt í ljós að óhjákvæmilegt væri að lögfesta ákveðnar reglur. Það er gott og blessað að semja en samningarnir taka bara til þeirra sem eru aðilar að þeim, ekki til þeirra sem standa utan við samningana (Gripið fram í.) þannig að þeir geta leikið lausum hala. Því tel ég að eðlilegt sé að festa í lög þær vinnureglur sem nefndin hafði komið sér saman um.

Jafnframt vil ég taka það fram af því að ég er ekki alveg viss um að hv. 17. þm. Reykv. sé með það ljóst í huga að það er náttúrlega Alþingis en hvorki Vinnuveitendasambandsins, Vinnumálasambandsins né verkalýðsfélaganna eða BSRB að setja lög í landinu. Það er Alþingis að gera það.